Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:07:15 (6298)



     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 10. Reykv. fyrir að vekja máls á þessu atriði í 7. gr. frv. Eins og fram kom hjá hv. 6. þm. Reykv., formanni allshn., var þetta mál sérstaklega rætt í allshn. í morgun að mínu frumkvæði því ég staldraði við þetta atriði þegar ég las frv. í gær eftir að hafa komið aftur til þingstarfa eftir fundahöld í útlöndum. Ég sá að þarna var orðið ,,þau`` og ég taldi að það væri athugunarvert hvort ekki væri ástæða til að breyta því og orða þessa grein á annan hátt, t.d. með því að segja: ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann vegna þess að hann heldur sig ranglega hafa samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi  . . .  `` Það mundi leysa þetta mál og taka af allan. vafa varðandi spurninguna um málfræðina í þessu.
    Ég ræddi þetta við starfsmenn Alþingis í gær en þá var mér bent á að þetta hefði verið ítarlega kannað og ekki talin ástæða til að orða það með öðrum hætti. Þegar ég tók það svo upp í hv. allshn. í morgun hlaut það engan stuðning og menn bentu m.a. á að þarna er verið að tala um að aðilar hafi samræði eða önnur kynferðismök í hjónabandi eða óvígðri sambúð. Samkvæmt íslenskum lögum væri þar alveg tvímælalaust um karl og konu að ræða. Síðan kemur áframhaldið: ,,eða hann er í þeirri villu að hann heldur sig hafa samræði eða önnur kynferðismök við einhvern annan  . . .  `` en þar er hins vegar um annað atvik að ræða og þar gæti þetta staðið.
    Þetta voru þær röksemdir sem fram komu í nefndinni fyrir utan það að á það var bent af þeim sem fara hér með þingskjöl að ástæðulaust væri að breyta þessu. Þess vegna féll ég frá hugmynd um að flytja breytingartillögu og lét sannfærast um þetta atriði. Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram í umræðunum og vegna þess að á það var minnst.
    Varðandi það hvort orðið manneskja eigi að taka við af orðinu maður í þessu frv. tel ég það algjörlega ástæðulaust. Mér finnst að það yrði farið inn á nýjar brautir við smíði íslenskra laga að viðurkenna ekki að orðið maður nái bæði til karls og konu. Ef við teljum það nauðsynlegt í þessum lagabálki að taka orðið manneskja fram yfir orðið maður þyrftum við með sama hugarfari að fara yfir öll lagafrumvörp sem hér koma til athugunar. Jafnvel í þessu frv. var orðið manneskja aðeins notað í ákveðnum greinum en hins vegar kom orðið maður inn aftur í 14. gr. t.d. þar sem segir: ,,Nú hefur maður, sem sæta skal refsingu eftir 206. gr., áður verið dæmdur fyrir brot  . . .  `` Þetta stóð svona í frumvarpinu þannig að orðið manneskja var aðeins notað í nokkrum greinum þessa frv. og hefði þá aðeins verið notað í nokkrum greinum hinna almennu hegningarlaga, aðeins í þeim greinum sem hér er fjallað um en á öðrum stöðum hefði orðið maður verið. Það hefði því verið stílbrot, einnig í almennu hegningarlögunum ef orðið manneskja hefði verið tekið inn í þessar fáu greinar. Það var algjör samstaða um þetta í nefndinni ef undan er skilinn fulltrúi Kvennalistans. Að vísu undirrituðu nefndarmenn breytingartillögur nefndarinnar með fyrirvara en að öðru leyti var samstaða um það að skipta þarna um og nota orðið maður. Ég tel að það sé alveg ástæðulaust og engin rök fyrir því að hverfa frá þeirri málvenju í almennu hegningarlögunum að nota orðið maður í þessu tilviki eins og öðrum. Ég hafði sjálfur, eins og hv. 10. þm. Reykv., rekist á þetta orðalag í 7. gr. en eftir ítarlegar umræður í nefndinni féll ég frá því að gera breytingartillögu.