Almenn hegningarlög

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 15:50:00 (6312)


     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki rétt skilið hjá hv. þm. að hér sé um sambærilegar greinar að ræða. Að vísu tengjast 4. og 5. gr. nokkuð en 7. gr. fjallar um allt annað efni. Ég vil taka skýrt fram að ef menn líta á texta 7. gr. þá er talað þar um svokallaða villu þegar maður heldur að hann hafi samræði við einhvern annan. Sami aðili þarf ekki að vera haldinn einhverjum andlegum annmörkum. Slík villa getur komið upp við ýmsar aðstæður og reyndar eru til hæstaréttardómar um atvik þar sem slíkt hefur komið upp þannig að full ástæða er til að hafa slíkt ákvæði inn í hegningarlögum. Það hefur sýnt sig í framkvæmd.
    Hins vegar er varðandi 4. og 5. gr. ósköp skiljanlegt að menn velti fyrir sér hvers vegna þær eru settar upp sem tvö ákvæði. Ég ætla að benda hv. þm. á athugasemdir og greinargerð með frumvarpinu. Þar segir um 4. gr., með leyfi virðulegs forseta: ,,Það nýmæli felst í þessu ákvæði að um ótvíræða misneytingaraðferð þarf að vera að ræða (,,notfærir sér``). Tilgreint ástand brotaþola nægir ekki eitt sér. Hinu afbrigðilega ástandi brotaþola er lýst með nokkru almennari orðum en í gildandi ákvæði 195. gr. (,,andlegir annmarkar``). Slík rýmkun verður tæpast talin varhugaverð, ef misnotkun aðstöðu er áskilin hverju sinni. Rétt þykir að leggja óvígða sambúð að jöfnu við hjúskap í þessu sambandi.``
    Ég ætla að byrja á að taka það fram að allshn. gerði tillögu til breytinga um að taka hjúskaparskilyrðið og sambúðarskilyrðið út úr þessum texta þar sem við töldum að sú refsivernd sem ákvæðið býður upp á ætti að ná jafnt til fólks sem er í hjúskap og utan hjúskapar. Þarna þarf sem sé að vera um að ræða misneytingu, það þarf að vera ásetningur fyrir hendi til þess að notfæra sér andlegt ástand einhvers

til að þröngva honum til samræðis. Þetta misneytingarákvæði er hins vegar ekki fyrir hendi í 5. gr. en hún hljóðar þannig:
    ,,Ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum.``
    Það er sem sé refsivert ef starfsmaður á slíkri stofnun hefur samræði við vistmann. Það þarf ekki að vera um að ræða ásetning eða misneytingaraðferð. Eins og segir í athugasemdum með 5. gr.: ,,Fyrir utan þær breytingar, sem lýst var í hinum almennu athugasemdum, er ákvæðið að mestu óbreytt efnislega, þótt stofnananöfn séu færð í nútímahorf.``