Framhald umræðna um skýrslu um sjávarútvegsmál og um Lánasjóð íslenskra námsmanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 13:52:00 (6289)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í 46. gr. þingskapalaga, laga um Alþingi Íslendinga, stendur alveg skýrt í síðustu málsgr. þeirrar greinar: ,,Ef ráðherra eða skýrslubeiðendur, einn eða fleiri, óska þess skal skýrslan tekin til umræðu. Ráðherra gerir þá grein fyrir henni.``
    Hér stendur ,,skal``, virðulegi forseti. Það er því ljóst að það hvílir lagaleg skylda á forseta Alþingis að láta þessar skýrslur koma til umræðu.
    Ég hjó eftir því að forseti notaði orðin ,,er umræðan hafin``. Ber virkilega að skilja það þannig að forseti ætli sér að fara að túlka 46. gr. þingskapa þannig að nægilegt sé að hefja umræðuna og þá sé búið að fullnægja þessari grein? Jafnvel þannig að nóg sé að láta ráðherrann tala og þá sé umræðan hafin. Ef allir flokkar hafa ekki fengið að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum skipti það forsetann litlu máli. Ég vona að það sé ekki sá skilningur sem leggja má í orð forsetans að umræðan sé hafin.
    Ég vil einnig mótmæla því að störfum þingsins sé háttað þannig að við tökum fyrir þetta mál í gær þótt útvarpsumræða sé þann daginn, greiðum fyrir þingstörfum með því að fallast á það, en síðan eigi einn þingflokkurinn, þingflokkur Kvennalistans, að bíða þangað til á föstudaginn að fá að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum. Ég vil mótmæla því að forseti þingsins komi þannig fram við einn af flokkunum í þinginu og hagi störfum með þessum hætti.
    Enn fremur hefur forsetinn verið upplýstur um það að hv. þm. Halldór Ásgrímsson þarf að sinna öðrum störfum síðar í þessari viku svo hann getur ekki verið hér á föstudaginn eftir því sem mér er tjáð. Kannski er það þannig að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., tveir hræddir menn sem hlaupa út úr þingsalnum um það leyti sem þingfundur er að hefjast, þori ekki í umræður við hv. þm. Halldór Ásgrímsson í framhaldi af ræðu hans í gær hvað þá heldur aðra. Þannig sé forsetinn að aðstoða þessa tvo hræddu menn við að komast hjá umræðum á hv. Alþingi.
    Það virðist nefnilega vera svo að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafi skilið þingræðið þannig að það sé nóg fyrir þá að flytja frv. en þeir þurfi ekki að taka þátt í umræðum eða rökræðum á Alþingi Íslendinga. Hér sé komið upp tilskipanakerfi þar sem menn sitji í Stjórnarráðinu, sendi frá sér lagatexta og svo sé það bara klukkan sem ráði því hvað þingið gerir við málin. En tveir ráðherrar, forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, forðast að taka þátt í rökræðum á Alþingi um þessi frv., svara fyrirspurnum eða gera grein fyrir skoðunum sínum.
    Ég held það væri mjög fróðlegt fyrir þjóðina að fara í gegnum þingtíðindin í vetur og fletta því upp hve oft hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, hefur lagt í að gera grein fyrir skoðunum sínum í almennum umræðum á Alþingi. Það eru mjög fá skipti. Sama gildir um hæstv. utanrrh.
    Ég vil mótmæla því, virðulegi forseti, að umræðu um sjávarútvegsskýrsluna sé frestað þar til á föstudag. Ég tel að með því háttalagi sé verið að stefna því í hættu að umræðan verði eðlileg og það sé einnig verið að stefna í hættu umræðum um hinar skýrslurnar tvær. Ég vil formlega fara fram á það sem skýrslubeiðandi, virðulegi forseti, skv. 46. gr. þingskapalaga, að það verði settur nýr fundur síðar á þessum sólarhring og umræðan um skýrslu sjútvrh. haldi áfram síðar á þessum sólarhring.