Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:36:57 (6279)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Í lok þessa þings er komið að hinum hefðubundnu eldhúsdagsumræðum þar sem dregin eru saman mikilvægustu stefnumál sem unnið hefur verið að á liðnum vetri. Steingrímur Hermannsson, fyrrum forsrh., lýsti þjóðfélaginu og stjórnarháttum fyrr í kvöld í ræðu sinni og nefndi brjálaða prófessora, hryðjuverk og flakandi sár. Það eina sem hægt er að segja um slíkan málflutning er að stjórnmálaforingi sem beitir slíkum málflutningi hefur slæma samvisku gagnvart þjóðinni. En sá fortíðarvandi sem sópað hefur verið undan teppi fyrri ríkisstjórnar er þjóðinni kunnur og verður ekki fjallað frekar um hann en ekki er við því að búast að við stjórnarþingmenn sættum okkur við að sitja undir rangfærslum og árásum frá stjórnarandstöðunni án þess að svara og leiðrétta og bera hönd fyrir höfuð okkur svo harkalega sem stjórnarandstaðan hefur gengið fram. En ákafar umræður okkar stjórnmálamanna eru engu að síður eðlilegar og í raun mikilvægt lífsmark lýðræðisins þegar ekki er gengið úr hófi. Það er gömul saga og ný að það er auðveldara að gagnrýna en standa fyrir erfiðum og nauðsynlegum ráðstöfunum. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að horfa til framtíðar og taka þær ákvarðanir, sem eru til bóta, þegar á heildina er litið um leið og við verjum þá þjóðfélagsþegna sem höllum fæti standa.
    Um allt land blasa við vandamál í atvinnumálum, sérstaklega í sjávarútvegi og landbúnaði. Það er viðfangsefni okkar að leita hinna færustu leiða til þess að efla byggðina í landinu með því að skapa almenn skilyrði til átaks í atvinnulífinu. En til þess að það megi takast verðum við að hafa þrek og þolimæði til þess að bíða árangurs. Velferð okkar fámennu þjóðar, sem stillir sér hvarvetna upp til jafns við milljónaþjóðir, verður að byggja á varanlegum grunni. Að öðrum kosti er sjálfstæði okkar í hættu.
    Fyrsta og mikilvægasta markmið ríkisstjórnarinnar var að ná tökum á fjármálum ríkisins og tryggja stöðugleika. Nú liggur fyrir mat á afkomu ríkissjóðs til loka marsmánaðar og bendir allt til þess að umtalsverður árangur hafi náðst í ríkisfjármálum. Markmiðið var að hemja ríkisútgjöldin, gera einstakar ríkisstofnanir ábyrgar fyrir rekstri sínum og stuðla að því að atvinnuvegirnir fengju svigrúm. En það er ekki létt verk að draga úr útgjöldum ríkisins. Því kynnast þeir sem starfa í fjárln. Alþingis vel.
    Þess verður mjög vart að margir forstöðumenn ríkisstofnana vilja fara sínar eigin leiðir við rekstur og stofna til útgjalda án þess að hyggja að því að tekjum ríkissjóðs eru takmörk sett. Margt bendir til þess að ýmsar ríkisstofnanir hafi fengið að valsa óáreittar og því bregðast stjórnendur og starfslið hart við þegar gerð er tilraun til þess að spara, endurskipuleggja eða draga úrkostnaði. Vissulega er það svo að verkefnin blasa hvarvetna við, ekki síst á sviði heilbrigðis- og menntamála. Samt sem áður er nauðsynlegt að endurmeta starfsemi á vegum ríkisins ekki síður en í atvinnulífinu í ljósi breyttra aðstæðna.
    Við Íslendingar höfum á grundvelli löggjafar skapað öflugt velferðar- og menntakerfi á vegum sveitarfélaga og ríkisins. Sjálfstfl. hefur haft forustu um eflingu þess og uppbyggingu, ekki síst þar sem sjálfstæðismenn hafa fengið tækifæri til þess við stjórn sveitarfélaga.
    Frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur verið til umfjöllunar í þinginu og hefur það ekki farið fram hjá landsmönnum. Allt það sem Finnur Ingólfsson sagði um lánasjóðinn í umræðunum fyrr í kvöld er hins vegar rangt. Það er rangt að ekki verði tekið tillit til efnahags fólks við úthlutun lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna. Það mál er ekki til lykta leitt en með breytingum á núgildandi lögum er stefnt að því að styrkja sjóðinn. Í tíð fyrri ríkisstjórnar undir forustu ráðherra Alþb. voru þeir á góðri leið með að gera sjóðinn ófæran um að sinna því mikilvæga hlutverki að veita lán og geta áfram tryggt jafnrétti til náms, eins og segir í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar. Það er staðfastur vilji stjórnarflokkanna að styrkja lánasjóðinn. Allt tal stjórnarandstöðunnar um annað í umræðum í kvöld er á misskilningi byggt eða jafnvel tilraun til blekkinga í pólitískum tilgangi. Unnið hefur verið mjög vel að málinu og hefur verið tekið tillit til athugasemda sem hafa komið fram við frv., bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu.
    Meðal mikilvægustu mála er að efla atvinnlífið og treysta byggðina í landinu. Samdráttur í landbúnaði hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir marga landshluta og er mikilvægt í samstarfi við bændur og forustumenn sveitarfélaganna að bregðast við þeim mikla vanda sem blasir við bændum og þeim fjölmörgu um allt land sem vinna við úrvinnslu landbúnaðarafurða og vinna við þjónustu við landbúnaðinn. Sjávarútvegsfyrirtækin á landsbyggðinni, sem eru undirstaða atvinnulífsins þar, hafa átt í miklum erfiðleikum eins og alþjóð veit. Lögin um stjórn fiskveiða veita ekki nægjanlegt öryggi fyrir sjávarbyggðirnar sem hafa verið undirstaða velferðar þjóðfélags okkar. Um allt land eru bundnar miklar vonir við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða og er þess að vænta að tekið verði á vanköntum laganna. Öll umræða um sjávarútvegsmál hefur hins vegar snúist um kvótann, um það hverjir megi veiða fiskinn í sjónum. Hins vegar hefur minna verið rætt um bættan rekstur fyrirtækja og auknar kröfur til þeirra sem stjórna fiskvinnslu og útgerð í landinu.
    Lítið hefur verið fjallað um aukið samstarf einstakra fyrirtækja eða um gæðaátak og nýja ímynd sjávarútvegs innan lands og utan í stöðugt harðnandi samkeppni. Hvað þá um fræðslu og rannsóknir og um það hversu mikilvægu hlutverki samgöngur í landinu gegna við endurskipulagningu og eflingu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þjóðin, þar með taldir þingmenn, verður að hætta að rífast um kvótann við öll tækifæri og snúa sér að því að beisla hugvit og þekkingu til þess að gera sjávarútveginn að enn öflugri atvinnugrein með háþróuðum vinnubrögðum sjómanna, fiskvinnslufólks og þeirra velmenntuðu vísindamanna sem þjóðin hefur alið og menntað.
    Í stað þess að kvarta og kveina undan skertum framlögum ríkisins eins og gerst hefur eiga stjórnendur háskólans að snúa sér til atvinnulífsins og bjóða fram þekkingu sína og rannsóknir í þágu atvinnuveganna, ekki síst sjávarútvegsins.
    Í fiskvinnslunni hefur víða verið mikil sóun og brjóstvitið verið um of látið ráða ferðinni við hin flóknustu viðfangsefni í uppbyggingu fyrirtækja. Því verður að linna, en þess í stað þurfa rannsóknastofnanir og ráðgjafar að styðja við það mikilvæga starf sem stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa unnið, oft við mjög takmarkaðan stuðning og enn minni skilning háskólamanna. Það helsta sem úr þeim herbúðum hefur komið eru tillögur um að skattleggja sjávarútveginn og um leið þær byggðir sem allt eiga undir afkomu í sjávarútvegi. Í þessu mikilvæga máli má þjóðin ekki skiptast upp í fylkingar. Sáttargerð um nýtingu auðlinda hafsins verður að setja á Alþingi með sömu einurð og samhæfni og við höfum fært út og varið fiskveiðilögsögu landsins. --- Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.