Lífeyrissjóður sjómanna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:55:55 (6349)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að útiloka það að hægt sé að finna leið til að sætta þessi sjónarmið. En það kemur hvergi fram í þessu lagafrumvarpi hvernig eigi að bregðast við því ef menn eru eru kannski komnir að því að örorkumatið breytist en hafa ekki atvinnu sem gefur þeim það miklar tekjur að þeir geti lifað almennilega af þeim. Þessir menn hafa skipt um atvinnu, þ.e. þeir geta ekki lengur stundað sjó, og þá skiptir náttúrlega miklu máli, þó að þeir hafi náð sér eftir slys og séu ekki lengur öryrkjar eins og þeir voru dæmdir upphaflega. Það skiptir alla vega máli hvaða vinnu þeir hafa og ef örorkumatið á bara að gilda, en ekki taka neitt tillit til möguleika á tekjum, tel ég málum illa komið.