Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 13:49:00 (6287)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð félaga minna úr menntmn. sem hér hafa verið sögð. Við 2. umr. sagði menntmrh. eitthvað á þá leið að honum þætti sjálfsagt að milli umræðna færi fram athugun á málinu vegna spurninga sem komu fram í 2. umr. Ég veit ekki hvar sú athugun eða umræða hefði átt að fara fram ef ekki í menntmn. Málið var ekki á dagskrá nefndarinnar í morgun en var tekið upp undir liðnum Önnur mál. Formaður nefndarinnar ítrekaði það margsinnis að málið væri ekki á dagskrá og afgreiðslu þess væri lokið af hálfu nefndarinnar og það stæði ekki til að taka það upp aftur. En það vill nú svo til að mörgum spurningum er ósvarað í þessu máli. Eins og við vitum er þetta eitt stærsta mál sem er til umræðu á þessu þingi. Þess vegna vil ég mótmæla því að málið sé ekki tekið til frekari skoðunar í nefndinni. Ég tel fulla þörf á því og að enn þurfi að upplýsa ýmislegt í þessu máli. Ég vil beina því til forseta að hann tali við formann nefndarinnar og fái hana til að skoða þetta mál nánar.