Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:31:20 (6304)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get svo sem skilið að hv. þm. Svavar Gestsson eigi í nokkrum erfiðleikum með að skilja þessi ákvæði í löggjöfinni, en ég tók með mér lagasafnið upp í ræðustólinn til þess að lesa upp fyrir hann hvernig þessi grein hljóðar í núgildandi hegningarlögum, en það er 199. gr. Ég ætla að lesa hana upp til þess að reyna að skýra frekar hvað er átt við í texta frumvarpsins.
    Í núgildandi hegningarlögum hljóðar þessi grein á þennan hátt: ,,Hver sem kemst yfir kvenmann vegna þess að hún heldur ranglega að þau hafi samræði í hjónabandi eða hún er í þeirri villu að hún telur sig hafa samræði við einhvern annan mann þá varðar það fangelsi allt að sex árum.`` Þarna er um kynbundið ákvæði að ræða. Það á einungis við um konu alveg eins og í 194. gr. hegningarlaganna í dag þar sem fjallað er um nauðgun þar sem rætt er um ef kvenmanni er þröngvað til holdlegs samræðis.
    Eitt meginhlutverk og eitt meginmarkmið þessa frumvarps er að þessi ákvæði nái til beggja kynja. Þess vegna hljóðar frumvarpstextinn svo eins og hann er settur fram í þessu frumvarpi. Ekki er ástæða til þess að kljúfa 1. mgr. upp í tvær eða jafnvel þrjár málsgreinar. Ég skil ekki alveg hvað er átt við með því að tala um þrjár málsgreinar, en ég vek sérstaka athygli á því að 2. mgr. 7. gr. er nýmæli í frv. Í athugasemdum með frv. segir um 7. gr., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Auk þeirra tveggja svikaþátta, sem fyrir eru í gildandi ákvæði, er bætt við svikum í sambandi við læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð. Rétt þykir í 1. mgr. ákvæðisins að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjúskap.``
    Ég held því að menn séu að gera þessi mál óþarflega flókin. Ég hef a.m.k. ekki orðið vör við það fyrr í umræðunni að texti frumvarpsins væri eitthvað óskýr.