Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 20:35:00 (6267)


     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti, góðir Íslendingar. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur aðeins setið í rúmt ár en engu að síður hefur hún þegar markað djúp spor í íslenskt þjóðlíf, spor sem ég satt að segja óttast að verði ekki metin falleg þegar til síðari tíma er komið. Ég óttast einnig að mörg þessi spor séu í raun tekin án umboðs kjósenda og ég ætla að rekja hér nokkur dæmi.
    Ríkisstjórnin tók sér fyrir hendur strax og hún kom til valda að hafna því blandaða hagkerfi sem við Íslendingar höfum búið við um áratugaraðir og hefur reynst okkur satt að segja mjög vel. Það er á grundvelli þessa hagkerfis, sem einkennist af samstarfi ríkisvalds, atvinnurekenda, launþega og bænda, sem tekist hefur að skapa hér á landi lífskjör sem eru með því besta sem þekkist. Á grundvelli þessa hagkerfis hefur tekist að skapa velferðarþjóðfélag sem við getum vissulega verið stolt af. Velferðarþjóðfélag þar sem leitast er við að tryggja jafnræði og jafnrétti, bæði í heilbrigðismálum og menntamálum.
    Þess í stað hefur ríkisstjórnin innleitt kerfi markaðsins, frjálshyggjunnar svonefndu, sem vissulega hefur víða verið reynd eins og í löndunum í kringum okkur, sérstaklega í Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem íhaldssamir leiðtogar innleiddu hana fyrir rúmum áratug. Hógværari leiðtogar þeirra sömu flokka leitast nú við að lagfæra margt af því sem þar hefur farið úrskeiðis á grundvelli þeirrar stjórnarstefnu.
    Ég hygg að frjálshyggjunni sé hvað best lýst með orðum fyrrverandi borgarstjóra Lundúna, sem sagði einu sinni að Margrét Thatcher hefði verið undir áhrifum brjálaðra prófessora. Ég ætla að vísu ekki að kalla ráðgjafa hæstv. forsrh. brjálaða prófessora en óumdeilanlega minnir þetta dálítið á hjáróma raddir frjálshyggjunnar sem hér hafa hljómað alllengi en ekki náð sínu fram fyrr en nú með ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Reyndar koma merki frjálshyggjunnar alls staðar fram. Þau koma fram í atvinnumálum þar sem hæstv. forsrh. hefur keppst við að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar þannig að ástandið komi henni ekki við. ,,Kemur-mér-ekki-við``-ríkisstjórn hafa sumir kallað hana.
    Hæstv. forsrh. hefur boðað að hagræða skuli í atvinnumálum með gjaldþrotastefnu. Efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar er gjaldþrotastefna. Við framsóknarmenn ræddum þessi mál ítarlega á miðstjórnarfundi nýlega, við höfnum að sjálfsögðu slíkri stefnu í efnahagsmálum, við höfnum frjálshyggjunni. Við fögnum því vitanlega að samningar hafa náðst á hinum almenna markaði, en það er engin þjóðarsátt. Því fer víðs fjarri. Það eru ekki frjálsir samningar atvinnurekenda, launþega, bænda og ríkisvalds og reyndar gleymdust bændur í þessum samningum. Þetta eru samningar sem eru gerðir í skugga atvinnuleysis og gjaldþrota eins og svo greinilega kom fram í öllum ræðum leiðtoga launþega 1. maí sl.
    Vissulega ber að fagna að í þessum samningum náðist að lækka vexti nokkuð. Þeir eru þó enn allt of háir. En athyglisvert er að nú eru þeir lækkaðir með handafli sem hefur verið hafnað af þessari ríkisstjórn allt frá því að hún tók við völdum sem óframkvæmanlegri aðgerð. Meira að segja hæstv. viðskrh. er farinn að láta hafa eftir sér í dagblöðum að lánastofnanirnar verði að gjöra svo vel að lækka vexti. Þeim er skipað í dag það sem ekki mátti fyrir örfáum vikum. Vextirnir eru í kringum 9% af verðtryggðum lánum og líklega um 11% af óverðtryggðum og það eru miklu hærri vextir en íslenskir atvinnuvegir geta borið.
    Íslenskir atvinnuvegir eru í nokkrum erfiðleikum en þó langt frá því að þeir séu nokkuð meiri en þeir hafa verið oft áður. Þeir eru engu meiri en íslenska þjóðin hefur hvað eftir annað unnið sig út úr með samstilltu átaki ríkisvalds, atvinnurekenda, launþega og bænda. Vitanlega á að vinna þannig enn á ný. Það sem vantar fyrst og fremst er örvandi hönd frá ríkisstjórninni með aðstoð við atvinnuvegina til að ná sér á strik, ef ég má orða það svo, fyrir nýjar atvinnugreinar til þess að komast yfir þröskuldinn og til þess að finna markað fyrir margs konar framleiðslu sem getur átt sér stað hér og við höfum reyndar heyrt ágætt dæmi um nýlega frá hugvitssömum og duglegum mönnum á hugbúnaðarsviðinu. Að vísu hefur hæstv. sjútvrh. boðað nokkra aðra stefnu, en því miður þá er rödd hans hjáróma, hann fær ekki því framgengt sem hann óskar í skugga frjálshyggjunnar.
    Frjálshyggjan kemur einnig fram í þeirri einkavæðingu sem virðist vera framkvæmd meira sem trúarbrögð en stefna. Við framsóknarmenn höfum svo sannarlega ekkert á móti því að hlutabréf séu seld í fyrirtækjum þar sem samkeppni er nægjanleg. Reyndar lítum við svo á að ríkisrekstur eigi að vera undantekning. Ríkisrekstur kann hins vegar að vera nauðsynlegur, alveg sérstaklega til að veita þjónustu á ýmsum sviðum velferðarþjóðfélagsins og ríkisrekstur er sérstaklega nauðsynlegur þegar tryggja á jafnrétti, bæði til heilbrigðismála og til menntunar.
    En einkavæðingin er ekki ætíð sjálfsögð. T.d. er einkavæðing mjög vafasöm nú þegar það fjármagn, sem er af mjög skornum skammti, er nauðsynlegt fyrir atvinnuvegina sjálfa og ekki eru til í landinu nein þau lög sem koma í veg fyrir að þau hlutabréf sem eru sett á hinn frjálsa markað safnist á fáar hendur.
    Frjálshyggjan kemur einnig fram í aðför hæstv. ríkisstjórnar að heilbrigðiskerfinu sem reyndar mætti líkja helst við hryðjuverk, svo er fram gengið. Þar er fyrirskipaður flatur niðurskurður sem gömul reynsla

segir að er óframkvæmanlegur í heilbrigðiskerfinu, og síðan fer hæstv. heilbrrh. um landið og gefur mönnum krónu hér og krónu þar, opnar fæðingardeild þar sem átti að loka henni o.s.frv. af sinni alkunnu mildi. En eftir sem áður er heilbrigðiskerfið skilið eftir sem flakandi sár.
    Vitanlega þarf að spara í heilbrigðiskerfinu þegar að þrengir. Á því er ekki nokkur vafi. En það verður aldrei gert svo að vel sé nema í samráði við heilbrigðisstéttirnar sjálfar. Vitanlega þarf að hagræða t.d. á milli stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. En það verður ekki gert með þeim brögðum sem beitt hefur verið af núv. ríkisstjórn.
    Vel getur verið að við verðum að láta greiða í vaxandi mæli fyrir einhverja þjónustu sem ekki er eins lífsnauðsynleg og önnur. Það má vel vera að það verði að greiða eitthvað eftir efnum og aðstæðum. Hins vegar er mikilvægast að unnið sé að þessum málum skipulega, eins og t.d. var gert af fyrrv. heilbrrh., Guðmundi Bjarnasyni, þar sem jarðvegurinn var undirbúinn fyrir skynsamlega hagræðingu í íslensku heilbrigðiskerfi.
    Hvergi hygg ég þó að krumla frjálshyggjunnar komi greinilegar og alvarlegar fram en í menntamálunum. Staðreyndin er sú að allar þjóðir sem náð hafa langt byggja á þekkingu. Við þörfnumst svo sannarlega þekkingar ekki síður en aðrar þjóðir. Við þörfnumst þekkingar til þess að hagræða í sjávarútveginum. Við þörfnumst þekkingar til þess að nýjar atvinnugreinar megi blómstra eða til þess að heilbrigðiskerfið gangi vel og menntakerfið sjálft. Ég óttast að þau spor séu þau ljótustu sem þessi ríkisstjórn hefur tekið. Í haust þurfa þeir sem innritast í Háskóla Íslands að greiða 23 þúsund króna inntökugjald. Verið getur að það sé ekki stór upphæð í huga margra. Þó eru margir sem munu eiga erfitt með að greiða þá upphæð.
    Í haust standa námsmenn frammi fyrir því að námslán verða í fyrsta sinn ekki útborguð. Ég bið menn að hugleiða þetta, enn þá er tækifæri til að leiðrétta þessa hluti á Alþingi og ég heyri a.m.k. að ungir kratar vonast til þess að einhverjir úr þeirra þingmannaliði verði til að rétta þar hjálparhönd. Við skulum vona að svo verði.
    Á þessum sama tíma hefur ríkisstjórnin til meðferðar staðfestingu á samningi um hið evrópska efnahagssvæði. Vafalaust er það rétt sem hæstv. utanrrh. hefur sagt, að þetta er einhver mikilvægasti samningurinn sem við Íslendingar höfum gert, ef ekki sá mikilvægasti. Að sjálfsögðu er ýmislegt í samningi um Evrópska efnhagssvæðið sem er mikilvægt og gagnlegt fyrir okkur Íslendinga ef rétt er á málum haldið. T.d. er afar mikilvægt að fá niðurfellda tolla af íslenskum sjávarafurðum. Vitanlega getur það stuðlað að því að fullvinnsla sjávarafurða aukist hér, vinnsla matvæla úr sjávarafurðum sem verða tilbúin til þess að setja í ofninn.
    En þessi samningur hefur einnig fjölmargar hættur í för með sér. Staðreyndin er sú að bjargráðin koma aldrei erlendis frá. Samningurinn er hættulegur ef hér er ekki þrekmikil þjóð, menn sem eru fullir bjartsýni en ekki svartsýni, menn sem eru tilbúnir að byggja á eigin krafti og eigin auðlind. Alvarlegast við boðskap ríkisstjórnarinnar er að til greina geti komið í kjölfar þessa samnings að sækja jafnvel um aðild að Evrópubandalaginu. Þá er svo sannarlega sjálfstæði og fullveldi þessarar þjóðar glatað, á því er ekki nokkur vafi.
    Okkur framsóknarmönnum er ljóst að ríkisstjórnin hefur meiri hluta til þess að staðfesta samninginn og við lítum á það sem hvað mikilvægast nú í stöðunni að forða frá því að næsta skrefið verði umsókn um aðild að Evrópubandalaginu. Við deilum á ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki þegar tekið upp athugun á því hver staða Íslands verður þegar allar EFTA-þjóðirnar hinar hafa gerst aðilar að Evrópubandalaginu. Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki tekið upp viðræður í Brussel um það hvort breyta megi þessum samningi í tvíhliða samning sem mundi þá vissulega tryggja okkur það sem mikilvægast er og að verða svo sannarlega fullnægjandi fyrir þessa þjóð?
    Við Íslendingar erum í ótrúlega góðri stöðu, ekki síst í dag þegar hlutirnir gerast svo fljótt og vandasamt er að rata hinn gullna meðalveg. Við erum staðsettir mátulega langt frá meginlandi Evrópu, nálægt stórveldunum við Norður-Ameríku, stutta leið frá Japan, og við getum svo sannarlega ef við höfum dug og kjark byggt hér --- ekki um áratugi heldur aldir --- þjóðfélag sem verði til fyrirmyndar í þessum heimi. Fyrst og fremst byggir það á okkur sjálfum en engum boðskap erlendis frá. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.