Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1991

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:08:51 (6320)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Aðeins fáein orð. Ég þakka hv. utanrmn. fyrir vinnu að þessu máli og fagna því að nefndin leggur til afgreiðslu á tillögunum á þann veg sem venja hefur skapast um á hinu háa Alþingi, þ.e. að ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins verði samþykktar. Það er að sjálfsögðu eingöngu ráðgefandi aðili sem fer með og hefur ályktunarvald í því formi að beina tilmælum til eða skora á, eftir atvikum, stjórnvöld ráðslandanna, eins og kemur reyndar fram í tillögutextanum. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá breytingu á orðalagi sem hv. utanrmn. hefur lagt þarna til. Ég vil aðeins segja fyrir mitt leyti að ég held að hér hafi mótast sú vinnuregla sem eðlileg er. Hin síðari árin hafa ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins verið fluttar með þessum hætti sem sérstök þáltill. og fengið afgreiðslu á Alþingi á því formi.
    Ég sé ekki ástæðu til, vegna þeirrar ágætu umræðu sem fram fór um vestnorrænt samstarf þegar skýrsla um það var tekin til meðferðar á þinginu fyrr í vetur, að taka upp slíka umræðu á nýjan leik. Ég vil þó nota þetta tækifæri til að minna á að á þessu ári, árinu 1992, stendur yfir vestnorrænt ár sem minnt verður á og haldið verður upp á með ýmsum hætti, þar á meðal með ráðstefnuhaldi í öllum vestnorrænu löndunum þremur. Fram undan er ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins sem verður að þessu sinni á Íslandi um miðjan júnímánuð.
    Ég er þeirrar skoðunar og hef áður sett hana fram að þýðing þessa samstarfs sé vaxandi fyrir okkur Íslendinga og reyndar fyrir öll aðildarlöndin og það beri að vinna markvisst að því að efla það og bæta, ekki síst með tilvísan til þeirrar óvissu sem er í alþjóðamálum og tengsla þessara vestnorrænu landa við umheiminn.
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar en endurtek þakkir til hv. utanrmn. fyrir hennar vinnu.