Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 13:40:41 (6284)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns. Það er afar slæmt þegar umræða er slitin í sundur með þeim hætti sem nú virðist ætlunin. Eins og fram kom áðan hafði fulltrúi Kvennalistans ekki komist að í umræðunni. Ég vil því beina þeim eindregnu tilmælum til forseta að þessari umræðu verði fram haldið sem allra fyrst og það helst í dag ef nokkur möguleiki er á því svo sjónarmið allra fái að komast að og ráðherrum gefist kostur á að svara spurningum. Hér var beðið um viðveru utanrrh. einkum og sér í lagi og ég vil beina þeirri áskorun til forseta að hún verði við þeirri beiðni.