Viðlagatrygging Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 16:24:10 (6325)


     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Svavar Gestsson ):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör sem hann hefur gefið. Ég skil það auðvitað vel að hann sé kannski ekki alveg í stakk búinn til að ræða málið í þaula eins og aðstæður eru hér enda er ég ekki að gera neinar kröfur til hans um það.
    Það sem gerst hefur í málinu er að ég og hv. 10. þm. Reykv. höfum lagt til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Rökin eru þau fyrst og fremst að hinn fjárhagslegi grunnur málsins er óljós. Það hafa engar upplýsingar borist um það hvað frv. þýðir í raun og veru fyrir Viðlagatrygginguna og rekstur hennar og starfsemi og eiginfjárstöðu í framtíðinni. Það eru þarna mjög viðamikil ákvæði sem breyta talsvert miklu um fjárhag Viðlagatryggingarinnar en í raun liggja engar áætlanir fyrir um það hvaða áhrif þetta gæti haft, ekki tryggingafræðilegt mat af neinu tagi. Nú er ég ekki að segja að þeir menn sem staðið hafa að því að semja frv. hafi staðið illa að málinu og viti ekki um hvað þeir eru að tala. Vandinn er hins vegar sá að við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um hvað það er sem þeir eru í raun og veru að leggja til og hvaða efnisleg áhrif það hefur fyrir Viðlagatrygginguna þegar fram í sækir.
    Í öðru lagi þá má segja að þetta sjónarmið sem ég ber fram sé að nokkru leyti staðfest í umsögn Tryggingaeftirlitsins þar sem það kemur fram að að mati Tryggingaeftirlitsins þurfi að endurskoða lögin í heild um Viðlagatryggingu Íslands en ekki bara einstaka þætti í lögunum. Eins og hæstv. umhvrh. benti á áðan eða tók undir er hér ekki um heildarendurskoðun að ræða heldur aðeins hluta af endurskoðun á þessu máli. Það er misskilningur að það hafi verið tekið tillit til sjónarmiða Tryggingaeftirlits ríkisins. Það hefur ekki verið gert öðruvísi en þannig að stjórn Viðlagatryggingarinnar gerði upphaflega tillögu um breytingar. Tryggingaeftirlitið taldi það ófullkomna endurskoðun á lögunum en reyndi þó að bæta um betur með því að plástra þær breytingatillögur sem stjórn Viðlagatryggingarinnar hafði gert. Það er því ekki hægt að segja að menn hafi fallist á sjónarmið Tryggingaeftirlitsins. Það er í raun mjög alvarlegur hlutur að þessi eign þjóðarinnar sem Viðlagatrygging Íslands er skuli þurfa að sæta þeirri meðferð á Alþingi að þegar Tryggingaeftirlitið óskar eftir heildarendurskoðun þá er ekki orðið við því og málinu er hespað hér í gegnum þingið án þess að lögin séu endurskoðuð og án þess að fjárhagslegar forsendur liggi fyrir.
    Ég fór fram á það við hv. stjórnarmeirihluta hvort hann gæti ekki fallist á að taka málið til skoðunar til haustsins við 2. umr. málsins. Hins vegar hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. verið í burtu þannig að kannski það má segja að fáir hafi verið til þess að taka ákvarðanir um að fresta málinu og ég óttast að það hafi lent dálítið á milli vita, milli liða hér, og menn hafi ekki eytt í það neinum tíma. Mér finnst það satt að segja leitt vegna þess að Viðlagatrygging Íslands er náttúrlega mjög mikilvæg stofnun og málið er mér pínulítið skylt vegna þess að þegar ég gegndi starfi heilbr.- og trmrh. voru sett fyrstu lögin um Viðlagatryggingu Íslands. Það eru lög sem hafa nú verið til í tíu ár og þau hafa skilað miklum árangri, þeim árangri að við eigum þrátt fyrir allt stofnun sem á eignir upp á 3,7 milljarða króna. Við eigum að reyna að fara vel með þessa stofnun vegna þess að hún er ein af fáum stofnunum sem eru til í landinu þar sem

menn eru að reyna að leggja til hliðar til mögru áranna eða til þess tíma að það yrðu meiri háttar náttúruhamfarir eða eitthvað því um líkt sem ylli verulegu tjóni. Það eru því miður ekki mörg dæmi um það að við séum ýkja forsjál í landi okkar en Viðlagatrygging Íslands er eitt af fáum dæmum um það og þess vegna er dapurlegt ef menn eru ekki tilbúnir til þess að afgreiða þetta frv. með nægilega vönduðum hætti. Ég hlýt þess vegna að endurtaka óskir mínar um það að frv. um Viðlagatryggingu Íslands verði dregið til baka og skoðað betur í sumar.
    Ég vil lýsa því yfir sem nefndarmaður í heilbr.- og trn. hv. Alþingis að ég væri reiðubúinn til þess að taka þátt í því að vinna við það í sumar ef nefndin að öðru leyti kærði sig um að skoða málið aðeins betur því að mér finnst að vinnubrögðin hjá okkur séu ekki alveg nægilega vönduð. Það er náttúrlega dálítið erfitt líka í umræðum á hv. Alþingi að eiga við mál af þessu tagi því að frv. um Viðlagatryggingu Íslands er frekar flókið mál og það er dálítið erfitt að ná umræðu um flókið mál eins og eðlilegt er. Þótt það sé erfitt er hitt þó enn þá erfiðara að fá skilning á því í salnum hjá hv. fulltrúum meiri hlutans að kannski þurfi aðeins að hlusta á það sem menn í stjórnarandstöðunni eru að reyna að segja á hverjum tíma. Nú er ég ekkert að segja að meiri hlutinn sé að þessu leytinu til verri heldur en meiri hluti hefur oft verið á Alþingi, en ég er að segja að ég finn fyrir því í þessu máli að menn vanda sig ekki nógu vel og þrír, fjórir milljarðar, 3.700 millj. kr., er auðvitað engin smátala. Það er mikil upphæð og ég vona bara að þessi breyting á lögunum um Viðlagatryggingu Íslands verði ekki til þess að veikja þessa stofnun þegar fram í sækir.
    Hitt er svo líka alveg ljóst að stundum hefur ekki verið mikil sátt um Viðlagatrygginguna. Tvennt hefur valdið ágreiningi og það er í fyrsta lagi það að menn hafa talið iðgjöldin nokkuð há. Gagnrýni hefur komið fram á það á Alþingi, ég man ekki betur en að ýmsir þingmenn hafi gagnrýnt harðlega að Viðlagatrygging Íslands hafi tekið of há iðgjöld. Ég er ósammála því. Ég tel að viðlagatryggingariðgjöldin hafi ekki verið há út af fyrir sig. Ég tel að eðlilegt sé að það sé reynt að leggja dálítið myndarlega í sjóð af þessu tagi.
    Hitt atriðið sem hefur svo verið gagnrýnt mjög mikið, en ég verð nú að segja fyrir mitt leyti að mér finnst byggjast á talsverðum misskilningi, er að það eigi að taka inn í viðlagatrygginguna skyldu til að tryggja fyrir fok og flóðatjónum af ýmsu tagi. Út af fyrir sig þá eru viss rök fyrir því að gera þetta en á móti er svo aftur það að náttúrlega er engin ástæða til þess að taka inn í viðlagatrygginguna svo að segja allar tryggingar. Auðvitað á hinn einkarekni tryggingarekstur að geta sinnt tilteknum þáttum af þessu tagi, eins og t.d. flóða- og foktjónum, svo ég nefni dæmi. En ævinlega þegar ganga yfir náttúruhamfarir, eins og t.d. á Suðurlandi, af því ég sé hér út undan mér tvo þingmenn Suðurlands, eins og gerðist fyrir fáeinum missirum á Suðurlandi, þá er það það fyrsta sem mönnum dettur í hug það er viðlagatryggingin. Hvað ætlar hún að borga? Ég hygg það hafi verið 1989 frekar en 1990, snemma árs, sem varð verulegt tjón á suðurströndinni og þá kvöddu menn undir eins dyra hjá Viðlagatryggingu Íslands. Niðurstaðan varð sú að Viðlagatryggingin borgaði hluta af því tjóni sem varð á Suðurlandi, ef ég man rétt, en hluta ekki. Hún borgaði t.d. ekki hluta af því tjóni sem varð rétt fyrir utan Vík í Mýrdal sem var þó tilfinnanlegt og mjög erfitt fyrir það sveitarfélag sem þar um ræðir. Nú geta menn auðvitað verið þeirrar skoðunar að ekki sé rétt að taka svona tjón inn í viðlagatrygginguna en þá þurfa menn að tala um það. Menn þurfa að ræða málin á hv. Alþingi og velta því fyrir sér hvort þessu á að breyta eða hvort þetta á að vera svona áfram eins og það er. Ég tel að umræðan um þetta sé fyrst og fremst nauðsynleg vegna þess að nú er búið að leggja niður stofnun sem tók á svona vandamálum. Það var stofnunin Bjargráðasjóður Íslands. Bjargráðasjóður var til við félmrn. um árabil eins og menn þekkja og hann tók á alls konar svona tjónum, t.d. tjónum sem oft urðu í landbúnaði. Þau voru greidd úr Bjargráðasjóði. Síðan er Bjargráðasjóður lagður niður og þannig er það núna, virðulegi forseti, að enginn svona sjóður er til til þess að taka við tjónum af þessu tagi heldur höfum við hér eingöngu viðlagatrygginguna annars vegar og hin almennu tryggingafélög hins vegar en við höfum ekkert sem nær yfir gráa svæðið sem er þarna á milli og fellur hvorki inn í almennu tryggingafélögin né inn í Viðlagatryggingu Íslands.
    Þó að þetta sjónarmið, sem ég er hér að rekja komi ítarlega fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kýs meiri hluti Alþingis eða meiri hluti heilbr.- og trn. af einhverjum ástæðum að hlusta ekkert á það sjónarmið og láta það lönd og leið. Ég tel nú að þó að margt misjafnt komi frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, eins og alkunna er og ég hef ekkert legið á mínum skoðunum um þá stofnun, þá finnst mér samt ástæða til að lesa a.m.k. pappírana sem koma frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og kannski að gera eitthvað pínulítið með það, t.d. að segja af hverju menn samþykkja ekki tillögurnar. Ég er ekki að ætlast til þess að menn fallist á þær í einstökum atriðum en niðurstaðan er sú að ekkert er gert með þetta mál. Þessum pappír frá Sambandi ísl. sveitarfélaga er bara ýtt til hliðar og ekkert er talað um það af hverju þessir þættir eru ekki teknir inn.
    Ég er ekkert að biðja um það að Sambandi ísl. sveitarfélaga sé sýnd sérstök meðhöndlun á Alþingi. Það er langt frá því. Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þeirra eins og kunnugt er gegnum tíðina og ég hef margt við þá stofnun að athuga. En engu að síður finnst mér að það eigi að skoða þessi mál miklu betur og þá ekki síst út frá sjónarmiðum þeirra fulltrúa landbúnaðarins sem hafa verið á Alþingi sem einlægt kalla á viðlagatrygginguna þegar koma upp tiltekin vandamál í landbúnaðinum eins og þau sem ég var að lýsa hér áðan. En hún tekur ekki við þessum tjónum samkvæmt lögunum eins og þau eru og eins

og þau eiga að líta út samkvæmt þessu frv. Hún getur það ekki. Hún hefur ekki heimild til þess.
    Stundum er kvartað undan því að fulltrúar landbúnaðarins ráði eiginlega öllu á Alþingi og settar eru á langar ræður um það að Alþingi sé eiginlega mest aukabúgrein hjá ýmsum höfðingsbændum sem sitja hér eins og hv. þm. Agli Jónssyni vini mínum, en þegar kemur að þessu máli hérna kemur það á daginn að ekkert er hlustað á bændur. Því er alveg slegið föstu að ekkert eigi að gera með þeirra orð hér, hvorki hv. þm. Egils Jónssonar, Pálma Jónssonar eða Páls Péturssonar, svo ég nefni stórbændur í þessum hópi en tali ekki um þá sem minni eru og stunda þetta í hjáverkum eins og undirritaður.
    Það er nauðsynlegt að mínu mati fyrir þingheim að gera sér grein fyrir því að með þessari afgreiðslu á frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands er verið að hafna þeim sjónarmiðum sem landbúnaðurinn hefur verið með. Það er með beinum hætti verið að fella þessi sjónarmið. Ég er ekkert að segja að eigi að fallast á sjónarmið landbúnaðarins að öllu leytinu til en mér finnst að landbúnaðurinn eigi það inni hjá Alþingi Íslendinga eins og aðrar atvinnugreinar að það sé með rökum tekið á móti þeim sjónarmiðum sem koma frá landbúnaðinum. En það er ekki gert. Því er ýtt út af borðinu eins og þessum pappírum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Ég veit að vísu að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga er ekkert mjög vinsæll í Sjálfstfl. um þessar mundir. Hann leyfði sér að hafa t.d. aðrar skoðanir en hans hátign Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., þegar var verið að velja borgarstjóra í Reykjavík. Það er náttúrlega höfuðsynd. ( Gripið fram í: En framkvæmdastjórinn?) Og framkvæmdastjórinn er starfsmaður hans og er mikill snillingur eins og allir þekkja og hefur komið á Alþingi og lagt mjög margt gott til mála. En formaðurinn virðist ekki vera mjög hátt skrifaður þegar kemur að athugasemdum inni á Alþingi og það á kannski rætur að rekja til þess að hann leyfði sér að sitja og standa aðeins örðuvísi en Davíð Oddsson fyrirskipaði þegar var verið að velja borgarstjóra í Reykjavík sem endaði svo með því að varð að sækja upp í Ríkisútvarp.
    Það kom haugur af umsögnum um þetta mál, það vantaði ekki. Hér komu tillögur um breytingar á frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands 26. mars sl. frá heilbr.- og trmrn. þar sem það lagði til að fallist yrði á lagfæringartillögur þeirra tryggingaeftirlitsmanna. Tryggingaeftirlitið segir í bréfi sínu frá 25. mars 1992 um þann fund sem haldinn var í heilbrrn. nokkrum dögum fyrr, með leyfi forseta:
    ,,Í framhaldi af fundi í ráðuneytinu í gær þar sem fjallað var um frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands og fram komu athugasemdir hefur Tryggingaeftirlitið samkvæmt beiðni yðar tekið saman tillögur að breytingum tiltekinna greina nefnds frv. Þrátt fyrir efnistök bréfs þessa leggur Tryggingaeftirlitið áherslu á þau atriði sem fram koma í umsögn eftirlitsins dags. 24. jan 1992. Tryggingaeftirlitið er gagnrýnið á þá endurskoðun sem fram hefur farið á gildandi lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Líkt og fram kom á fundinum í gær var ekki framkvæmd heildarendurskoðun á lögunum heldur skipuð nefnd af hálfu stjórnarinnar.`` --- Það er stjórn Viðlagatryggingarinnar sem skipar nefnd sem virðist einkum, eins og stendur hér í umsögn Tryggingaeftirlitsins, hafa tekið mið af óskum stjórnarinnar en að því er virðist ekki hafa lagt sjálfstætt mat á það hvernig fyrirkomulag Viðlagatryggingar skuli vera. --- ,,Staðfest var af nefndarmönnum í gær að heildarendurskoðun hafi ekki farið fram og að vafalítið hefði mátt ígrunda fyrirkomulag vátryggingarskyldunnar ítarlegar. Hafa ber hugfast að frv. felur í sér grndvallarbreytingar á viðlagatryggingu hér á landi og það er vissulega umhugsunarvert að breyta svo mjög vátryggingarskyldunni á þann hátt sem lagt er til nema þá fyrst að vel yfirveguðu máli.
    Með tilliti til framanritaðs`` --- segir svo Tryggingaeftirlitið --- ,,leggur Tryggingaeftirlitið fram tillögur að breytingum tiltekinna ákvæða frv. sem það telur nauðsynlegt að fallist verði á ef breyta á gildandi lögum. Þrátt fyrir þær tillögur sem nefndar verða er ekki þar sem sagt að Tryggingaeftirlitið sé sammála t.d. fyrirkomulagi vátryggingarskyldunnar. Starfsemi stofnunarinnar hefur verið viðskiptalegs eðlis hvað rekstur varðar en annað samfélagslegs eðlis. Viðlagatrygging byggir upp sameiginlegan sjóð landsmanna til þess að mæta tjónum af völdum tiltekinna náttúruhamfara og er umhugsunarvert hve langt eigi að ganga í slíkri samfélagshjálp. Einhver kann t.d. að halda því fram að lönd og lóðir eigi að vera viðlagatryggðar. Venjuleg húseigendatrygging taki ekki til slíkra verðmæta o.s.frv.``
    Þar með lýkur tilvitnun í greinargerð Tryggingaeftirlits ríkisins og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel þetta mjög alvarlegar athugasemdir. Hvert er hlutverk Tryggingaeftirlits ríkisins? Tryggingaeftirlitið hefur eftirlit með allri tryggingastarfsemi í landinu og hlutverk Tryggingaeftirlitsins er ekki að verja tryggingafélögin, heldur að tryggingafélögin og rekstur þeirra sé öruggur þannig að þeir sem tryggja hjá tryggingafélögunum eigi hagsmuni sína örugglega tryggða hjá viðkomandi stofnun. Þegar Tryggingaeftirlitið, sem á að gæta hagsmuna neytenda og er fyrsta neytendastofnun þannig á Íslandi, að mig minnir er Tryggingaeftirlitið stofnað 1972, kemst að því að lögin séu hæpin að því er vátryggingarskylduna varðar þá hefði a.m.k. ég staldrað við. Ég segi það alveg eins og er. Ég hefði staldrað aðeins við. En af einhverjum ástæðum kaus meiri hluti heilbr.- og trn. að taka málið út og mér finnst það satt að segja miður svo að ég taki ekki dýpra í árinni.
    Auk þess að senda þessar athugasemdir gerði Tryggingaeftirlitið ítarlegar almennar athugasemdir um málið og Viðlagatrygging Íslands sendi trygginganefnd ítarlegt bréf 20. mars 1992 þar sem stjórn Viðlagatryggingar lagði að sjálfsögðu áherslu á það að þetta frv. verði samþykkt. Nú, þakka skyldi. Stjórn Viðlagatryggingar samdi frv. og það er dálítið skrýtið að láta stjórn tryggingafyrirtækis semja frv. Svo er það sent í ráðuneytið. Ráðuneytið flytur það en ég fullyrði að það hefur aldrei verið vandlega skoðað nokkurs staðar. Þegar fyrir liggur að neytendahliðin á málinu, þ.e. Tryggingaeftirlit ríkisins, gagnrýnir málið skil

ég ekki af hverju í ósköpunum þetta er ekki athugað aðeins betur. Ég verð að segja alveg eins og er að ég dreg það mjög í efa að menn hafi farið mjög vandlega yfir þetta í þingflokkum stjórnarflokkanna þegar málið var lagt þar fram. Ég er ekki viss um að það hafi verið farið vandlega yfir það. Ég bað hv. form. heilbr.- og trn. um að skoða málið vandlega og ræða við einstaka þingmenn. Ég nefndi þar til t.d. hv. þm. Pálma Jónsson sem hefur oft haft talsverðar athugasemdir að gera við lögin um Viðlagatryggingu Íslands en mér er ekki kunnugt um hvort það hefur verið gert.
    Ég veit að það er mjög mikið satt að segja, en ég leyfi mér samt að segja það, virðulegur forseti, ég er ekki viss um að menn hafi kynnt sér þetta mál í þaula svo að ég taki ekki dýpra í árinni. Ég leyfi mér að draga það í efa. Ég veit hins vegar ekki hvort það þýðir neitt að tala við stjórnarliðið um svona mál. Það setur venjulega loku fyrir skilningarvitin þegar maður er að reyna að tala hér. En ég vildi samt nefna við hv. meiri hluta eða fulltrúa þeirra hvort menn vildu ekki skoða aðeins áður en þetta mál verður að lögum hvort ekki er rétt að hinkra aðeins við. Það gengur náttúrlega ekki að láta stjórn eins fyrirtækis semja frv. Svo er það sent niður í heilbrrn. og heilbrrn. flytur frv. án þess að gera athugasemd við eitt einasta atriði. Síðan kemur Tryggingaeftirlitið sjálft og segir: Þetta er vont frv., og samt ætla menn að kýla það í gegn. Ég skora því á þessa virðulegu stofnun að íhuga málið nánar og neyti hér síðasta færis til þess að gera það vegna þess að nú stendur yfir 3. umr. um málið og menn felldu tillögu okkar hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar.
    Þeir menn sem sömdu frv. voru beðnir um álit og hvað ætli þeir hafi sagt um frv.? Finnst þingheimi það ekki mjög sniðugt hjá hv. Alþingi að senda svona mál til umsagnar í fyrsta lagi stjórnar stofnunarinnar sem bað um að málið yrði samið og síðan til mannanna sem sömdu málið? Þeir sem skrifuðu frv. fengu að senda inn sérstaka umsögn. Hvað ætli þeir hafi nú sagt? Ætli þeir hafi lagt til að frv. yrði fellt? Nei. Það var þannig að þessi hópur lagði það til að frv. sem hann samdi yrði samþykkt, bara samþykkt rétt si svona. ( Gripið fram í: Ertu hissa á því?) Ja, ég er að vekja athygli á því að þetta kann að hljóma sem einhver nýlunda en af einhverjum ástæðum var þetta gert. Sem betur fer hefur þetta frv. ekki verið gert að þætti í samningum aðila vinnumarkaðarins. En eins og kunnugt er má aldrei breyta stafkrók í neinu af því sem frá þeim kemur. En þeir menn sem sömdu frv. telja að það eigi alveg endilega að samþykkja það, þetta sé mjög fínt frv. En ekki er hlustað á Tryggingaeftirlit ríkisins sem á að líta eftir þessum málum og hafa faglega skoðun á þessu og hefur starfað sem eina neytendastofnunin í tryggingamálum í 20 ár, fyrst og fremst til að passa það að tryggingafélögin séu örugg tryggingafélög.
    Eins og ég sagði sendi Samband ísl. sveitarfélaga líka athugasemd, dags. 7. febr. 1992, um frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands. Þar eru eiginlega gerðar athugasemdir við allar greinarnar í frv. Hið sama er að segja um ýmsa aðra aðila sem við ræddum við þó að aðilar eins og Samband ísl. tryggingafélaga hafi talið að þetta frv. eigi að samþykkja og sömuleiðis Seðlabankinn. Seðlabankinn var spurður um þetta mál. Seðlabankinn er alltaf spurður ef mikið liggur við. Það er venjan. Seðlabankinn sem hefur ávaxtað fé Viðlagatryggingar Íslands alveg snilldarlega frá upphafi þannig að þetta er að verða mokríkur sjóður. Niðurstaða Seðlabankans er sú að segja sem svo: Af hverju megum við ekki ávaxta sjóðinn áfram? En frumvarpið gengur út á það að einhverjir aðrir eigi að ávaxta sjóðinn en Seðlabankinn.
    Nú hef ég ekki verið að taka upp hanskann mikið fyrir Seðlabankann á Alþingi á undanförnum árum eða áratug. Ég hef ekki gert það og er ekki sérstaklega þekktur fyrir það. En mér finnst samt að það þurfi að færa rök fyrir því þegar Seðlabankinn hefur unnið sitt verk vel af hverju á að taka verkið af honum. En það eru engin rök fyrir því, það er bara af því bara. Samkvæmt grg. frv. þá er það af því bara.
    Meðferðin á málinu í hv. þingnefnd er þannig að þegar við fulltrúar minni hlutans biðjum þar um fjárhagslegar upplýsingar um málið fáum við þær ekki. Við fengum aldrei reikninga stofnunarinnar, aldrei. Ég geri ráð fyrir því að menn hugsi sér að húrra í gegn með þetta en ég vara við því. Ég vara við því og hef neytt færis við 3. umr. til að gera það. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir tilraun hans til svara. Auðvitað get ég ekki gert neinar kröfur til þess að hann hafi vald á því að svara fyrir heilbrrh. í málinu. En ég get alveg eins hugsað mér að tala við umhvrh. eins og heilbrrh. um mál af þessu tagi. En mér þykir dapurlegt ef meiri hluti Alþingis ætlar að láta þetta fara í gegn án þess svo mikið sem að velta því fyrir sér augnablik hvort ekki er ástæða til að staldra við.