Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 17:49:05 (6334)


     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að leiðrétta hv. 14. þm. Reykv. hvar hann leggur að jöfnu að útistandandi iðgjöld Lífeyrissjóðs sjómanna séu það mikil að það valdi lífeyrissjóðunum vandræðum og þess vegna þurfi að lækka iðgjöld til sjóðfélaga. ( GHelg: Útgerðarinnar.) Skuldir útgerðarinnar, já rétt. Að skuldir útgerðarinnar séu svo miklar gagnvart Lífeyrissjóði sjómanna að ekki verði lengur svo við búið og þess vegna verði að lækka einhverja rekstrarþætti lífeyrissjóðsins. ( GHelg: Það stendur hér.) Það er alrangt vegna þess að sú upphæð sem hér um ræðir er frá síðustu áramótum og er í sjálfu sér ekkert hærri en oft hefur verið. ( GHelg: ...er þetta.) Ég vildi líka benda hv. þm. á það þótt það séu kannski engin gleðitíðindi, að sá dráttarvaxtareikningur sem hér er settur fram er með einhverri bestu ávöxtun sem sjóðurinn hefur fundið varðandi ávöxtun á því fjármagni sem hann hefur til umráða. Það er í sjálfu sér ekkert gleðiefni. Það er auðvitað vandi útgerðarinnar.
    Hitt er annað mál og svo merkilegt sem það var að þegar hv. 14. þm. Reykv. dró Lífeyrissjóð sjómanna inn í umræðuna varðandi lánamál íslenskra námsmanna þá skýrði ég hv. þm. frá því sem hann hefur líklega gleymt að engin lífeyrissjóður hér á landi annar en Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna á jafnöruggt veð varðandi útistandandi iðgjöld og Lífeyrissjóður sjómanna vegna veðbanda í skipum.
    Áður en ég kem að því sem er meginmál varðandi Lífeyrissjóð sjómanna, sem mig langaði til að fá skýringar við á eftir, vil ég minnast á það merkilega mál sem hv. 14. þm. Reykv. flutti þann 4. maí sl. en þá sagði hún eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Ég spyr: Hvar er hv. 16. þm. Reykv. einu sinni enn?``

    Einu sinni enn! Ég vildi gjarnan fá að vita hjá hv. 14. þm. Reykv. hversu oft ég hef verið frá þingstörfum í vetur. Það hlýtur að hafa verið æði oft. Ég bið þingmanninn um að standa skil á því sem hún segir. Ég ætla ekki að áminna hana um sannsögli en vil bara fá það fram, hæstv. forseti, hvort einhver siðanefnd sé starfandi á vegum þingmanna eða hefur 14. þm. Reykv. tekið að sér einhvers konar siðapostulanefnd innan þingsins?
    14. þm. Reykv. segir áfram:
    ,,Er formaður Sjómannafélags Reykjavíkur að stjórna Hrafnistu, Dvalarheimili aldraðra sjómanna sem af lifðu, . . .  ?``
    Hv. 14. þm. Reykv., sem nú hefur gengið út úr salnum: Hvað ertu að segja hvers konar mállýska er þetta? Biddu vistfólk á Hrafnistu afsökunar á orðum þínum. Biddu sjómannastéttina líka afsökunar. Svo segir hv. þm. í hvert einasta skipti sem rætt er um hagsmuni sjómanna: Er formaður Sjómannafélagsins ekki viðstaddur? Viltu gjöra svo vel og sanna þitt mál. Síðan heldur þessi ,,merkilegi`` þingmaður áfram. ( Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að nota rétt ávarp þegar talað er til þingmanna. Það er gert í þriðju persónu en ekki beint.) ( Gripið fram í: Það er þingeyska.) Já, nú væri mér skapi næst að tala svo að salt bragð væri að því sem ég segði, það er kannski það eina sem hún skilur enda segir hún það í tíma og ótíma að hún sé dóttir sjómanns.
    ,,Það er ekki hægt að sætta sig við að hvert frv. á annað ofan af þessu tagi sé rætt án þess að sá maður komi þar nokkurs staðar við sögu. Síðan leikur hann þann leik, eins og nokkrir fleiri áhugamenn um sjómennsku hafa gert, að með hinu nýja atkvæðagreiðslukerfi hafa þeir drattast hingað til atkvæðagreiðslu en ekki nýtt hvíta takkann, sem þýðir að menn greiði ekki atkvæði, heldur ekki hreyft fingurna og þá er skráð að þeir hafi ekki verið viðstaddir. Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi. Þessir menn hafa verið staðnir að því í þinginu að hegða sér á þennan veg.``
    Hv. 14. þm., viltu gjöra svo vel að gera grein fyrir þessum orðum. Eru þingmenn hér þvers og kruss, það liggja allir undir grun, að ýta á takka hver fyrir annan? Það skyldi þó aldrei vera að hv. 14. þm. hafi tekið þátt í því líka, því hún undanskilur ekki sjálfa sig.
    Má ég spyrja forseta: Er hv. 1. þm. Norðurl. v. í húsinu? ( Forseti: Samkvæmt töflu í borði forseta mun hv. 1. þm. Norðurl. v. ekki vera í húsinu þessa stundina.) Þakka þér fyrir þessar upplýsingar. ( Gripið fram í: Hann er svo vanur að láta skamma sig.) Það gerir hann líka við aðra.
    Þegar þetta mál var til umræðu þann 4. maí sl., vék hv. 1. þm. Norðurl. v. máli sínu til forseta og sagði:
    ,,Ekki er víst að mjög langan tíma þurfi til þess að klára umræðuna ef það vildi svo ólíklega til að hv. 16. þm. Reykv. væri að gegna þingskyldum sínum og mætti hér til fundar á morgun.``
    Það væri gaman að vita hvað hann á við? Hvaða mætingaskrá hafa þeir hv. þm. sem ég hef nefnt hér? Ég vildi gjarnan fá að sjá hana.
    Annars er það alveg með ólíkindum að hv. 14. þm. Reykv. skuli gera mig persónulega og stjórnarmenn í Lífeyrissjóði sjómanna nánast óalandi og óferjandi varðandi Lífeyrissjóð sjómanna. Það er ósköp eðlilegt að hv. 14. þm. Reykv., sem hefur setið 13 þing, og hv. 1. þm. Norðurl. v., sem hefur setið 20 þing undir verndarvæng ríkisvaldsins varðandi lífeyrissjóðsiðgjaldagreiðslur og tekur undir orð hennar, skilji ekki að það séu ábyrgir stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum sem ætla sér að standa við skuldbindingar sjóðsins. Þessir þingmenn hafa þann rétt fram yfir aðra Íslendinga að greiða og ávinna sér rétt í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna á sex árum, þann sama og opinberir starfsmenn eru að vinna sér á tíu árum. Það er ósköp eðlilegt að hv. 14. þm. Reykv. hafi ekki áhyggjur af öðrum lífeyrissjóðum vegna þess að hún telur sig vera nokkuð sæmilega vel setta enda þó það blasi við að fortíðarvandi Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna er kominn upp í 69 milljarða og 579 millj. í árslok 1990. Það er náttúrlega engin ástæða til þess að hv. þm. hafi nokkrar áhyggjur af því vegna þess að ríkið þarf að borga 800 þús. kr. á ári með hverjum þingmanni og gott betur með ráðherrunum. Það er ósköp eðlilegt að hér séu menn innan sala sem tala um að þeir stjórnarmenn í öðrum lífeyrissjóðum séu óalandi og óferjandi sem vilja gæta fjármuna þeirra og standa við þær skuldbindingar sem lífeyrissjóðurinn hefur tekið sér á herðar.
    Merkilegt er að sá hv. þm. sem ekki er í salnum nú og gerði athugasemdir við að ég skyldi ekki vera við þegar þessi umræða fór fram, en það var af sérstökum og persónulegum ástæðum og ætla ég ekki að biðjast afsökunar á því, en hv. 1. þm. Norðurl. v. sem hefur setið 20 ár á þingi er ekkert að minnast á það að allir lífeyrissjóðir í landinu hafa reglugerð og þurfa ekki að leita til hins háa Alþingis til að fá reglugerðum sínum breytt. Hann minnist heldur ekki á að fjöldi sjómanna greiðir í Lífeyrissjóð samvinnustarfsmanna. Hann er ekki að segja frá því að á sl. hausti var reglugerð þess ágæta sjóðs breytt þannig að menn njóta örorku í aðeins þrjú ár í blessuðum samvinnusjóðnum.
    Nei, það er ósköp gott fyrir þingmenn sem eru í vernduðum lífeyrissjóði, hvar skattborgarinn þarf að borga stórlega með og nýtur einskis, þó að stjórnarmenn í Lífeyrissjóði sjómanna séu ábyrgir og ætli sér að standa við skuldbindingar sínar.
    En komum þá að því sem hér var nefnt fyrst. Það kom þingmönnum skemmtilega á óvart að ég skyldi sitja í stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna. En þannig hagar til að þar sitja sex stjórnarmenn, þrír frá sjómönnum og þrír frá útgerðarmönnum. Allir voru sammála um að senda brtt. um lög um Lífeyrissjóð sjómanna varðandi örorkuna. Hv. 14. þm. Reykv. talar um það hvernig stjórnarmönnum detti í hug að gera

það sem gert hefur verið varðandi breytingu á lífeyrissjóðnum og tengir svo skuldir útgerðarinnar til lífeyrissjóðsins og segir 150 millj. kr. skuld útgerðarinnar þess valdandi að stjórnin fer af stað með þessar breytingar. Þetta er alrangt, þetta er misskilningur. Það hefur verið svo að menn hafa notið örorkubóta úr Lífeyrissjóði sjómanna jafnvel þannig á sig komnir, margir hverjir, að þeir hafa verið búnir að ná nokkurn veginn líkamlegri hreysti til að takast á við önnur störf. Við höfum dæmi um að menn hafa verið á skipum sem hafa farist og ekki hlotið neinn líkamlegan skaða, hafa ekki treyst sér til að stunda sjómennsku áfram en unnið fullt starf í landi og notið fullrar örorku frá Lífeyrissjóði sjómanna. Og fleiri dæmi mætti nefna.
    Við horfum til þess að aðlaga lög Lífeyrissjóðs sjómanna að þeim lögum og reglugerðum lífeyrissjóða sem eru innan Sambands almennra lífeyrissjóða.
    Varðandi skuld útgerðarinnar við Lífeyrissjóð sjómanna, er hún ekki mergur málsins og ekki, eins og hv. 14. þm. Reykv. talaði um, réttlætanlegt að fara þá leið sem hér hefur verið talað um. Hv. þm. talaði líka um það og spurði að því hvers vegna í ósköpunum við ættum að fara út úr Tryggingastofnun ríkisins, þar ættu allir sjóðir að vera. Það má vel vera, ég ætla ekkert að deila um það. En hennar ágæti flokksbróðir, ég veit ekki hvort ég á að segja fyrrv., Guðmundur J. Guðmundsson, sagði mér frá því að þegar lögin um Lífeyrissjóð sjómanna voru upphaflega sett hafi menn verið að vandræðast með það hvar finna ætti honum stað og að það hafi verið í vandræðagangi sem sjóðnum var ætlað pláss í Tryggingastofnun ríkisins.
    Það er í hæsta máta óeðlilegt að bundið sé í lögum hvar lífeyrissjóðurinn eigi að vera til húsa. Við óskum eftir því að fá að ráða því sjálfir. Ég er ekki að segja að það sé í huga stjórnarmanna eins og er að flytja sjóðinn úr Tryggingastofnun ríkisins. Það hefur farið fram athugun á því að hægt er að reka þennan lífeyrissjóð með sama rekstrarkostnaði og er í Tryggingastofnuninni, alla vega ekki hærri. En það er engin ástæða til þess að flytja lífeyrissjóðinn og ekkert verið að tala um það á þessari stundu.
    Varðandi aðra þætti hvað sjóðinn áhrærir eins og t.d. endurskoðun er ekkert óeðlilegt þó að við höfum rætt um það að ef lífeyissjóðurinn færi út úr Tryggingastofnun ríkisins yrðu löggiltir endurskoðendur fengnir til að fjalla um reikninga hans, aðrir en þeir sem ríkið er með innan sinna vébanda.
    Þetta er nú að vísu meginmálið. En að lokum vildi ég aðeins koma að því að eins og ég sagði áðan eru það fulltúar sjómanna og útgerðarmanna sem hafa rætt um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir nú og við teljum að til þess að geta staðið við skuldbindingar okkar sé eðlilegt að samræma reglur Lífeyrissjóðs sjómanna við aðra lífeyrissjóði. Það er ekki verið að tala um að þeir sem þegar njóti örorku úr Lífeyrissjóði sjómanna hljóti skerta örorku ef þeir eru dæmdir öryrkjar við endurmat. Það er ósköp eðlilegt, eins og gerist í öllum öðrum lífeyrissjóðum, að eftir ákveðinn tíma fari menn í endurmat til að athuga um hæfni þeirra til þess að gegna hvaða störfum sem er.
    Eins og ég sagði í upphafi, og ætla að ljúka máli mínu á í bili, óska ég eftir því að hv. 14. þm. Reykv. gefi það upp hér hversu illa og hversu oft ég hef mætt og geri frekari grein fyrir máli sínu og einnig að hún skýri út fyrir hinu ágæta fólki á Hrafnistu hvað hún eigi við með því sem ég las upp áðan.