Samningur um réttindi barna

141. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 18:59:22 (6351)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur fyrri umræðu málsins og vil gjarnan lýsa skoðunum mínum til málsins. Ég fagna þessum samningi og hvet þingmenn til að samþykkja hann á þessu þingi.
    Það eru aðeins nokkur atriði sem ég vil drepa á og beina máli mínu til hæstv. utanrrh. Það fyrsta sem ég nefni er atriði sem kemur fram í athugasemdum við þingsályktunartillöguna um að ríkisstjórnin hafi talið rétt að leggja fram sérstaka yfirlýsingu vegna ákvæða samningsins um endurmat dómstóla og ákvörðun stjórnvalda um forsjá barna og um aðskilnað ungra fanga frá eldri föngum. Það kemur reyndar fram á bls. 11 nánar um efnið sem í þessari yfirlýsingu er og virðist mér að hún lúti að atriðinu um aðskilnað ungra fanga frá þeim eldri. Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra upplýsi um efni yfirlýsingarinnar svo það sé ótvírætt hvað í henni felst en ég hef hvergi séð þessa yfirlýsingu. Hún fylgir ekki með þessari þingsályktunartillögu. En auðvitað skiptir hún máli varðandi stöðu samningsins hér á landi.
    Í 42. gr. samningsins er ákvæði um það að aðildarríki skuldbindi sig til að kynna meginreglur og ákvæði samningsins víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst standa að því að kynna þennan samning hér á landi, með hvaða hætti menn hafa hugsað sér að samningurinn verði kynntur og hvort þeir eru komnir svo langt að sjá það fyrir sér hvenær menn hefjist handa um það efni.
    Það kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu, 11. gr. samningsins, að Ísland hafi ekki fullgilt tvo alþjóðlega samninga sem fjalla um þau tilvik þegar börn eru ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis. Það kemur fram í skýringum með 11. gr. að Ísland hefur ekki fullgilt Haag-samning frá 25. okt. 1989 og Evrópusamning frá 20. maí 1980 en fullgilding þeirra er í undirbúningi, eins og segir í skýringum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ákveðið hafi verið að Ísland gerist aðili að þessum samningum og hvenær þess er að vænta að það verði gert. Þá verður málið væntanlega lagt fyrir þingið því ef ég skil það rétt þarf það sams konar meðferð og þessi samningur.
    Í þessum tveimur samningum eru ákvæði, sem ég tel afar þýðingarmikið að öðlist gildi hér á landi og við séum aðilar að. Að vísu hefur það háð mér nokkuð við athugun efnis þessara samninga að þeir eru ekki tiltækir á Alþingi en ég fékk afrit af þeim frá utanríkisráðuneytinu og er annar í lauslegri þýðingu sem er ekki orðin opinber þýðing. Hinn er einungis á ensku og það háir mér nokkuð, bæði þurfti ég að hafa fyrir því að nálgast þá og eins háir mér nokkuð að hafa þá ekki á því máli sem mér er tamast að nota og ég skil. Engu að síður sé ég ákvæði í þessum samningum sem ég tel skipta máli og menn ættu að leggja áherslu á að öðluðust gildi hér á landi. Ég vil nefna að í ákvæði Evrópusamningsins kemur fram t.d. að aðildarríki sem standa að þessum samningi veita athygli vaxandi fjölda tilvika þar sem börn hafa verið flutt á ótilhlýðilegan hátt yfir alþjóðleg landamæri og vandkvæði eru á tryggja fullnægjandi lausn á vanda sem slík tilvik valda. Í þessum samningi eru efnisákvæði sem eiga að taka á vandamálum sem skapast vegna þessa. Mér sýnist að það hefði t.d. skipt verulegu máli í tilteknu máli, sem hefur verið nokkuð til umræðu í vetur, ef Haag-samningurinn hefði verið fullgiltur hér á landi.
    Ég nefni sem dæmi 7. gr. Evrópusamningsins þar sem aðildarríki viðurkenna að ákvörðun varðandi umsjá sem tekin er í samningsríki og sé fullnustuhæf í upphafsríkinu skuli gerð fullnustuhæf í öllum öðrum samningsríkjum. Í þessum samningi, sem ég ætla ekki að grípa frekar niður í, eru atriði sem einmitt eru ætluð til þess að auðvelda og leysa frekar úr málum sem varða börn og forræði yfir þeim þegar málið berst á milli landa. Ég nefni t.d. að aðildarríki að Haag-samningnum eru mörg og eitt af þeim er Tyrkland.
    Ég ætla að grípa aðeins niður í 22. gr. samningsins þar sem fjallað er um réttarstöðu barna sem flóttamanna og í athugasemd með þeirri grein segir, með leyfi forseta á bls. 8: ,,Gera má ráð fyrir að framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga Íslands vegna flóttamanna verði í framtíðinni í samræmi við þetta ákvæði.`` Þennan texta má skilja þannig að menn telji að þetta ákvæði sé ekki bindandi fyrir Ísland því ef menn gerast aðilar að samningi sem felur í sér ákveðið ákvæði eiga menn að fara eftir því. En hér er í raun og veru dregið úr því með því að segja að gera megi ráð fyrir að svo verði.
    Í 40. gr. er atriði sem mig langar til að nefna líka og vekja athygli á. Það er varðandi 3. tölul. í 40. gr. sem er á bls. 28 en þar segir, með leyfi forseta: ,,Aðildarríki skuli hvetja til þess að settar séu lagareglur, og reglur um málsmeðferð, skipuð stjórnvöld og settar á fót stofnanir sérstaklega fyrir börn sem eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot``. Í raun og veru er kveðið á um þá meginstefnu að í þeim tilvikum sem börn eru grunuð, ásökuð eða fundin sek um refsilagabrot skuli settar á fót sérstakar stofnanir. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort íslensk stjórnvöld muni fylgja þessu sem meginstefnu eða hvort þar verði eitthvert frávik.
    Fleira var það ekki sem ég hafði hugsað mér að nefna við þessa umræðu. Ég vil að lokum ítreka stuðning minn við þetta mál og hvatningu til hv. þingmanna að samþykkja þennan samning fyrir lok yfirstandandi þings.