Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:26:37 (6303)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði satt að segja ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu en úr því að ég er kominn í stólinn þá ætla ég fyrst að segja að ég tel að nefndin hafi bætt þetta frumvarp talsvert mikið frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir og ég tel að nefndin hafi að mörgu leyti tekið tillit til umsagna með skynsamlegum hætti. Hér er um að ræða afar viðkvæman en um leið mjög mikilvægan þátt í hinum almennu hegningarlögum þar sem löggjöf okkar hefur verið óljós og villandi á köflum eins og málin hafa verið. Ég held að það sé nauðsynlegt í framhaldi af þeirri umræðu sem fer núna fram um þetta mál að menn setji sér það á næsta þingi að tekið verði á vinnubrögðum réttarkerfisins í kringum þennan kafla hegningarlaganna í heild.
    En ég kvaddi mér hljóðs vegna ræðu hæstv. umhvrh. sem vitnaði í afar snjalla ræðu fyrrv. hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar, stutta, glögga og skýra ræðu. Þar fannst mér margt vera vel kveðið og sagt og a.m.k. stutt og greinargott og í alveg hróplegri mótsögn við 7. gr. þessa frv. eins og það lítur út núna og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir las hér áðan. Mér er með öllu ókleift að ná þessum texta og ég held að þingið eigi ekki að láta þetta fara frá sér svona og menn eigi að fresta 3. umr. og biðja einhverja orðhaga menn um að setjast aðeins yfir þetta og skoða málið. Það má heita sama hversu fjölskrúðugt hugmyndaflug menn kunna að hafa, útilokað er að botna í fyrri málsgreininni eins og hún er. Vafalaust má skrifa langa ritgerð hvað hún þýðir, en þá missir lagatextinn náttúrlega marks ef hann þarf mjög ítarlegar greinargerðir til þess að menn átti sig á hlutunum. Mér fannst satt að segja sú virðingarverða tilraun ekki nægja sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hafði uppi til þess að reyna að skýra þetta. Ég sé ekki betur en óhjákvæmilegt sé að skipta 1. mgr. 7. gr. frv., 199. gr. hegningarlaganna, upp í þrjá málsliði til þess að þetta geti gengið. Þetta gengur alls ekki svona og ég held satt að segja að nauðsynlegt og æskilegt væri fyrir dómsmálaráðuneytið að það léti almennt skoða betur þá texta sem koma frá nefndum sem undirbúa mál af þessu tagi fyrir Alþingi. Þeir eru satt að segja alveg ofboðslega flóknir, a.m.k. fyrir þá menn sem eru vanir því að lesa fyrst og fremst íslensku þessarar aldar.
    Ég efast ekki um að þeir þingmenn sem hafa vald á sögu Súmera, bæði eldri og yngri, eins og hv. 18. þm. Reykv., komist í gegnum munkalatínu af þessu tagi, en ég verð að játa það á mig að ég er í hópi þeirra þingmanna sem eru svo vankunnandi að það dugir mér ekki enda er ég afar illa að mér í sögu Súmera bæði eldri og yngri. Mér er að vísu kunnugt um að hér hefur verið starfandi prýðilegt félag sem

hefur aðallega fjallað um menningu Súmera eldri. Í því eru þrír menn og mætti auðvitað hugsa sér að leggja málið fyrir þá sérstaklega en það gæti hins vegar orðið of viðurhlutamikið því að þeir eru ekki vanir því að vinna mjög rösklega í því félagi. Án þess að það félag komi þessari sérstöku umræðu um hegningarlögin við þá mun ég ekki rekja það nánar hvernig það félag starfar, en veita þingmönnum upplýsingar um það í einkasamtölum ef eftir því verður óskað.
    En ég óska eftir því og spyr hæstv. forseta hvort ekki sé hægt að komast að samkomulagi um það við formann nefndarinnar að greitt verði úr munkalatínunni í fyrri mgr. 7. gr. því að þetta er algjörlega óskiljanlegt eins og það er núna og ég er sannfærður um að einn og einn þingmaður annar en ég leynist hér í salnum, hvað þá heldur utan salarins, sem ekki myndi treysta sér til þess að útskýra hvað er átt við með þessum texta.