Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:05:11 (6275)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin, sem mynduð var eftir alþingiskosningarnar fyrir rúmu ári, telur sig geta treyst á 36 atkvæði á Alþingi. Það er í krafti þessa meiri hluta sem ákvarðanir eru teknar. Flestar hafa þær beinst að því að auka misréttið í þjóðfélaginu og höggva skörð í velferðarkerfið sem byggt hefur verið upp með víðtækri samstöðu í samfélagi okkar. Það hefur verið aðaleinkennið á ákvörðunum ríkisstjórnarmeirihlutans á þessu þingi.
    Hins vegar eru það starfsaðferðir ríkisstjórnarinnar sem teljast til nýmæla. Þeim mætti lýsa með orðunum ,,ekkert samráð``. Ríkisstjórnina og handlangara hennar á þinginu varðar ekkert um hvað við í stjórnarandstöðunni höfum til málanna að leggja né heldur almenningur og samtök fólks. Þetta ólýðræðislega viðhorf hefur einkennt þinghaldið allt frá fyrsta degi í haust. Það birtist okkur með því að stjórnarmeirihlutinn kaus að sitja einn og einangraður í forsætisnefnd þingsins, þvert á viðteknar lýðræðishefðir og vinnubrögð eins og þau tíðkast á þingum annarra Norðurlanda. Svo kvartar forsrh. yfir því að við skulum voga okkur að taka til máls á Alþingi og freista þess að koma í veg fyrir að vond mál nái fram að ganga.
    Kjörorðin ,,ekkert samráð`` hafa líka ráðið ferðinni í hverju stórmáli á fætur öðru. Í niðurskurðarbandormi stjórnarinnar um síðustu áramót í aðdraganda kjarasamninga og við undirbúning og meðferð frv.

um Lánasjóð ísl. námsmanna. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort þessi einræðiskenndu vinnubrögð eru arfur sem fylgt hafi nýjum forsætisráðherra og formanni Sjálfstfl. úr borgarstjórnarstólnum upp í Stjórnarráð. En þess verður heldur ekki vart að forusta Alþfl. og núverandi formaður flokksins kunni þessum starfsaðferðum illa enda grunnurinn að stjórninni lagður í Viðey með tveggja manna tali.
    Við upphaf þingsins var innleitt nýtt atkvæðagreiðslukerfi á Alþingi. Þinghaldið hefur stundum einkennst af glímunni við þessa nýju tækni. Ýmsum hafa verið mislagðar hendur og hafa ekki alltaf hitt á rétta hnappinn. Það hefur líklega gleymst að hanna kerfið þannig í upphafi að þeir Jón og Davíð gætu ráðið fyrir hina 34 og það er einmitt þessi ágalli sem gæti orðið stjórn þeirra falli fyrr en seinna. Það er nefnilega að koma í ljós að það eru ekki allir í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinar sem vilja láta meðhöndla sig eins og strengjabrúður. Launráðin frá Viðey hafa nú þegar bitnað óþyrmilega á þeim hópum í þjóðfélaginu sem lakast eru settir. Þetta á við um konurnar sem fylla láglaunahópana á vinnumarkaði, þetta á við um barnafjölskyldurnar, þetta gildir um sjúka og lasburða og ekki síst um aldraða fólkið sem skilað hefur okkur þeim lífskjörum sem við búum nú við. Þessi niðurskurður bitnar mest á konum sem þurfa að taka á sig launalausa vinnu á heimilunum við umönnun sjúkra og aldraðra sem vísað er út af opinberum stofnunum. Það er ólíkindum hvernig heilbrrh. hefur á tveimur missirum tekist að setja heilbrigðiskerfi þjóðarinnar á annan endann. Ráðstafanir hans felast í að loka sjúkradeildum víða um land, skella í lás á Fæðingarheimili Reykjavíkur, hækka lyfin og senda sjúka og aldraða til síns heima, án tillits til aðstæðna. Framganga heilbrrh. í málefnum Landakotsspítala er dæmigerð fyrir vinnubrögð hans þar sem ekki var tekið tillit til eins eða neins og ganga átti gegn samningum og fórnfúsu uppbyggingarstarfi nunnanna sem lögðu grunn að spítalanum. Nú er þessi ráðherra hlaupinn úr landi og hefur ekki einu sinni fyrir því að standa reikningsskil gerða sinna á síðustu dögum þingsins.
    Sami óhugnaðurinn blasir við í menntamálum þjóðarinnar. Þar er ráðist gegn hagsmunum barna og unga fólksins sem leggja á grunninn að Íslandi framtíðarinnar. Skammsýni hefur til þessa einkennt allar athafnir menntmrh. Sjálfstfl. Ráð hans voru þau ein að skera niður kennslustundir, fjölga í bekkjardeildum skólanna og velta kostnaði yfir á sveitarfélögin. Með öllum þessum aðgerðum er aukið við misrétti og ávinningum liðinna ára stefnt í mikla hættu. Á einu ári hefur ríkisstjórninni tekist að færa Ísland aftur um áratugi og við erum nú að keppa við Grikki um þann vafasama sess að vera neðst Vestur-Evrópuþjóða í framlögum til menntamála. Þessi aðför að menntakerfinu er síðan kórónuð með þeim miklu breytingum á Lánasjóði ísl. námsmanna sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla að knýja fram á Alþingi á næstu dögum. Þar er gengið þvert gegn markmiðum um jafnrétti til náms, m.a. með því að gera sjóðinn að eins konar bankastofnun sem krefst vaxta og þóknunar í formi lántökugjalda um leið og kröfur til ábyrgðarmanna eru stórlega hertar. Þessu til viðbótar á svo að loka lánasjóðnum á seinni hluta ársins og veita þaðan í frá námslán eftir á. Með því er námsmönnum gert að fleyta sér á rándýrum bankalánum allan námstímann.
    Það er athyglisvert að sjá þingflokk, hinn svokallaða Jafnaðarmannaflokk Íslands, undir verkstjórn fyrrv. formanns Stúdentaráðs, þjappa sér upp að Sjálfstfl. í þessari aðför að námslánakerfinu.
    Ráðuneyti umhverfismála hefur því miður ekki hlotið þann sess sem því ber innan Stjórnarráðsins. Jákvæð viðleitni hefur komið fram á einstökum sviðum hjá umhvrh. en hún hefur hlotið afar takmarkaðan stuðning af hálfu þingflokka ríkisstjórnarinnar. Þetta endurspeglast m.a. í fjárlögum þessa árs sem einkennast af niðurskurði til þessa málaflokks. Það er sorglegt að á sama tíma og ferðamannastraumurinn vex hér á landi frá ári til árs eru fjárveitingar skornar niður til Náttúruverndarráðs þannig að draga verður úr landvörslu á friðlýstum svæðum.
    Það er góðra gjalda vert að talsmenn umhvrh. eru látnir taka stórt upp í sig á alþjóðavettvangi en lítið er hins vegar hugsað um að hreinsa til í eigin garði. Það er dæmigert að í áætlunum um álver á Keilisnesi lætur umhvrh. undan kröfum iðnrh. og hinna erlendu álfursta um að slaka verulega á kröfum um mengunarvarnir. Er það virkilega meiningin að draga hingað erlenda stóriðju á þeim forsendum að minna þurfi að kosta til mengunarvarna hér en annars staðar á Vesturlöndum?
    Það er löngu tímabært að íslensk stjórnvöld taki umhverfismálin föstum tökum og veiti þeim forgang. Umhverfisvernd er að verða mál málanna á alþjóðavettvangi. Verði ekki brugðist við með samstilltu átaki þjóða til að draga úr orkunotkun, sóun auðlinda, fólksfjölgun og mengun, styttist óðum í ragnarök á heimilinu jörð.
    Áframhaldandi aukning mengandi lofttegunda og gróðurhúsaáhrifin og hækkandi hitastig, sem af þeim leiðir, getur á komandi öld leitt til hækkandi sjávarstöðu og kaffært strandsvæði með stórborgum og ræktuðu landi. Það er ógnvekjandi að þrátt fyrir þessar horfur og aðra váboða skuli efnahagsstarfsemi iðnríkjanna ekki taka mið af þessum vanda. Það ætti að vera fremsta viðfangsefni stjórnmálamanna að girða fyrir þennan ófarnað og brúa um leið bilið milli ríkra þjóða og fátækra.
    Virðulegi forseti. Langsamlega afdrifaríkasta málið sem nú setur mark sitt á þjóðmálaumræðuna er samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði og hugmyndirnar sem komnar eru á kreik um aðild Íslands að Evrópubandalaginu. Það er illt til þess að vita að það skuli vera eitt helsta verkefni tveggja ríkisstjórna að elta hugmyndir Jónanna í Alþfl. um aðild Íslands að EES. Með þessum samningi yrði stjórnarfarslegt sjálfstæði þjóðarinnar stórlega skert. Íslendingum er ætlað að taka við lagasafni Evrópubandalagsins á sviði efnahags- og atvinnumála og framvegis yrði Alþingi að setja lög eftir fyrirskipunum frá Brussel. Í samningnum sem utanrrh. undirritaði fyrir rúmri viku er skýrt tekið fram að þar sem íslensk lög og EES-reglur greinir á skuli íslensk lög víkja. Það verður meginviðfangsefni Alþingis sem eftir er ársins að fjalla um þennan dæmalausa samning. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál hljómar æ víðar og er engan veginn bundin við stjórnarandstöðuna á Alþingi. Getur verið að ríkisstjórnin sé svo hrædd um stöðu sína í þessu máli að hún treysti sér ekki til að skjóta því til umsagnar þjóðarinnar af þeim sökum?
    Þeim fjölgar nú óðum sem öðlast skilning á raunverulegu innihaldi EES-samnings og að sama skapi vex andstaðan. Nýleg skoðanakönnun á Suðurlandi, þar sem 70% þeirra sem afstöðu tóku reyndust vera á móti samningnum, talar sínu máli. Við skulum vona að meiri hluti alþingismanna beri gæfu til að standa vörð um sjálfstæði okkar og vísa þessum samningi frá.
    Íslendingar eiga allt aðra og betri kosti en að láta innlima sig í Evrópustórveldi. Sjálfstæðið er dýrmætasta eign okkar. Í skjóli þess og með yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum lands og sjávar hefur tekist að byggja hér upp öflugt menningarsamfélag og góð lífskjör.
    Í viðskiptum eiga Íslendingar að líta til allra átta. Við höfum góðan viðskiptasamning við Evrópubandalagið og unnið hefur verið með árangri að gerð tvíhliða samninga við EB, m.a. á sviði mennta, rannsókna og umhverfismála. Á þennan hátt eigum við að þróa og endurbæta samskipti okkar við Evrópubandalagið en halda um leið stöðu okkar sem sjálfstæð smáþjóð.
    Þau mál sem ég hef gert hér að umræðuefni njóta vaxandi skilnings, ekki síst meðal kvenna. Konur verða harðar úti vegna niðurskurðar á velferðarkerfinu og harðnandi samkeppni á mörgum sviðum sem leiða af sér aukið atvinnuleysi og ójöfnuð í samfélaginu.
    Siglingaljós ríkisstjórnarinnar taka ekki mið af hagsmunum kvenna og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Það er dapurleg staðreynd að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa þau áhrif að auka álagið á konur á heimilunum og ýta þeim út af vinnumarkaði. Kvennalistinn er í harðri andstöðu við þessa ríkisstjórn og stefnu hennar. Við viljum samfélag sem tekur mið af framtíðarhagsmunum þar sem börn, konur og karlar njóta sannmælis hlið við hlið. Til þess þurfa kvenleg gildi að styrkjast til muna og áhrif kvenna að aukast á öllum sviðum þjóðfélagsins og setja meiri svip á störf og ákvarðanir á Alþingi. ---Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.