Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:00:00 (6295)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Þessa umræða, að breyta orðinu manneskja í maður, hefur þegar farið fram á hinu háa Alþingi. En varðandi þessa ábendingu um 7. gr. frv. sem er allra góðra gjalda verð er rétt að taka það fram að þegar um samkynhneigða er að ræða geta þeir ekki gengið í hjúskap eða búið í óvígðri sambúð. Þessi ákvæði 7. gr. eiga því ekki við samkynhneigða aðila. Textinn í 7. grein stenst því fyllilega. Þetta var reynda rætt sérstaklega á fundi allshn. í morgun vegna þess að fram kom ábending um þetta atriði. Nefndin taldi að þessi texti mætti standa eina og hann kemur fyrir í frv.
    Ég vil vekja athygli á því að í þeirri brtt. sem hér liggur fyrir frá Kvennalistanum er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að fella niður 1. mgr. frv. sem kveður á um að hægt sé að refsa fyrir vændi ef það er stundað sem atvinnugrein. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að menn velti þessum hlutum fyrir sér enda var það gert í allshn. Meiri hluti hennar komst þó að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að breyta núgildandi hegningarlögum hvað þetta atriði varðar. Ég vek aftur athygli á því að vændi er almennt ekki refsivert. Það er einungis í þessu sérstaka tilviki sem kveðið er á um viðurlög. Það byggir á þeim grundvelli og eðli refsilöggjafar að hver einstaklingur beri ábyrgð á gjörðum sínum gagnvart samfélaginu og því að hegningarlögum er ekki einungis ætlað að kveða á um viðurlög við afbrotum heldur, og það er ekki síður mikilvægt, að koma í veg fyrir afbrot með varnaðaráhrifum.
    Það er auðvitað ekki útséð um það hvort ákvæðið verður notað. En hv. þm. geta velt því fyrir sér hvaða skilaboð löggjafinn mun gefa út í þjóðfélagið ef þessi brtt. Kvennalistans verður samþykkt. Það er örugglega ekki vilji meiri hluta þjóðarinnar að hér verði opnað fyrir vændi sem atvinnugrein almennt þótt menn loki e.t.v. augunum fyrir ýmsu í þessum málum. Þess má geta að Danir og Norðmenn hafa sambærileg ákvæði í sínum hegningarlögum og Svíar ætla sér að reyna að taka harðar á vændisstarfsemi. Reyndar hafa þegar verið greidd atkvæði á hinu háa Alþingi um sambærilega tillögu.
    Fyrsta málsgreinin er einungis lítill hluti af 13. gr. frv. sem er alls fimm málsgreinar þar sem aðaláherslan er lögð á milliliði svonefnda og þá sem vilja notfæra sér lauslæti annarra. Á þetta er lögð mikil áhersla og t.d. er í 5. málsgr. nýtt ákvæði sem kveður á um refsingu til handa þeim sem stuðla að því með ginningu, hvatningu eða milligöngu að aðrir hafi holdlegt samræði gegn greiðslu eða geri sér lauslæti annarra að tekjulind. Enn fremur gerði allshn. tillögu um að til viðbótar við útflutning fólks í þessu markmiði sé einnig refsivert að stunda innflutning fólks í þessu markmiði.
    Brtt. Kvennalistans gengur í öðru lagi út á það að hækka refsihámark í 2. málsgr. 13. gr. úr fjórum árum í fimm ár. Það er engin önnur efnisleg breyting lögð til miðað við frv. og ég vek sérstaka athygli á því. Þetta er í raun lagatæknilegt atriði þannig að refsihámark varðandi milliliði í 13. gr. eru alls staðar fjögur ár og þar að auki er refsiverndin gerð miklu víðtækari en nú er. Ekki þykir því ástæða til að breyta fjórum árum í fimm enda er fimm ára refsihámark hvergi í hegningarlögum. Að öðru leyti er hér, virðulegur forseti, um mjög mikilvægt frv. að ræða og ég vona að í heild muni myndast um það breið samstaða á hinu háa Alþingi.