Viðlagatrygging Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 17:11:00 (6330)

     Sigurður Hlöðvesson :
    Virðulegi forseti. Ég kom upp í ræðustól áðan og óskaði eftir því að fá svör við þremur mjög einföldum spurningum. Þessar spurningar lúta að því hvernig frv. snýr að sveitarfélögunum í landinu. Ég reyndi að flytja það í stuttu máli, ég reyndi að flytja það skýrt þannig að menn skildu hvað ég væri að spyrja um. Ég tel nauðsynlegt að fá upplýsingar um þessi atriði sem ég spurði um áður en ég tek afstöðu til þess hvernig ég greiði atkvæði með þessu frv. Mér finnst þess vegna lágmarkskurteisi að þessum einföldu spurningum sé svarað. Ég held að það þyrfti ekki að taka langan tíma fyrir annaðhvort hæstv. staðgengil heilbr.- og trmrh., hæstv. umhvrh. Eið Guðnason, eða hv. formann heilbr. og trn., Sigbjörn Gunnarsson, að svara þeim þremur einföldu spurningum sem ég lagði fram.
    Það vill svo til að í þingsalnum hafa ekki setið margir þingmenn Alþýðuflokksins --- Jafnaðarmannaflokks Íslands eða tekið þátt í umræðum um málið. Það kann að vera að pirringur hæstv. forsrh. í garð stjórnarandstöðu yfir því hvað talað er lengi birtist í því að það sé óskað eftir því að þingmenn Alþfl. tali sem minnst og helst yfirgefi þingsalinn. Ég vek athygli á því að í salnum er hvorugur þessara aðila sem gætu væntanlega svarað þessum spurningum sem ég lagði fram, mjög einföldum spurningum sem ætti ekki að þurfa að taka langan tíma að svara og þyrfti ekki að tefja þingstörf á hinu háa Alþingi. Þetta er hugsanlega það vinnulag sem hæstv. forsrh. boðaði í ræðu sinni í gær, að hér skyldi bara rúllað áfram og valtað yfir stjórnarandstöðuna, málin færu í gegn hvað sem tautaði og raulaði og hvað sem stjórnarandstaðan segði. Það kann að vera að þannig eigi þetta að vera hjá hæstv. ríkisstjórn en ekki er ég viss um að virðing Alþingis aukist við það að á málum sé svona haldið. Þess vegna harma ég það, virðulegi forseti, að fá ekki svör við þeim einföldu spurningum sem ég hef borið hér fram.