Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:23:06 (6277)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fara örfáum orðum um ummæli hæstv. forsrh. í ræðu hans áðan. Ráðherra hefur að vísu gengið úr salnum, honum ofbýður líklega langlokuræðurnar sem við höldum í kvöld. En ég verð að segja það að hvort sem um er að ræða prédikanir hans á siðferðislega sviðinu eða efnahagssviðinu, þá er þar steinum kastað úr glerhúsi og varðandi efnahagsmálin er ég ekki frá því að það glerhús sé með snúningsgólfi.
    En á móti hverju er verið að berjast? Núv. ríkisstjórn hefur kosið að fara þá leið sem á sér ekki hljómgrunn meðal meiri hluta þjóðarinnar. Hún hefur kosið að láta harða peningahyggju ráða ferðinni. Valið sér leið þar sem þeir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Hún leitar sér fyrirmyndar til þjóðfélaga eins og t.d. Bandaríkjanna þar sem svo er komið að allur vöxtur þjóðarframleiðslu fellur í skaut innan við 1% íbúanna. Þeir sem eiga sér ekki sterkan fjárhagslegan bakhjarl eða standa á einhvern hátt höllum fæti eiga sér ekki viðreisnar von. Nú er það ekki svo að allir þingmenn stjórnarliðsins séu fylgjandi þeirri stefnu sem hér hefur verið nefnd og það var staðfest með ræðu hæstv. félmrh. áðan. En það skiptir litlu máli þegar horft er til þess að hin hörðu peningaöfl ráða ferðinni. Þetta sést glöggt á ýmsum þingmálum frá því í vetur.
    Við afgreiðslu fjárlaga þótti sérstök ástæða til þess að láta ellilífeyrisþega, barnafólk með miðlungstekjur, sjúklinga, sjómenn og sauðfjárbændur bera auknar álögur á sama tíma og hátekjufólki var hlíft. Þetta vil ég biðja menn að skoða í ljósi hástemmdra yfirlýsinga hæstv. utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar hér áðan um þann jöfnuð sem hann vildi sjá og vinna að.
    Þetta kemur fram í þeim lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem nú er verið að knýja í gegnum Alþingi. Þar er verið að stíga fyrsta skrefið í þá átt að gera háskólamenntun að forréttindum hinna efnameiri.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni áðan að það að svipta námsmenn framfæri sínu á haustmissiri væri hornsteinn fjárlaganna. Það er rismikil stefna sem þessi ríkisstjórn framfylgir.
    Þetta kemur einnig fram í áformum um afnám verðjöfnunar á olíu og bensíni og fleiri þingmálum sem lögð hafa verið fram.
    Þessi stefna ríkisstjórnarinnar kemur þó e.t.v. hvergi betur fram en í stjórn peningamála. Með aðgerðaleysi sínu á þessu sviði hefur ríkisstjórnin horft með velþóknun á tilfærslu á fjármagni svo milljörðum skiptir frá atvinnulífinu og skuldsettum heimilum til peningaaflanna.
    Ég sagði áðan að þessi stefna ætti sér ekki hljómgrunn meðal íslensku þjóðarinnar. Það staðfesta skoðanakannanir. Hér er verið að framfylgja allt annarri stefnu en stjórnarflokkarnir boðuðu fyrir kosningarnar. Hið íslenska þjóðfélag byggir á þeirri lífsskoðun að saman eigi að geta farið frelsi einstaklinganna og félagasamtaka þeirra til athafna og öflug samhjálp sem byggir bæði á ríkisvaldinu og þeirri vernd sem lítil samfélög veita þegnum sínum í sjálfu sér.
    Það byggir á því að ríkisstjórn á hverjum tíma hafi kjark til þess að grípa inn í þegar illa árar og jafni út sveiflur í þjóðfélaginu sem annars geta orðið illviðráðanlegar í okkar smáa samfélagi. Þessari stefnu hafa hugmyndafræðingar á meginlandi Evrópu lýst með orðunum ,,félagsleg markaðshyggja`` til aðgreiningar frá hinni hörðu peningahyggju sem framfylgt hefur verið t.d. í Bretlandi undir kjörorðum járnfrúarinnar.
    Þessari stefnu hefur í meginatriðum verið framfylgt hér á landi á umliðnum áratugum. Að vísu hefur ýmislegt farið verr en að var stefnt en meginatriðið er það að undir merkjum hennar höfum við skipað okkur í flokk efnuðustu þjóða heims á sama tíma og ríkt hefur meiri jöfnuður en víðast annars staðar.
    Á grundvelli þessarar stefnu vill Framsfl. vinna áfram, læra af mistökunum, horfast í augu við galla

hennar, en byggja áfram á þeim grunni sem búið er að byggja upp og ég er þess fullviss að mikill meiri hluti þingmanna er sammála mér varðandi þessa skoðun.
    Að lokum, virðulegi forseti, örfá orð um einn málaflokk, þ.e. um landbúnaðinn. Með búvörusamningnum á síðasta vori er staðfest að ekki er lengur pólitískur vilji til þess að greiða útflutningsbætur á búvörur. Því fylgir enn frekari samdráttur í sauðfjárrækt. Verði ekki staðið við búvörusamninginn hvað varðar hliðar- og stuðningsaðgerðir við þær byggðir sem mest eiga undir sauðfjárræktinni og hafin öflug uppbygging á annarri atvinnustarfsemi þar blasir ekkert annað við en hrun byggðar á þeim svæðum. Fari svo brestur strengur í íslensku þjóðlífi sem ekki verður bættur. Það er mikill misskilningur að um einkamál viðkomandi bænda sé að ræða. Hér er um að ræða grundvallaratriði í uppbyggingu hins íslenska þjóðfélags.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. Góðar stundir.