Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

139. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 15:14:33 (6261)



     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi gera að umtalsefni að hér hefur verið tekið til umræðu verulegt vandamál í íslensku efnahagslífi, þ.e. staða sjávarútvegsins. Það er gert á þeim degi þegar ákveðið er að hér verði eldhúsdagsumræður og aðeins einn ráðherra, að vísu sá sem mestu máli skiptir og málinu er beint til, getur verið viðstaddur. Hitt er svo annað mál að hér er um mál að ræða sem varðar alla ríkisstjórnina og ekkert síður hæstv. forsrh. og jafnvel hæstv. utanrrh., sem hefur m.a. með útflutning á sjávarafurðum að gera og hefur verið manna harðastur í því að knýja fram skattlagningu á sjávarútveginn í þessari ríkisstjórn. Mér vitanlega er ekkert lát á því og skiptir engu máli þótt afkomutölur sjávarútvegsins verði verri og verri. Ég heyri ekki að Alþfl. breyti neitt um skoðun í þeim efnum þótt viðkomandi atvinnugrein hafi

alls ekki fjármagn til að borga slíka skatta. Þess vegna gengur nánast ekki að hér fari fram marktæk umræða um þessi mál nema fleiri geti verið viðstaddir.
    En hvað um það. Það er stutt eftir af þingtímanum og sjálfsagt erfitt að koma því fyrir hvernig þessi umræða getur farið fram með eðlilegum hætti enda er talað um að mörg mál verði að afgreiða fyrir þinglok. Sum þeirra mála eru þess eðlils að lítið liggur á þeim og væri nær að taka tíma í mál sem þetta í stað þess að vera að þröngva mörgum þeirra fram. Það er hins vegar ekkert nýtt á Alþingi, það er almennt svo að of mikið af lögum er sett og menn halda nánast að öll vandamál verði leyst með því að setja sérstaka löggjöf um þau. Það er að sjálfsögðu ekki svo í þessu tilviki sem hér er rætt um heldur er fyrst og fremst nauðsynlegt að sjávarútvegurinn fái að búa í nokkrum friði, fái að búa við góð rekstrarskilyrði og það sé reynt að skapa honum sem besta afkomu með almennum aðgerðum.
    Það er ekki nýtt að þessi mál séu rædd á Alþingi. Það var mikil umræða um þau í febrúar sl. og þá upplýsti hæstv. sjútvrh. m.a. að 200 fyrirtæki væru á beinni gjaldþrotabraut og Þjóðhagsstofnun teldi að sjávarútvegurinn væri rekinn með 4% halla.
    Í framhaldi af þeirri umræðu vísað ríkisstjórnin vandamálinu í nefnd. Hún vísaði því til nefndar sem hefur verið skipuð til að marka hér almenna sjávarútvegsstefnu í landinu. Þessi sérstaka nefnd átti að taka vandann til umfjöllunar og skila tillögum til úrlausnar í málinu. Það kom fljótt fram að formenn nefndarinnar voru mjög ósammála um ástandið. Annar nefndarformaðurinn upplýsti m.a. í viðtali 22. febrúar, með leyfi forseta:
    ,,Sjávarútvegurinn skuldar um 100 milljarða og af þeim eru 50 milljarðar tapaðir eða mjög tæpir.``
    Hinn nefndarformaðurinn upplýsti um svipað leyti, með leyfi forseta:
    ,,Menn eru allir af vilja gerðir að hlúa þannig að sjávarútveginum að hann standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans en spurningin er um leiðirnar. Þar eru klárlega skiptar skoðanir. Við verðum að finna einhvern ramma sem greinin getur róleg búið við til frambúðar.``
    Annar formaðurinn talaði mikið um gjaldþrotaleið og ræddi m.a. allmikið um að það væri búið að gera fjölmörg mistök í gegnum tíðina og það væri ekki annað að gera en að þessi fyrirtæki færu hreinlega á hausinn.
    Hinn formaður nefndarinnar sagði þann 26. apríl, svo vitnað sé í Morgunblaðið, að hann væri ósammála þeim sem vildu fara gjaldþrotaleið til hagræðingar í sjávarútveginum. ,,Dæmin sanna að gjaldþrotaleiðin, eins og hún hefur verið farin, skapar ekkert hagræði í sjávarútveginum. Ég leyfi mér að nefna uppgjörið í Ólafsvík og rækjuiðnaðinum á Ísafirði,`` sagði Magnús Gunnarsson, annar af formönnum þessarar nefndar.
    Um þetta leyti var líka rætt við bankastjóra og þeir spurðir um stöðu mála. Einn af bankastjórum Landsbankans sagði að staðan nú væri ekki ólík því sem hún var haustið 1988. ,,Þá náðist ekki samkomulag um aðgerðir milli stjórnarflokkanna og þáverandi ríkisstjórn fór frá völdum,`` svo vitnað sé í bankastjóra Landsbankans. En hann sagði jafnframt að honum hefði verið bent á það á sl. hausti þegar hann gagnrýndi ákvarðanir stjórnvalda í sjávarútvegsmálum að hann væri bankastjóri en ekki sjútvrh. og vildi ekki tjá sig frekar um málið.
    Það er út af fyrir sig ekki nýtt á þessum vetri að menn standi frammi fyrir erfiðri stöðu í sjávarútveginum og það er í sjálfu sér ekki nýtt í sögu okkar sem sjávarútvegsþjóðar að við höfum þurft að standa frammi fyrir slíkum aðstæðum. En aðalatriðið hlýtur að vera: Hvað geta menn gert til þess að laga samkeppnisskilyrði þessarar atvinnugreinar? Því til viðbótar má nefna að nú fyrir stuttu kom rekstraráætlun frá Samtökum fiskvinnslustöðva þar sem fram kemur að miðað við skilyrði í maí sé sjávarútvegurinn, þ.e. botnfiskvinnslan, rekinn miðað við 6% ávöxtun með 9,2% halla sem eru 3.552 millj. kr. á ársgrundvelli en miðað við 8% ávöxtun 3.973 millj. kr.
    Það hljóta allir að sjá og taka undir að botnfiskvinnslan getur ekki lengi búið við slíkar aðstæður. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan að afkoman væri óviðunandi. Viðunandi hallarekstur væri óásættanlegur. Ég er algjörlega sammála hæstv. sjútvrh. í þessu mati en stóra spurningin er: Hvað er hægt að gera? Eða er e.t.v. ekkert hægt að gera?
    Hæstv. sjútvrh. sagði ítrekað í sinni ræðu að það yrði að varða leið sjávarútvegsins að nýjum aðstæðum. Ég get tekið undir að það er mikilvægt að sjávarútvegurinn fái að búa við þau rekstrarskilyrði sem honum hafa verið sköpuð m.a. með skipulagsbreytingum, að það verði ekki farið að hræra í þeim aftur á bak og áfram, að Alþfl. t.d. komist ekki upp með að heimta endalaust skattlagningu á þessa atvinnugrein. Hann hefur nú þegar náð verulegum árangri á þessu sviði með því að knýja fram skattlagningu á sjávarútveginn upp á fleiri hundruð millj. kr. án þess að sjávarútvegurinn sé í stakk búinn til þess að borga þennan skatt. Enn halda menn á þeim bæ áfram á sömu braut og krefjast þess að skatturinn verði hækkaður.
    Það var að heyra á formanni Alþfl., þegar hann fagnaði því að nú væri hann loksins að verða laus frá ferðalögum til Evrópu vegna EES-samninganna, að nú ætlaði hann að snúa sér að innanlandsverkefnum. Var á honum að skilja að hann ætlaði fyrst og fremst að koma fram skipulagsbreytingum í atvinnuvegunum. Hverjar eru þessar skipulagsbreytingar sem formaður Alþfl. hefur mikinn áhuga á? Það er í fyrsta lagi að koma á auðlindaskatti í sjávarútvegi og í öðru lagi að leggja niður landbúnað á Íslandi.
    Það væri fróðlegt að fá það upplýst í þessari umræðu í hvaða ráðuneytum formaður Alþfl. ætlar

að vinna að þeim skipulagsbreytingum sem hann hefur mestan áhuga á og gæti orðið eitthvað til að greiða fyrir þessari umræðu. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að menn viti betur hvað ríkisstjórnin er að hugsa. Kannski er hún ekkert að hugsa, sem ég efast um þótt ég hafi ekki mikið álit á henni, en það hefur lítt verið upplýst hvernig eigi að vinna að þessum málum annað en það að við vitum að málið er í nefnd. Og það kemur ekkert frá nefndinni. Þetta eru hins vegar svo mikilvæg mál í íslenskum þjóðarbúskap að það er ekki hægt að vista þau í einhverri nefnd úti í bæ.
    Aðalatriðið í stöðu sjávarútvegsins er að sjálfsögðu, eins og alltaf áður, hvernig hægt er að auka tekjurnar. Er það hægt? Auðvitað er það hægt, t.d. ef meiri bjartsýni ríkir og hægt að fá peninga að láni með skikkanlegum vöxtum en ekki aðeins með okurvöxtum og það ríki trú á framtíð sjávarútvegsins. Menn verða ekki mikið varir við þá trú. Það er fyrst og fremst talað um samdrátt og niðurskurð. (Gripið fram í.) Það er nú það, hv. formaður þingflokks Alþfl., ekki vil ég kannast við að hafa verið með eintóman bölmóð því ég hef trú á íslenskum sjávarútvegi fái hann að starfa í bærilegum friði. Ég held að það væri e.t.v. mikilvægast fyrir íslenskan sjávarútveg að vera laus við Alþfl. úr ríkisstjórn. Ég held það mundi skipta mjög miklu máli og bara sú eina aðgerð, sem er ekki mjög flókin, mundi auka mjög bjartsýni í íslenskum sjávarútvegi. (Gripið fram í.) Ég gæti trúað að menn væru tilbúnir að leggja allmikið á sig til þess en ég get ekki sagt nákvæmlega fyrir um það hvað afkoman mundi batna mikið en hún mundi batna allnokkuð við það.
    Ég vil t.d. í þessu sambandi nefna að ein leið til að auka tekjur sjávarútvegsins er að sækja inn á erlenda markaði. Alþfl. heldur því fram að þar sé rétt að hafa sem minnst skipulag mála. Best sé að þar ríki sem mest frelsi en þó þannig frelsi að hægt sé að gera eitthvað fyrir ákveðna gæðinga. Því hefur verið haldið fram af saltfiskverkendum að með þessum vinnubrögðum utanrrh. hafi verð á saltfiski fallið verulega. Hæstv. sjútvrh. sagði 1. maí, svo enn sé vitnað í Morgunblaðið:
    ,,Mjög slæmt er að vera með það geðþóttaúthlutunarkerfi til fárra aðila sem nú er við lýði í salfiskútflutningi héðan.`` --- Ég endurtek fyrir formann þingflokks Alþfl.: ,,Mjög slæmt er að vera með það geðþóttaúthlutunarkerfi til fárra aðila sem nú er við lýði í saltfiskútflutningi héðan.`` --- Síðan er bætt við: ,,Það getur leitt til gæðingakerfis sem ég hélt raunar að búið væri að leggja niður hér.``
    Ég vissi að það var ekki búið að leggja þetta niður. En ég vil aðeins upplýsa hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að það hefur komið fram að sjútvrh. hefur gagnrýnt þetta með þessum hörðu orðum. Þetta er hörð gagnrýni á samstarfsmann í ríkisstjórn. Það er mjög alvarlegt mál ef einstakir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa með vinnubrögðum sínum haft tekjur af sjávarútveginum. Það má vel vera að einhver hafi dregið þetta til baka í útvarpsþætti. ( Gripið fram í: Einhver er Dagbjartur Einarsson.) Dagbjartur Einarsson, ég vissi ekki að hann hefði dregið það til baka. En það er nauðsynlegt að hæstv. utanrrh. svari til um það hvað hann hyggst fyrir í þessum efnum. Hann hefur gefið út yfirlýsingu til Sambands ísl. fiskframleiðenda um að það eigi ekki að breyta þessu kerfi fyrr en samningurinn um EES er kominn til framkvæmda ef hann kemur þá til framkvæmda. Auðvitað á að standa við slíkar yfirlýsingar. Ég er ekki að segja að það megi engu breyta í þessum efnum. En menn verða að búa við einhverja vissu. Aðilar sem selja inn á þennan markað verða að vita hvaða leikreglur gilda þar. Það hafa þeir ekki vitað. En þeir hafa viljað treysta á orð utanrrh. en því miður gert mistök með því.
    Það hefði fyllilega verið ástæða til að ræða þetta alvarlega mál fyrr á Alþingi en það hefur ekki verið tilefni til þess. Ég harma að enginn ráðherra Alþfl. skuli vera viðstaddur umræðuna í dag en þeir eru sjálfsagt uppteknir við það að undirbúa skattlagningarræður sínar í kvöld. Ég gæti trúað að hæstv. utanrrh. kæmi eitthvað inn á það í kvöld hvernig hann ætlar að standa að endurskipulagningu atvinnuveganna þegar hann er laus úr ferðalögum út af EES. (Gripið fram í.) Ég hefði gjarnan viljað undirbúa hæstv. utanrrh. nokkuð fyrir þessa ræðu með umræðum í dag en ég veit það að hann er fyllilega fær um það sjálfur að koma því til skila. En það er mín spá að eitthvað muni hann segja um það þegar hann tekur til máls í kvöld og þegar hann boðar nýja sókn í atvinnumálum Íslendinga sem ég vil frekar vara við að honum sé hleypt í.
    Að sjálfsögðu verður ekki komist hjá því að minnast á gengið í sambandi við tekjur sjávarútvegsins. Það er eitt af því sem erfitt er að tala um vegna þess að gengisstefnan hefur margar hliðar. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki einföld lækning að breyta gengi til að auka tekjur útflutningsatvinnuvega. En dettur einhverjum í hug að íslenskur sjávarútvegur geti þolað hærra gengi en hann bjó við á árinu 1990 þegar aflasamdráttur er eins og raun ber vitni og verðlækkun á afurðum er staðreynd? Getur það verið að aðilar vinnumarkaðarins séu þeirrar skoðunar að það sé ekkert mál fyrir sjávarútveginn að búa við hærra gengi en hann bjó við á árinu 1990? Ætla menn sér virkilega að láta sem ekkert sé í því sambandi? Ég vil gjarnan að staðið sé að gengismálum þannig að það sé sem mest festa á því sviði. En verðlækkanir og aflasamdráttur er áfall þjóðarinnar allrar og það er ekki hægt að leggja það á einstakar atvinnugreinar. Því hljóta þau mál að vera til umfjöllunar eins og hver önnur mál í sambandi við afkomu sjávarútvegsins. Það er engum greiði gerður með því að þjarma svo að útflutningsatvinnuvegunum með gengisstefnunni að þeir leggist á hliðina. Það hefur oft komið upp áður og því miður hafa menn oft og tíðum verið seinir til að grípa til aðgerða.
    Nú boðar hæstv. viðskrh. að það eigi að hengja sig aftan í ECU í ársbyrjun 1993 og festa gengi krónunnar við þá mynt á hverju sem gengur í íslenskum þjóðarbúskap. Halda menn að það muni verða til

þess að auka tekjur Íslendinga að standa þannig að gengismálum? Það er enn ein ástæðan fyrir því að það væri mjög góð aðgerð að losna við Alþfl. úr ríkisstjórn. Og það er að koma betur og betur í ljós enda er Alþfl. að verða ,,ultra`` hægri flokkur sem minnir mann helst á það að í Danmörku er gamall og gróinn flokkur sem heitir Venstre en er sennilega sá flokkur í Danmörku sem er mest til hægri og það er að verða svo með Alþfl. líka. Hann er sprottinn úr sósíalismanum, jafnvel kommúnismanum, en þeir eru kallaðir hægri menn í dag og ég sé ekki betur en Alþfl. sé að lenda í sömu súpunni og sumir flokkar af þessum uppruna.
    Ég ætla aðeins að snúa mér að kostnaðarhlið sjávarútvegsins og vil þá fyrst nefna vextina. Núv. ríkisstjórn hælir sér mjög af því að hún hafi náð miklum árangri í ríkisfjármálum sem hafi ekki aðeins orðið til þess að bæta afkomu ríkissjóðs heldur og til að lækka vextina. Nú skal það fúslega viðurkennt að það er mikilvægt í efnahagsstjórnun Íslendinga að minnka halla ríkissjóðs og hefur að sjálfsögðu áhrif inn á peningamarkaðinn. Það var ein af forsendum þess að þessir kjarasamningar tækjust að vextir mundu lækka. Þeir hafa lækkað eitthvað en það er alls ekki ljóst hvað þar var talað um því að Landsbankinn virðist draga mjög lappirnar því máli. En Landsbankinn er sá banki sem sjávarútvegurinn hefur langmest viðskipti við. ( Gripið fram í: Sjálfstfl. stjórnar því.) Já, ég skal ekki segja um það hverjir það eru en þar er m.a. sá bankastjóri sem ég vitnaði áður í. ( Gripið fram í: Þingmaður í bankaráðinu.) Já, það eru margir ágætir menn í bankaráði. En þarna ríkir nokkur óvissa. Ég sé ekki að það liggi á borðinu að atvinnureksturinn og launþegar geti treyst því að þarna verði að málum staðið með þeim hætti sem um var talað enda er það vitað mál að það eru ekki allir jafnáhugasamir í núv. ríkisstjórn um að lækka vextina. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi talað alveg skýrt um það að nauðsynlegt sé að lækka vextina. En ég hef ekki heyrt sama tón í Alþfl. sem virðist vera mjög valdamikill í þessari ríkisstjórn svo að enn sé vitnað í formann flokksins. ( Gripið fram í: Aldrei jafnvaldamikill.) Aldrei jafnvaldamikill og það er ekki að heyra á Alþfl. að ástæða sé til að lækka vextina mikið og alls ekki rétt að vera að skipta sér af því. Menn eigi ekki að vera með svona afskiptasemi af öllum sköpuðum hlutum.
    Ég vil jafnframt taka fram að nú liggur fyrir til afgreiðslu á þingingu frv. til laga um skattskyldu innlánsstofnana þar sem gert er ráð fyrir því að fjárfestingarlánasjóðirnir greiði bæði tekjuskatt og eignarskatt til samræmis við aðrar peningamálastofnanir eins og það er gjarnan kallað. En það er svo með skattlagninguna að hún lendir á einhverjum. Það er eins og menn haldi stundum að það að leggja skatta á fyrirtæki, t.d. í formi aðstöðugjalds, lendi bara á fyrirtækinu, það lendi alls ekki á neytendum. Auðvitað lendir það á neytendum í einu eða öðru formi. Og það er jafnframt vitað að þessi fyrirhugaða skattlagning á Fiskveiðasjóði mun hækka verulega vexti á sjávarútveginn. Ég hef ekki orðið var við að það standi til að draga þetta til baka við þessar aðstæður, jafnvel þótt birtar séu tölur um að sjávarútvegurinn sé að tapa 10% af veltu sinni. Ég hef ekki orðið var við að það sé hugmyndin að draga til baka sérstaka skattlagningu á sjávarútveginn sem á að leggja á hann í haust, jafnvel þótt afkoman sé með þessum hætti. Við horfðum upp á það í fjárlagaafgreiðslunni að skattar á sjávarútveginn voru þá hækkaðir samkvæmt útreikningum LÍÚ um einar 650 millj. kr. Ég er viss um að það dregur úr fjárlagahallanum. En er það það eina sem skiptir máli --- að draga úr fjárlagahallanum? Skiptir halli atvinnuveganna engu máli? Halda menn að þjóðarbúskapurinn verði bara rekinn með því að reka ríkissjóð hallalausan? Ætli þurfi ekki fyrst og fremst að reka atvinnulífið með hagnaði til þess að tryggja verðmætasköpunina? Við heyrum að það sé rétt að fara ofan í þessi mál, það sé rétt að skoða þau og þau eru sett í nefnd og það er talað um að þetta sé allt í athugun. En ég verð ekki var við að þar séu nokkur úrræði og ég gæti trúað því að það sé vegna þess að ósamkomulag er um málið í núv. ríkisstjórn. Það er ósamkomulag um fiskveiðistjórnunina. Það er ósamkomulag um afkomumál atvinnuveganna. Það er ósamkomulag um hvort það eigi að leggja sérstaka skatta á sjávarútveginn í formi auðlindaskatts og þetta virðist allt saman vera fast.
    Sama má segja um aðstöðugjaldið. Það kom fram í vetur að núv. sjútvrh. taldi mjög mikilvægt að fella niður aðstöðugjaldið sem er vitlausasti skattur sem til er á Íslandi. Ég held að það sé orðin allgóð samstaða um það. Það hefur hins vegar komið fram að forsrh. og einnig fjmrh. eru ekki sömu skoðunar, forsrh. sérstaklega. Hann er áhugasamur um afkomu Reykjavíkurborgar, eins og allir vita, situr þar enn í borgarstjórn og er greinilega í miklum hagsmunaárekstri við sjálfan sig í því máli enda er fráleitt að starfandi forsrh. sitji í einni af sveitarstjórnum landsins. Það er því engin niðurstaða í því máli heldur.
    Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að halda langa ræðu. (Gripið fram í.) Ja, það má lengja hana. Ég heyri það að formanni þingflokks Alþfl. líður heldur illa undir ræðu minni en það er út af fyrir sig nauðsynlegt að hann heyri að hér er mikil alvara á ferðinni og á ekki að umgangast það af neinni léttúð. Það er vissulega rétt hjá hæstv. sjútvrh. að mikilvægt er að halda áfram á braut hagræðingar í sjávarútveginum og margt af því sem þar er að gerast er til mikilla bóta, t.d. fækkun skipa sem hann gerði að umtalsefni. En það er ekki nægilegt og það er ekki hægt að reikna með því að þær aðgerðir skili svo miklum árangri á næstunni að það muni koma í veg fyrir það að sjávarútvegurinn verði fyrir verulegum áföllum. Við hljótum að spyrja hæstv. sjútvrh. hvað hann telji vera helst til bjargar.
    Ég hef komið inn á tekjuhliðina. Ég hef minnst á vextina. Ég vildi líka spyrja um Verðjöfnunarsjóðinn sem hefur verið til umfjöllunar og eftir því sem ég best veit eru málefni hans til athugunar í sérstakri nefnd. Mun sú afkoma, sem menn nú standa frammi fyrir, og það markaðsverðlag verða til þess að farið verður að greiða út úr sjóðnum? Ég hef ekki upplýsingar um það. Er það hugmynd ríkisstjórnarinnar að greiða sérstaklega fyrir því að þar komi til útgreiðslu án þess þó að riðla því kerfi sem þar var komið á? Ég vil spyrja hann um það hvort það sé hugmyndin að breyta í einhverju þeirri skattastefnu sem ákveðin var á sjávarútveginn og falla frá ýmsum þeim gjöldum sem á atvinnugreinina voru lagðar. Það er ekki enn farið að greiða þær 525 millj. kr. sem gert er ráð fyrir að muni ganga til Hafrannsóknastofnunar, það verður byrjað á því nk. haust. Verður fallið frá því í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi?
    Ég vil jafnframt spyrja sjútvrh. um vaxtamálin, hvort hann telji það ekki óheppilegt að Fiskveiðasjóður hækki vexti sína verulega vegna skattskyldu sjóðsins sem verður væntanlega komið á fyrir lok þessa þings og hvort sjávarútvegurinn sé í stakk búinn til að mæta þeirri gjaldahækkun. Ég vil jafnframt spyrjast fyrir um það hvort ríkisstjórnin hyggist halda genginu algerlega stöðugu án tillits til þess hvað gerist á mörkuðum og hvort ekki sé skynsamlegt að láta það hverfa smátt og smátt til þess horfs sem var t.d. á árinu 1990. Það eru ekki miklar breytingar en hvert prósentustig skiptir máli í þessu sambandi. Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég er ekki þeirrar skoðunar að almenn gengisfelling muni koma sjávarútveginum til mikillar bjargar. Útgjaldahlið hans er líka svo háð gengi, eins og lán hans og ýmsir kostnaðarliðir, að ekki er hægt að reikna með því að það muni skila honum verulegum bata.
    Ég vil líka spyrja betur um endurskoðun á fiskveiðistefnunni. Hæstv. ráðherra sagði það í sinni ræðu að það yrði á næstunni haft betra samráð við sjútvn. Alþingis um þau mál. Það er rétt að haldnir hafa verið tveir fundir með þessari nefnd. Það hefur ekki mikið komið út úr þeim fundum og nefndin hefur haft frá litlu að segja í sambandi við vinnu að málinu. Við höfum hins vegar óskað eftir því að fá að fylgjast betur með þessu máli og við höfum margir hverjir haldið að það væri málinu til styrktar að sem flestir kæmu að því, sérstaklega sjútvn. þingsins en það hefur afar lítið orðið úr því. Við höfum haft það á tilfinningunni að ríkisstjórnin vildi loka þetta mál sem mest inni í nefnd stjórnarflokkanna eins og reyndar hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar í flestum málum. Það hefur verið stefna hennar í nær öllum málaflokkum að stjórnarandstaðan á Alþingi komi sem minnst að nema á síðustu stigum á Alþingi. Ég held að það sé afar óskynsamlegt að því er varðar fiskveiðistefnuna. Það má vel vera að það taki lengri tíma að þurfa að tala við fleiri menn en hér er um svo stórt mál að ræða að það er óskynsamlegt að víkjast undan því að stjórnarandstaðan komi að því máli með einum eða öðrum hætti.
    Ég vil svo að lokum segja að sú staða sem sjávarútvegurinn stendur nú frammi fyrir er mjög alvarleg. Hallarekstur sem þar er er að mestu leyti vegna versnandi ytri skilyrða. Það er vegna aflasamdráttar. Það er vegna verðfalls á afurðum og það er alveg ljóst að þessi staða væri enn þá verri ef iðnaðurinn hefði ekki getað náð verulegum árangri í sambandi við endurskipulagningu og hagræðingu. En ég tel það nánast útilokað að ætlast til þess að öllu þessu verði mætt á stuttum tíma með þeim hætti nema til verulegrar byggðaröskunar komi. Það má vel vera að sumum finnist það allt í lagi. En verulegri byggðaröskun fylgir ekki aðeins hrun ákveðinna fyrirtækja heldur skapar hún jafnframt aðra erfiðleika á viðkomandi stað. Húsin verða verðlaus, mannvirkin, sem hið opinbera er búið að byggja, verða líka verðlaus og það verður upplausn í samfélaginu. Þau fyrirtæki sem eru í öðrum atvinnurekstri lenda jafnframt í miklum vandamálum vegna þessa og það gleymist oft að taka tillit til þess þegar rætt er um hvað gera skuli í íslenskum sjávarútvegi. Það má segja að þær hugmyndir sem komu frá öðrum formanni þeirrar margfrægu nefndar, þegar talað var um gjaldþrotaleiðina af hálfu Þrastar Ólafssonar, hafi ekkert tillit tekið til þessara sanninda.
    Ég vona að umræðan geti haldið áfram síðar í vikunni eða í næstu viku og vænti þess að fleiri ráðherrar verði þá viðstaddir svo hægt sé að eiga við þá eðlileg skoðanaskipti en ég þarf ekki síður á því að halda að tala um þessi mál við utanrrh. og forsrh. en hæstv. sjútvrh. Hér er um svo stórt mál að ræða að það hlýtur að varða flestalla ráðherra í ríkisstjórninni.