Náttúrufræðistofnun Íslands

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 17:22:00 (6331)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni stjfrv. sem hefur hlotið afgreiðslu hv. nefndar sem um málið hefur fjallað. Jafnframt liggur fyrir brtt. á þskj. 829, sem hv. þm. Árni M. Mathiesen flytur, en sú tillaga var kölluð aftur við 2. umr. og er því til umræðu og afgreiðslu nú. Hv. þm. er ekki staddur hér nú, að því er ég best veit, vegna veikinda. Hann hefur hins vegar tjáð mér að hann sé tilbúinn að draga tillöguna til baka í umræðunni eða í síðasta lagi við atkvæðagreiðslu um frv. Af því tilefni langar mig að gera örstutta grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi eitt eða tvö atriði í frv.

    Í 9. gr. frv. er sagt að ráðherra sé heimilt að leyfa starfrækslu einnar náttúrustofu með ríkisaðild í hverju kjördæmi. Í næstu grein, 10. gr., er síðan sagt að héraðsnefndir, sveitarfélög og aðrir heimaaðilar geti átt og rekið náttúrustofu með stuðningi ríkisins. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu takmarkast við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga, bóka og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum.
    Virðulegi forseti, ég vil leggja áherslu á það að hér segir skýrum stöfum að einungis verði um framlag ríkissjóðs að ræða ef ákveðnir eru á fjárlögum fjármunir til þessa verkefnis.
    Síðan segir í ákvæðum til bráðabirgða að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. þessara laga skuli stofna setur Náttúrufræðistofnunar Íslands á Akureyri eigi síðar en í ársbyrjun. Þar er um að ræða setur en ekki náttúrustofu í merkingu frv. Síðan segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Jafnframt skal að því unnið í samvinnu við heimamenn að koma á fót náttúrustofu á Austurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1994 og á Suðurlandi eigi síðar en í ársbyrjun 1995.`` Tilgreindar eru þær tvær náttúrustofur af þeim sem heimilt er samkvæmt lögunum að stofna til.
    Ég vil láta það koma skýrt fram að ég skil þetta frv. þannig að einungis verði um stofnsetningu slíkra náttúrustofa að ræða að Alþingi hafi ákveðið í fjárlögum fjármuni til að standa undir þessum kostnaði. Liggur það reyndar í hlutarins eðli og einnig með því að lesa textann en ég taldi skylt að láta þetta koma fram svo ljóst sé hvernig skilja beri textann í frv., a.m.k. frá mínum sjónarhóli séð.
    Ég vildi, virðulegi forseti, láta þetta koma fram við 3. umr. málsins vegna fjarveru hv. þm., sem vonandi getur þó verið viðstaddur þegar atkvæðagreiðsla fer fram. En ég tek skýrt fram að ég hef átt við hann viðtöl og hann hefur tjáð mér að hann geti fallið frá brtt.