Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:44:05 (6344)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessar umræður sem snúast um breytingar á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna. Eins og kom fram í ræðu hv. 16. þm. Reykv. áðan þá er hann ekki einu sinni viss um að þetta dugi til að sjóðurinn geti haldið sjó. Því miður er ástandið þannig með marga lífeyrissjóði landsmanna að þeir sjá ekki fram á að geta staðið undir skuldbindingum sínum og eru þess vegna og hafa verið að endurskoða reglur um greiðslur á lífeyri og öðrum bótum sem þeir standa skil á til sinna sjóðfélaga. Ég vil taka undir gagnrýni hv. 14. þm. Reykv. á þeim skerðingum sem hér er verið að tala um, sérstaklega í sambandi við 6. gr. Ég kem hér fyrst og fremst upp í þeim tilgangi að láta það koma fram að ég tel að það sé á ábyrgð Alþingis hvernig ástandið er í lífeyrismálum landsmanna og það geti enginn annar aðili en Alþingi Íslendinga leyst úr þeim hnút sem þessi mál er í. Ég tel enga ástæðu til að fjalla sérstaklega um einn lífeyrissjóð öðrum fremur en vitanlega er öllum ljóst að lífeyrissjóður alþingismanna er góður lífeyrissjóður sem tryggir sínum félagsmönnum góðan lífeyri. Það ætti þess vegna að vera mikill skilningur á því hjá alþingismönnum að það þurfi að tryggja öðrum sambærileg réttindi miðað við þau störf sem þeir hafa sinnt um ævina.
    Ég þyrfti að halda langa ræðu ef ég ætti að lýsa minni skoðun á lífeyrismálunum. Ég tel að það hafi verið mikið slys á sínum tíma, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnsettir, og sú stefna sem þá var tekin, þ.e. að stofna slíkan aragrúa af lífeyrissjóðum sem eru núna til í landinu og með hvaða hætti fundið var út hvaða lífeyri fólk ætti að hafa til framfæris eftir að það hætti störfum, þ.e. telja stundir og daga þess fólks sem í lífeyrissjóðunum er til að ákveða hvernig það eigi að hafa það í ellinni. Þar gleymdust minnihlutahópar í þjóðfélaginu sem ekki hafa haft möguleika á að eignast réttindi í lífeyrissjóðum. Heimavinnandi húsmæður gleymdust, öryrkjar gleymdust og ýmsir aðrir. Fyrir nú utan það að grunnurinn undir þessu á auðvitað að vera ábyrgð samfélagsins á því að allir hafi viðunandi lífeyri til að lifa af í ellinni.
    Ég tel að þessi mál þurfi öll endurskoðunar við, það þurfi að skipta þessum málum öðruvísi. Menn þurfi annars vegar að hafa lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og hins vegar þurfi menn að hafa tryggingar sem geta tekið yfir og ættu að taka yfir hluta af því sem lífeyrissjóðirnir annast í dag.
    Eins og ég sagði áðan þá ætla ég ekki að fara að lengja umræður á Alþingi um þetta mál. Ég hvet til þess að sú nefnd sem fjallar um málið horfi á það í samhengi við þá heildarendurskoðun sem þarf að fara fram á þessum málum og ég hvet hv. alþingismenn til að ræða þessi mál og vonandi finna menn leið þar sem verður að hægt að leiða saman alþingismenn til að leysa lífeyrissjóðsmál landsmanna með einhverjum heildstæðum hætti.
    Ég tel útilokað að skiljast við umræðu eins og þessa öðruvísi en að hvetja til þess að farið verði í endurskoðun á þessum málum af fullri alvöru.