Almennar stjórnmálaumræður

140. fundur
Mánudaginn 11. maí 1992, kl. 22:46:18 (6280)



     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Tvennt ber hæst í umræðunum í kvöld. Annað eru ótrúlega ósvífnar árásir talsmanna Sjálfstfl. á málfrelsið á Alþingi Íslendinga og þær umræður sem þurfa að fara fram af því að við búum við lýðræði. Við búum ekki við ráðhúseinræði af neinu tagi á Alþingi. Við munum ekki sætta okkur við neitt slíkt. En hótanirnar sem birtust frá Sturlu Böðvarssyni, Sólveigu Pétursdóttur og Davíð Oddssyni eru bersýnilega með þeim hætti að það er stefna Sjálfstfl. að innleiða skert málfrelsi, skert lýðræði á Alþingi Íslendinga. Ég mótmæli þessu harðlega og ég er sannfærður um að þessar árásir verða ekki til þess að hjálpa til við að lenda málum með eðlilegum hætti á næstunni.
    Hitt sem vekur mesta athygli í umræðunni í kvöld er það að hér hafa talað tvær ríkisstjórnir. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, í henni er Jón Baldvin Hannibalsson, og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir og hún er ein í þeirri ríkisstjórn. Það er í fyrsta sinn svo ég muni eftir þann tíma sem ég hef setið á Alþingi að það gerist með jafnskýrum hætti og hér í kvöld að það sé djúpstæður málefnalegur ágreiningur innan ríkisstjórnar. Það er bersýnilega svo að félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir er að óska hér eftir sanngjörnum leikreglum. Hún er að óska eftir annarri og öðruvísi stjórnarstefnu og ég segi við hana: Ég er sannfærður um að í hópi stjórnarandstæðinga á hún marga samherja og meðal þjóðarinnar líka sem óska eftir því að að verði settar sanngjarnari leikreglur á Íslandi. Ég óska henni alls góðs og gæfu í baráttunni fyrir sanngjörnum leikreglum á Íslandi. Hitt er ljóst að þær reglur sem hefur verið reynt að innleiða að undanförnu af Sjálfstfl. með Alþfl. í eftirdragi eru ekki sanngjarnar leikreglur. Það eru ekki sanngjarnar leikreglur, góðir Íslendingar, að ákveða að loka Lánasjóði ísl. námsmanna í haust en það er það sem verður gert. Það er ætlunin að banna lán til íslenskra námsmanna núna í haust. Þeir fá einir Íslendinga engan framfærslueyri. Hvernig telja menn að yrðu viðbrögð hjá öðrum í þjóðfélaginu ef það yrði boðið upp á það að í hálft ár fengju þeir ekki krónu í framfærslueyri? En þetta er stefnan sem menntmrh., Ólafur G. Einarsson, er að innleiða hér, hefur lýst yfir að hann muni ekki breyta í neinu og hann virðist vera með Alþfl. í vasanum, a.m.k. flesta, að því er best verður séð til þessa. Þó er von, ekki aðeins í kröfunni hér í kvöld um sanngjarnar leikreglur, heldur sérstaklega í samþykkt Sambands ungra jafnaðarmanna sem birtist í dag í fjölmiðlum þar sem þessi ákvæði frv. til laga um Lánsjóð ísl. námsmanna eru gagnrýnd með eindregnum hætti. Nei, Jóhanna, þetta eru ekki sanngjarnar leikreglur.
    Það eru heldur ekki sanngjarnar leikreglur að bera gamalmenni út af öldrunarlækningadeildum, flytja fólk þaðan nauðungarflutningum. Það eru ekki sanngjarnar leikreglur. Ég er sannfærður um það, Jóhanna Sigurðardóttir, að við erum sammála um það. Ég er sannfærður um að við erum líka þeirrar skoðunar að

það séu ekki sanngjarnar leikreglur að þúsundir Íslendinga eru nú ofurseldir atvinnuleysinu, hafa ekki verið fleiri um áratugaskeið.
    Hvað er atvinnuleysi? Atvinnuleysi er fyrirlitning markaðsþjóðfélagsins á vinnuaflinu, þeim skapandi kröftum sem felast í hverjum einasta einstaklingi jafnvel þó hann eigi ekkert nema vinnuafl sitt og enga peninga. Það eru ekki sanngjarnar leikreglur að neita þessu fólki um atvinnu. Frammi fyrir þessu stöndum nú. Það eru ekki heldur sanngjarnar leikreglur, virðulegi forseti, hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram núna á örfáum dögum eftir að kjarasamningum var lokið, það eru ekki sanngjarnar leikreglur. Það eru svik á kjarasamningum að bera gamalt fólk út úr Hátúni. Það eru svik á kjarasamningum að lækka ekki vexti. Það eru svik á kjarasamningum að ráðast að kjörum opinberra starfsmanna þó að það standi í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það eigi ekki að hrófla við réttindum þeirra. Þetta eru ekki sanngjarnar leikreglur, Jóhanna, og ég er viss um að við erum sammála um það.
    Frammi fyrir þessu þjóðfélagi stöndum við nú, kaflaskil á mörgum sviðum, allt annað þjóðfélag, allt önnur framtíð. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ákveðið að leggja framtíðarnefndina niður um leið og hún stofnaði fortíðarnefndina. Andstæðurnar blasa hvarvetna við. Í monthúsinu upp á þrjá, fjóra milljarða króna, sem Davíð Oddsson byggði í Reykjavík, er verið að ræða um matargjafir handa fátækum Reykvíkingum. Þetta er þjóðfélagið sem blasir við. Þetta er þjóðfélagið, sem Jóhanna Sigurðardóttir var að lýsa hér áðan að væri komið í Bandaríkjunum, eftir tíu ára stefnu sem þar hefur verið fylgt sem er sú sama og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fylgir hér á Íslandi. Það er þessi stefna sem þjóðin þarf að sameinast um að hafna.
    Góðir tilheyrendur. Við stöndum frammi fyrir þessum pólitíska veruleika og svo líka því að taka ákvarðanir um örlagamál í íslensku stjórnkerfi þar sem er Evrópskt efnahagssvæði og spurningin um aðildina að því. Þar duga ekki Eurovision-samþykktir. Þar er nauðsynlegt að hafa skýr svör.
    Þannig háttar til í náttúrunni og hinu pólitíska umhverfi um þessar mundir á Íslandi að það er vorhret á glugga. En það mun birta. Ég er sannfærður um að það mun birta víða á íslenskum heimilum ef félmrh. hefur forustu um það að fylgja eftir orðum sínum áðan um það að mynda samstöðu á Íslandi um sanngjarnar leikreglur. --- Góðir hlustendur, lifið þið heil.