Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 20:57:00 (6357)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég fagna því að þessi umræða er aftur komin á dagskrá og að okkur skuli gefast færi á að ræða lítillega saman um stöðu sjávarútvegsins áður en þinghlé gengur í garð. Ég held að það sé sannarlega ástæða til. Við þingmenn Alþb. höfum með ýmsum hætti reynt að taka upp málefni sjávarútvegsins á þessum vetri. Við höfum flutt nokkrar till. um sjávarútvegsmál, staðið fyrir utandagskrárumræðu um sjávarútvegsmál og óskað eftir skýrslum um sjávarútvegsmál.
    Það má kannski velta því fyrir sér og maður gerir það óhjákvæmilega eftir málflutning ákveðinna hv. þm. í gærkvöldi, hvort það sé ekki allt af hinu illa og óþarfa málæði og leiðindi að vera yfirleitt að nöldra um sjávarútvegsmál. Hvað eru hv. þm. að flytja tillögu um sjávarútvegsmál og biðja um skýrslur um sjávarútvegsmál? Af hverju eru þeir svona leiðinlegir? Af hverju eru þeir að þessu þrasi? Það er von að spurt sé. Það er kannski orðið þannig að menn eigi bara að þegja yfir því sem er óþægilegt afspurnar og vera ekki að taka upp erfið og viðkvæm mál. Auðvitað er sjávarútvegurinn eitt af því. Ég ætla samt sem áður að leyfa mér það, virðulegur forseti, að taka upp ekkert síður óþægilegu atriðin í sambandi við stöðu sjávarútvegsins núna en hin þægilegu. Og með góðri samvisku ætla ég að ræða þá hluti á nokkrum mínútum, hef satt best að segja ekki miklar áhyggjur af því hvort það tekur korterinu lengri eða skemmri tíma. Ég hef miklu meiri áhyggjur af þeim hugarheimi og hugsunarhætti sem mér virtist lýsa inn í í gærkvöldi þegar beinlínis var gefið í skyn að einhverjir tilteknir aðilar væru þess umkomnir að dæma um það hvenær menn notuðu málfrelsi sitt með réttmætum hætti eða ekki. Þá held ég að ástæða sé til að fara að biðja fyrir sér eins og séra Sigvaldi sagði forðum þegar eða ef upp er að vaxa kynslóð í landinu með þann hugsunarhátt að hún sé þess umkomin að dæma um það fyrir hönd annarra hvenær þeir eigi að nota tjáningarfrelsi sitt og hvernig. Vonandi er það svo að um einhver ógætileg orð sé að ræða, sem menn hafi vanhugsað látið frá sér fara. Ef ekki, þá er það alvarlegt áhyggjuefni, herra forseti.

    Í ræðu hæstv. sjútvrh. komu fram ákaflega alvarlegar og dökkar upplýsingar um stöðu sjávarútvegsins eins og við var að búast. Hæstv. sjútvrh. fór yfir það nýjasta sem hefur komið fram í þeim efnum bæði frá Þjóðhagsstofnun og einnig samtökum atvinnurekenda í sjávarútvegi. Ég hef sömuleiðis farið yfir þessi gögn og get staðfest að allt það sem hæstv. sjútvrh. sagði var rétt og satt upp úr þeim gögnum og samkvæmt þeim vísbendingum sem fyrir liggja og þarf ekki að endurtaka það. En niðurstöðutölurnar eru þær að samkvæmt síðasta mati Þjóðhagsstofnunar var botnfiskvinnslan rekin með 8% tapi. Samkvæmt nýjasta mati samtaka fiskvinnslustöðva er tap fiskvinnslunnar nú, þegar tekið hefur verið tillit til lækkandi afurðaverðs, tæplega 11%, nær 11% en 10% eins og ég hygg reyndar að hæstv. sjútvrh. hafi nefnt í gær. Þetta tæplega 11% tap botnfiskvinnslunnar svarar til rétt tæplega 4 milljarða kr. taps á ársgrundvelli. Fjórir milljarðar kr. munu tapast í íslensku botnfiskvinnslunni miðað við núverandi rekstraraðstæður á ársgrundvelli og það mun nokkurn veginn samsvara tapinu á almanaksárinu 1992, ef svo heldur sem horfir, því við erum að tala um nokkurn veginn óbreytta rekstrarafkomuna eins og hún var í byrjun árs. Og verði ekki breyting þar á svo miklu nemi verður þetta niðurstöðutalan. Þetta rakti hæstv. sjútvrh. og fór rétt með, eins og ég segi. En síðan fannst mér botninn detta úr málflutningi hans, því miður verð ég að segja. Það þarf að svara því hvernig íslenskur sjávarútvegur eigi að búa við þessar aðstæður. Hann hefur þegar gert það í sex til níu mánuði eða frá því að þessi afkoma tók að sveiflast verulega niður á við. Og það er um hálft ár liðið síðan hæstv. sjútvrh. upplýsti sjálfur að meiri hluti fyrirtækja í sjávarútvegi væri á gjaldþrotsbraut og réttilega því auðvitað endar svona rekstur með gjaldþroti.
    Flugfélagið SAS hefur tapað geysimiklu fé á seinustu tveimur árum. Það vill svo til að ég er áhugamaður um flugmál og legg jafnvel á mig fásinnu eins og þá að lesa ársreikning skandinavíska flugfélagsins SAS og kann talsvert af honum utan bókar. Mér til mikillar furðu sá ég að flugfélagið SAS hefur á síðustu tveimur árum tapað yfir 20 milljörðum ísl. króna., 1.330 millj. sænskra króna á þessu ári og 880 millj. að talið var á síðasta ári. Flugfélagið SAS hefur sem sagt tapað milli 20--25 milljörðum ísl. kr. á tveimur árum. Og ég spurði mig sömu spurningar og við hljótum að spyrja okkur gagnvart íslenskum sjávarútvegi: Hvernig getur flugfélagið SAS þolað þetta? Hvernig í ósköpunum getur rekstur búið við svona geysilegt tap? En það er ein skýring á því hvers vegna skandinavíska flugfélagið SAS þolir að tapa 20 millörðum kr. á tveimur árum. Það er af því að eigið fé skandinavíska flugfélagsins var yfir 120 milljarðar íslenskra kr. þegar tapið hófst. Þannig að þó tapið sé auðvitað sárt hjá þeim eins og öðrum og þetta hrikalegar upphæðir, yfir 20 milljarðar kr., þá eiga þeir samt 100 milljarða í eigið fé. Það er vegna þess að eiginfjárhlutfall þessa flugfélags var firnagott áður en tapreksturinn hófst og þeir höfðu grætt um 12 milljarða sænskra kr. á sjö ára tímabili áður en tapreksturinn gekk í garð með þeim erfiðleikum sem gengu yfir flugheiminn fyrir einu og hálfu til tveimur árum.
    Staðan er ekki svona hjá íslenska sjávarútveginum. Hann hefur enga 12 milljarða sænskra kr. grætt á sl. árum. Staðan er þveröfug, sjávarútvegurinn hefur verið að láta undan síga og tapa eigin fé nú um langt árabil. Þó standa tvö ár alveg upp úr þar. Það eru árin 1988, sem eitt og sér fór langleiðina með að drepa íslenska sjávarútveginn á einu bretti, og það er árið 1992, sem verður að árinu 1988 slepptu og reyndar þrátt fyrir það eitt allra versta ár í samanlagðri sögu íslensks sjávarútvegs ef svo heldur sem horfir. Það þarf að fara langt aftur, ég veit ekki hve langt, kannski aftur til þeirra ára þegar algjör síldarbrestur varð eða viðlíka áföll gengu yfir til að finna taptölu af þessari stærðargráðu í íslenska sjávarútveginum.
    Nú er það því miður svo að ég hef ekki undir höndum jafntæmandi gögn um eiginfjárstöðu og eiginfjárhlutföll í íslenska sjávarútveginum og ég hef fyrir skandinavíska flugfélagið SAS. En ég veit þó með vissu að eiginfjárhlutfallið í sjávarútveginum er svo lágt að þessi grein sem talið er að skuldi um 100 milljarða ísl. kr. eða nokkurn veginn jafnmikið og SAS á í eigin fé, að 4 milljarðar í tap á þessu ári í botnfiskvinnslunni og tap sem sennilega er hærra að brúttótölu hjá sjávarútveginum í heild vegna þess að veiðarnar eru líka með tapi þó svo að frystitogarareksturinn einn og sér sé með hagnað er þetta gífurlegt högg á þann sjávarútveg sem fyrir stendur á brauðfótum. Eins og ég hef verið að segja, herra forseti, á undanförnum mánuðum er staðan í íslenskum sjávarútvegi nú um margt mjög svipuð og hún var á sama tíma árið 1988. Afkoman er svipuð eða heldur verri ef eitthvað er og rekstrarumhverfið að mörgu leyti svipað og það stefnir í nákvæmlega það sama. Þrátt fyrir þokkaleg ár 1990 og 1991 náði sjávarútvegurinn ekki nema rétt að rétta sig af eftir þau áföll sem hann hafði áður tekið á sig. Þó að það kæmu tvö þokkaleg ár í röð náði það sáralítið til þess að setja varanlegt mark sitt á heildarstöðu atvinnugreinarinnar, t.d. jókst eigið fé sáralítið og menn gátu ekki lagt í mikla sjóði m.a. vegna þess að þegar það gerist að menn sjá aðeins fram úr sortanum eftir langvarandi barning bíða fjölmörg verkefni í fyrirtækjunum sem þarf að ráðast í. Menn freistast til að byrja að laga örlítið í kringum sig um leið og afkoman skánar og um leið og þeir fá einhverja aura til þess, þó ekki sé nema að mála húskofana sína, endurnýja nauðsynlegasta vélabúnað eða reyna að búa sig aðeins betur út í framleiðsluna. Þannig hafa t.d. fjölmörg skuldsett fyrirtæki ráðist í það, um leið og þau höfðu minnstu möguleika til, að koma sér upp flæðilínum í frystihúsin, ráðist í fjárfestingar á bilinu 15 upp í 30--50 millj. kr., bráðnauðsynlegar og í raun skynsamlegar fjárfestingar. En fyrirtækin eru bara svo veik, þau eiga ekki eigið fé og mega ekki við neinu þegar þau hafa búið við svona rekstrarumhverfi og þurfa síðan af brýnni nauðsyn að ráðast í lagfæringar á aðstöðu sinni um leið og þau hafa minnstu möguleika til þess.
    Það er því þannig, herra forseti, að niðurstaðan í maímánuði er ákaflega dapurleg þegar meira en

hálft ár er liðið frá því að sjútvrh. hafði þó hreinskilni til þess að kveða upp úr um það hvernig horfði í íslenskum sjávarútvegi, að við skulum standa í nákvæmlega sömu sporum því það hefur bókstaflega ekkert gerst. Málið hefur verið í nefnd. Út úr henni hefur ekkert komið og hæstv. sjútvrh. virðist ekki hafa haft bolmagn til þess að koma neinu því fram sem máli skiptir í sambandi við bætta afkomu sjávarútvegsins.
    Auðvitað er ljóst að töfraformúlur verða ekki tíndar upp af götunni og lagðar fram til lausnar á þessum vanda þannig að hann hverfi eins og dögg fyrir sólu, slíkt er ekki til, það er okkur öllum mætavel ljóst. En það gerir þetta allt saman talsvert erfiðara að ríkisstjórnin, sem hæstv. sjútvrh. er fangi inni í, hefur það sem sérstakt boðorð að ekki megi taka sértækt á vanda sjávarútvegsins eða einstakra greina innan hans, ég tala nú ekki um einstakra fyrirtækja. Það er slík kórvilla í boðskap hinna almennu aðgerða að engu tali tekur. Og ég er satt að segja orðinn hundleiður á því, ef ég má nota það orð, herra forseti, þegar menn tala um þetta með þessum hætti. Það er langur vegur frá því að skoða stöðu sjávarútvegsins sem atvinnugreinar, að skoða stöðu einstakra vinnslugreina innan hans, t.d. saltfiskverkunar, og skoða jafnvel stöðu einstakra fyrirtækja, burðarása atvinnulífs í viðkomandi byggðarlögum, og yfir í einhvern þann sósíalisma andskotans, þau bannorð sem notuð eru til að ýta út af borðinu öllum hugmyndum um að taka á vandanum með vitrænum hætti. Geta menn virkilega ekki grafið klisjurnar og horfst í augu við vandann? Hvaða tilgangi þjóna æfingar af því tagi að hér sé komin við völd ríkisstjórn sem neiti öllum sértækum aðgerðum og þar með sé það bara afgreitt? Þar með megi sjávarútvegurinn bara fara á hausinn, þess vegna eins og hann leggi sig og þetta boðorð sé öllu öðru æðra. Menn eiga auðvitað ekki að komast upp með að skjóta sér undan því að horfast í augu við raunveruleg vandamál líðandi stundar í atvinnumálum á Íslandi með svona ódýrum hætti.
    Auðvitað hefur ríkisstjórnin brotið þessar reglur sjálf. Hún hefur tekið til sértækra ráðstafana gagnvart sjávarútveginum. Hún hefur t.d. ákveðið að leyfa sjávarútveginum að fresta afborgunum í skuldbreytingarsjóðum en það hefur ekki verið tekin slík ákvörðun gagnvart t.d. landbúnaði eða iðnaði. Þetta er sértæk ráðstöfun þannig að til hvers eru þá öll þessi ræðuhöld? Við skulum frekar ræða það hvernig við getum haft hinar sértæku ráðstafanir sem almennastar þannig að við þurfum ekki að fara ofan í saumana á rekstri í hverju einstöku fyrirtæki. Það vill svo til að sá sem hér stendur hefur nokkra reynslu af því. Ég sat í þeirri ríkisstjórn sem var að fást við sambærilegan vanda og fór í það mikla og vandasama verkefni að skoða afkomu sjávarútvegsins nokkurn veginn ofan í kjölinn. Við fengum inn á borð þeirrar ríkisstjórnar vandamál tuga fyrirtækja sem af illri nauðsyn voru komin þangað. Menn gerðu það ekki að gamni sínu á árunum 1988 og 1989 að skoða stöðuna með þeim hætti. Menn gerðu það ekki vegna þess að þá langaði til að vera með nefið ofan í rekstri og afkomu hvers einasta fyrirtækis í sjávarplássum hringinn í kringum landið. Nei, ekki aldeilis. Og ég skal segja það hér að það er hlutskipti sem ég vona að ég þurfi aldrei aftur að láta ganga yfir mig. Það er ekki skemmtilegt verk. Og ég held að enginn maður í landinu, a.m.k. enginn stjórnmálaflokkur, hafi þá stjórnmálastefnu að slíkt sé æskilegt. En stundum er það þannig að menn geta ekki valið sér verkefni í stjórnmálum út frá því sem þeir vilja og þeim þykir skemmtilegt sjálfum. Við höfum a.m.k. ekki mikið að gera með svoleiðis stjórnmálamenn á Íslandi. Ef þeir eru ekki menn til að horfast í augu við raunveruleikann og taka á honum eins og hann birtist þeim og setja kennisetningarnar til hliðar og taka á hinum íslenska veruleika sem við þeim blasir þá eiga þeir að fá sér eitthvað annað að starfa en að fást við pólitík. Það er svo einfalt mál í mínum huga.
    Auðvitað væri það æskilegast að menn gætu með sem almennustum hætti tekið á þessum hlutum þannig að fyrirtækjum og atvinnugreinum sé ekki mismunað. En ætli það sé nú samt ekki betra fyrir okkur að reyna að leysa hlutina, láta hjól atvinnulífsins snúast, en bíta okkur svo rígföst í kennisetningar að við lokum öllum skilningarvitum? Þegar svo er komið að best stæðu, öflugustu og kvótaríkustu útvegsfyrirtækin í landinu eru farin að tapa fé er þá ekki eitthvað að? Er þá lengur hægt að skjóta sér á bak við það að þetta séu bara skussarnir og að það þurfi bara að hagræða? Ég held ekki. Ég er ansi hræddur um að það sé einhvers staðar orðið dálítið erfitt í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi þegar þau systkin Útgerðarfélag Akureyringa og Grandi hf. eru farin að tapa peningum. Það er staðan í dag. Ég er ansi hræddur um að gróðinn sé farinn að mælast í lágum tölum á þeim bæjum.
    Það er, herra forseti, bagalegt að Alþfl. skuli ekki láta svo lítið að láta sjá sig við þessa umræðu. Það er t.d. spurning hvort formaður Alþfl., sem var hér fyrr í kvöld, er gersamlega ófáanlegur til þess að vera hér og tala máli síns flokks eða a.m.k. hlusta á umræðuna því að ég held að hann hefði gott af því. Ég mundi vilja beina því til forseta að hann væri svo vinsamlegur að láta þingsveina gera hæstv. utanrrh. aðvart um að vakin hafi verið athygli á því úr ræðustól á Alþingi að enginn krati sé í salnum og þaðan af síður einhver ráðherra sem telst til þess flokks.
    Ég vil biðja hæstv. sjútvrh. að reyna undir lok umræðunnar að gera aðeins betur en hann gerði í framsöguræðu sinni. Það var í sjálfu sér skínandi greinargott sem hann flutti í fyrri hluta síns máls og varðaði stöðuna í sjávarútveginum og afkomuna, hvert horfði. En spurningin er um úrræðin. Það sem enn hefur gerst í þeim efnum er svo lítið að satt best að segja skiptir það ekki máli í sambandi við þær afkomutölur sem við erum að ræða. Það skiptir nánast ekki máli og það er auðvitað engin lækning eins og menn vita að lengja aðeins í snörunni með því að fresta að einhverju leyti afborgunum. Það hjálpar upp á að fyrirtækin lifi á líðandi stundu, að þau þurfi ekki að binda fé eða skuldbreyta, standa í erfiðum samningum um að skuldbreyta sínum afborgunum. En það er engin lækning. Það er frekar eins og deyfilyf við núverandi aðstæður.
    Hvað sér hæstv. sjútvrh. hugsanlegt í stöðunni til að gera með marktækum hætti umtalsverðar og merkjanlegar afkomuúrbætur til handa útveginum? Er eitthvað sem hæstv. sjútvrh. sér að væri hægt að gera með ráðstöfunum af hálfu Alþingis og ríkisstjórnar? Er sjútvrh. t.d., svo að hann fái einhverjar beinar spurningar, tilbúinn til að kanna áhrif af því að breyta lögum um Verðjöfnunarsjóð og greiða út það fé sem í honum er? Þetta er krafa sem stendur á okkur frá fiskvinnslunni sem kvartar undan því að hafa þurft að binda þarna eina 3 milljarða kr. við aðstæður, sem þrátt fyrir hátt afurðaverð, voru henni það óhagstæðar að hún tapar nú fé og enn er afurðaverðið þannig að það er nokkuð í útgreiðslur á þessum peningum sem fiskvinnslan á þarna bundna í sjóðnum. Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég er tilbúinn til að skoða þetta mál og ef menn yrðu sammála um það hér á Alþingi mætti þess vegna drífa í gegn frv. um að borga þessa peninga út á næstu þrem mánuðum eða svo til fyrirtækjanna. Ég held að þó að við lítum til efnahagslegs jafnvægis, þá megi með hliðsjón af þeim samdrætti sem orðinn er í þjóðarbúskapnum, lægri þjóðartekjum og erfiðleikum, auðveldlega rökstyðja að þetta sé óhætt án þess að því fylgi hætta á þenslu eða efnahagslegum vandkvæðum af því tagi. Þarna er eitthvað sem hægt er að taka á og ræða. Eru menn tilbúnir í þetta fyrir það fyrsta eða eitthvað af slíkum toga? Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að viðurkenna að það sem hann flutti okkur í gær var ákaflega fátæklegt hvað varðaði beinar tillögur eða hugmyndir um aðgerðir til handa sjávarútveginum.
    Ég spyr í öðru lagi um vextina. Er það ekki svo að þegar útvegurinn er svo skuldsettur með 100 milljarða kr. skuldir, eins og talað er um, og þessa erfiðu rekstrarafkomu, ég tala nú ekki um lækkandi afurðaverð sem kemur sér mjög illa fyrir fyrirtækin, þá neyðast bankar til að lækka og endurmeta sínar afurðalánaupphæðir? Í sumum tilvikum er það vegna endurgreiðslna eða skilaverðs fyrir seldar afurðir, fallandi afurðaverð, svo fyrirtækin fá minna heim en áætlað var þegar þau tóku sín afurðalán og það myndast alþekktur vandi af því tagi. Þennan vanda hafa menn glímt við víðar, t.d. í loðdýrarækt þegar verðfallið var þar. Þá var það svo snöggt að í sumum tilfellum dugði endanlegt söluverð afurðanna ekki fyrir afurðalánum sem veitt höfðu verið og miðað var við að væri 70% áætlaðs söluverðs. Sem betur fer er dæmið ekki svo ljótt í sjávarútveginum en þó er það þannig að í vissum flokkum framleiðslu hefur afurðaverðið fallið það snöggt milli mánaða að verulega vantar upp á að áætlað söluverð skili sér heim og fyrirtæki fá þar af leiðandi sáralitla peninga þó svo að þau nái að selja vöruna til viðbótar þó þeim afurðalánum sem veitt höfðu verið.
    Vaxtakostnaðurinn og rekstrarfjárfyrirgreiðsla til sjávarútvegsins er spurning um líf eða dauða við slíkar aðstæður, alger spurning um líf eða dauða. Ég er þá ekki að ræða um þá málamyndavexti sem eru á hinum skráðu töflum bankanna. Það er ekki það sem við erum að ræða um hér. Við erum að ræða útlán til fyrirtækja í C- eða D-áhættuflokki eins og það er flokkað í bankakerfinu þar sem komið er 2--5% álag ofan á hina skráðu vexti vegna veikrar stöðu viðkomandi fyrirtækja. Getum við gert eitthvað til að hjálpa þeim fyrirtækjum upp úr öldudalnum?
    Ég sagði það nokkrum sinnum, hæstv. forseti, úr þessum ræðustól við afgreiðslu fjárlaga um síðustu áramót að það væri verið að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn í landinu svo næmi 760--780 eða jafnvel 1.000 millj. kr. Ég stend enn við þessa tölu. Verði sem sagt af því, sem fjárlögin gera ráð fyrir, að selja veiðiheimildir til sjávarútvegsins á komandi sumri fyrir á sjötta hundrað millj. kr. munu þeir fjármunir til viðbótar öðrum álögum nema upphæðum af þessari stærðargráðu. Eru menn tilbúnir til þess að taka upp fjárlögin áður en menn fara heim og fella þessar álögur niður og úthluta strax þessum veiðiheimildum án endurgjalds til flotans? Ekki mun af veita. Þetta munar meira en hálfum milljarði kr., hæstv. sjútvrh. Það er áttundi partur af áætluðu tapi botnfiskvinnslunnar. Erum við tilbúin til þess til viðbótar því að breyta lögum og borga út inneignirnar í Verðjöfnunarsjóði að fella niður þessar álögur? Erum við tilbúnir til þess að afgreiða ekki, sem vonandi verður nú ekki, frv. um skattlagningu innlánsstofnana svo Fiskveiðasjóður þurfi ekki af þeim sökum að hækka vexti sína og taka inn tekjur sem nema um 230--250 millj. kr. á ári? Og erum við tilbúin til þess að falla frá gjaldskrárhækkunum og öðrum álögum sem fjárlög og bandormur gera ráð fyrir að sjávarútvegurinn taki á sig á þessu ári? Það er ekki seinna vænna að svara þeirri spurningu. Ef svarið er nei, þá er líka ágætt að fá það fram áður en þingið fer heim að menn ætli ekki að gera neitt af þessu tagi því að þetta eru ráðstafanir sem hægt er að gera án þess að brjóta hin kórheilögu boðorð almennu aðgerðanna. Þetta voru sértækar álögur á sjávarútveginn. Úr því að hægt er að leggja sértækar álögur á, þá er væntnalega hægt að taka þær af.
    Eru menn tilbúnir t.d. í aðrar ívilnandi aðgerðir sem geta auðveldað sjávarútveginum að búa við óbreytt raungengi krónunnar? Hér fór nokkur umræða fram í gær um raungengisstigið. Það er hátt, það er rétt. En það er líka ákaflega vandasamt mál að þurfa að hreyfa við því. Það mundi setja ýmislegt úr skorðum sem er okkur mikilvægt svo sem nýgerða kjarasamninga. Þó að það séu skítasamningar hafa þeir þó þann mikla kost að þeir auðvelda okkur að halda þeim stöðugleika í þjóðfélaginu sem náðst hefur. Þeir eru lélegir fyrir launafólk. Þeir færa því engan veginn þær kauphækkanir sem það þarf á að halda en hin hliðin á þeim er auðvitað sú og það er sjálfsagt að viðurkenna að þeir verða, ef þeir ná fram að ganga og verða samþykktir, ákveðið akkeri í stöðugleika, áframhaldandi stöðugleika hér. Þökk sé þeim samningum en ekki ríkisstjórninni. Þess vegna er það erfitt mál að hrófla við breytu eins og genginu við núverandi aðstæður. Það hefur þann stórkostlega ókost í för með sér að því fylgir að jafnaði uppsveifla í verðlagi. En

sjávarútvegurinn þolir ekki þetta háa raungengi miðað við óbreyttar rekstraraðstæður og þá verðum við að skoða hina aðferðina til þess að lækka það, þ.e. að draga úr tilkostnaði sjávarútvegsins innan lands. Það er eina leiðin til að breyta raungenginu sjávarútveginum í hag án þess að fella gengi krónunnar sem þá er eftir. Og hvernig gerum við það? Jú, við gerum það m.a. með því að létta af honum álögum og bæta starfsskilyrði hans með innlendum ráðstöfunum. Það mun lækka raungengi krónunnar gagnvart sjávarútveginum að hætta við að láta hann kaupa veiðiheimildir á þessu ári fyrir 525 millj. kr., alveg mælanlegt. Ef litið væri á það út frá sjávarútveginum einum mundi það vera raungengislækkun upp á 0,5--1% reikna ég með. Eru menn tilbúnir í svona ráðstafanir? Eru menn tilbúnir til þess að styrkja íslensk fiskiskip, t.d. stóru og öflugu frystiskipin okkar sem fjölgar dag frá degi, til þess að hverfa af hefðbundnum veiðislóðum og sækja á djúpmið? Eru menn tilbúnir til að stofna sjóð eða gera eitthvað til þess að taka með útgerðarfyrirtækjunum þátt í áhættunni sem því er samfara að fara af Halanum og suðaustur í kanta og reyna þar við búra eða langhala eða hvað þau heita, þessi kvikindi sem Frakkar og ýmsir aðrir eru þar að veiða. Franskur togari veiddi 400 tonn fyrir fleiri tugi milljóna kr. á þrem vikum um daginn í köntunum djúpt út af Kötlugrunninu. Geta ekki íslensk skip gert þetta? Jú, auðvitað. En meðan þau geta valið um það að sækja á hefðbundin mið í því öryggi sem í því felst að vita hvar þau eru stödd og þekkja á aðstæður eða hitt að taka áhættuna af því að prófa svona hluti, þá sýnir sagan að þau velja öryggið. Þess vegna eru stór og öflug verksmiðjuskip, upp undir þúsund tonn að stærð, sem við eigum hér orðið í tugum, að sarga á grunnmiðum okkar innan um hin skipin og beita ekki þeim afköstum og þeirri getu sem þau hafa t.d. til að sækja á dýpri mið. Væri það ekki skynsamlegt við núverandi aðstæður að reyna að gera stórátak í þeim efnum að létta álaginu á heimamiðum og greiða fyrir sókn, aukinni verðmætasköpun og meiri afla með því að sækja í slíkar vannýttar tegundir á nýjum miðum. Eru menn tilbúnir í eitthvað svona? Geta menn ekki tekið það fyrir og rætt eða er það virkilega þannig að það sé algerlega borin von að fá hér umræður um það að gera eitthvað í málunum? Er það virkilega þannig að það sé bara orðin löggilt stjórnarstefna að halda að sér höndum og gera ekki neitt á hverju sem gengur? Manni virðist það.
    Ég tel t.d. að það eigi líka að skoða ráðstafanir sem koma fiskvinnslunni sérstaklega til góða og þær er hægt að gera. Það er auðvitað hægt að taka vinnsluna fyrir, jafnvel þær greinar hennar sem standa sérstaklega illa, og skoða með hvaða hætti við getum komið til móts við þær. Í frystihúsum norður í landi er í nokkrum tilvikum verið að setja upp eða hafa verið settar upp fullvinnslulínur fyrir frystar sjávarafurðir. Þannig er það t.d. í frystihúsi Útgerðarfélags KEA á Dalvík og í Hrísey og í Fiskiðjusamlaginu Húsavík. Þar er núna unnið í neytendapakkningar, smáöskjur, 400 gramma stykki sem rúllað er inn í plast og sett fjögur saman ofan í öskju. Þessu er pakkað með vörumerkjum Marks & Spencer, Findus eða Nestle eða annarra slíkra stórra dreifingaraðila og sent beint í búðir í Evrópu. Í Fiskiðjusamlaginu á Húsavík er t.d. pakkað fyrir belgíska verslunarkeðju í umbúðir á belgísku og meira en það. Varan er verðmerkt með tölvustrimlum fyrir kassana í búðunum. Hún fer því beint inn í hillu í viðkomandi verslun, kaupandinn gengur þar að henni, tekur hana og afgreiðslufólkið við kassann strýkur henni yfir tölvuskjáinn og þar kemur verðið fram. Þetta er mjög jákvætt, er það ekki? Þetta eru menn búnir að tala mikið um á Íslandi. Þetta er hægt. Það þarf engan EES-samning til. Þessi vara fer núna tollfrjálst inn í erlenda stórmarkaði og kílóverðið á fiskinum í þessari pakkningu er 600--800 kr. Það er að vísu eitt besta stykkið úr fiskinum sem fer í pakkann, stundum hnakkastykkið, en þetta er samt sem áður verðið. Við þurfum engan EES-samning til þess að geta þetta. Þetta er hægt í dag og það bætir við þó nokkrum störfum. Í sumum tilvikum, eins og í frystihúsinu á Dalvík, er heill nýr vinnslusalur með nýrri línu settur upp við hliðina á og í framhaldi af þeirri venjubundu vinnslu sem þar er og þar er allstór hópur fólks við störf þar sem áður var reyndar sláturhús. Þarna er að eiga sér stað mikil viðbótarverðmætasköpun. Þarna er að fjölga störfum og það er ekkert sem hindrar okkur miðað við núverandi viðskiptasamninga, t.d. inn á markaði Evrópubandalagsins, að gera þetta. Það má verða þeim umhugsunarefni sem tala eins og öll framþróun í íslenskum sjávarútvegi sé bara úr sögunni ef þessi evrópski efnahagssamningur nær ekki fram að ganga. Það er nú aldeilis ekki svo. Það eru nefnilega í dag opnir gríðarlegir möguleikar af þessu tagi, t.d. innan frystingarinnar af því að þar er tollfrelsi á öllum vörum sem flokkast sem frystar fiskafurðir, fryst flök eða fryst fiskstykki.
    Þetta finnst mér ástæða til að ræða og það er auðvitað heldur dapurlegt að þurfa að gera það nánast yfir tómum þingsalnum, að það skuli ekki einn einasti ráðherra og sárafáir alþingismenn, með mikilli virðingu og þökk til þeirra sem þó eru hér viðstaddir, nenna að leggja á sig að reyna að ræða saman eina kvöldstund um þessi mál. Ég vil sem sagt biðja hæstv. sjútvrh., sem án efa heyrir hvert einasta orð sem ég segi, að svara þessum spurningum. Kannski ég fari yfir þær einu sinni enn: Er hann tilbúinn til að taka þátt í því að setja lög sem opna möguleika á útgreiðslu úr Verðjöfnunarsjóði svo að við greiðum út á næstu mánuðum þessa 3 milljarða kr. sem fiskvinnslan á þar? Er hann í öðru lagi tilbúinn til þess að breyta lögum þannig að fallið verði frá kvótasölu á þessu ári og þeim rúmlega hálfa milljarði skilað til fiskveiðanna eða öllu heldur hætt við að taka við af útgerðinni? Er hann í þriðja lagi tilbúinn til þess að grípa til aðgerða til að hvetja til sóknar í nýja og vannýtta fiskstofna og nýjar veiðislóðir, t.d. á djúpmiðunum suður og austur af landinu þar sem erlendar þjóðir eru núna að moka upp afla? Er hann í fjórða lagi tilbúinn til þess að setja í gang sérstakt átak til að hraða fullvinnslu í fiskvinnslunni innan frystingarinnar svo að dæmi sé tekið þannig að mæta megi minnkandi afla og minni verðmætum með aukinni fullvinnslu af því tagi sem þegar er komin í gang á nokkrum stöðum af nokkrum framsæknum aðilum í frystingunni?

    Er hæstv. sjútvrh. tilbúinn til þess að koma hér upp og vera svo vænn að lýsa viðhorfum sínum til þessa? Satt best að segja, hæstv. forseti, fyndist mér miklu merkilegra að sjútvrh. gerði það en að svara, þó það væri ágætt líka, þeim spurningum t.d. sem hann var beðinn um samkvæmt þeirri skýrslu sem hér til umræðu. Hann hljóp auðvitað gersamlega yfir það að svara ýmsu af því sem hann var þar spurður um og átti hann þó að gefa svör við þessari skýrslu. Hann var t.d. beðinn að greina frá því hvort yfirlýsingar aðstoðarmanns utanrrh., sem ríkisstjórnin fól að gegna trúnaðarstarfi við mörkun sjávarútvegsstefnunnar, túlkuðu stefnu ríkisstjórnarinnar, þar á meðal um gjaldþrotaleiðina sérstaklega. Hæstv. sjútvrh. sleppti algerlega að svara þeirri spurningu. Ætli það sé ekki hægt að fá eitt viðtalsbil við hæstv. sjútvrh.? Formaður alþjóðasamtaka póst- og símamanna upplýsti að innanlandssímtöl á Íslandi væru þau ódýrustu í heimi og það hlyti þess vegna að vera viðráðanlegt mál að ná einu viðtalsbili við hæstv. sjútvrh. ( Forseti: Hæstv. sjútvrh. þurfti aðeins að bregða sér fram og kemur væntanlega von bráðar.) Já. Það hefur sjálfsagt ekkert frést af hæstv. utanrrh. og Alþfl. Ég bað um að lýst yrði eftir Alþfl. (Gripið fram í.) Utanrrh. Það er mjög gleðilegt. Þá þarf ekki að senda tilkynningu í útvarpið en ég var farinn að halda að það yrði að auglýsa eftir Alþfl. í útvarpinu á undan tíu-fréttunum því að það hefur lítið sést af honum í kvöld. Það er að vísu einn varaþingmaður. Það er okkur mikil ánægja að hafa hann hér meðal okkar. En ráðherrar flokksins og t.d. sjávarútvegsnefndarmenn láta lítið fyrir sér fara. Hinn galvaski 17. þm. Reykv. sem stundum er hér að brúka kjaft og spyrja aðra flokka um þeirra stefnu í sjávarútvegsmálum er ekki hér. (Gripið fram í.) Það er ánægjulegt. Hv. 17. þm. Reykv. er ekki hér, hvorki til þess að spyrja aðra flokka út úr um þeirra stefnu, sem er hans íþrótt, og þaðan af síður auðvitað til þess að svara fyrir stefnu Alþfl. Hann leggur það ekki í vana sinn. ( Forseti: Forseti vill gjarnan upplýsa hv. þm. um að það kom fram á fundinum í dag með formönnum þingflokka að hv. 17. þm. Reykv. gæti ekki verið hér í kvöld þegar það var ákveðið að taka þessa skýrslu til umræðu.) Já, ég tek það gott og gilt og þá er ekki um það að fást. En maður leyfir sér stundum að inna eftir því hvar hv. alþm. séu staddir sem hafa þegar tekið þátt í að blanda sér í umræður eins og hv. 17. þm. Reykv., ef ég man rétt, hefur að einhverju leyti gert í þessari umræðu, alla vega oft og iðulega á undanförnum dögum um sjávarútvegsmál.
    Ég hefði sem sagt gjarnan viljað að til viðbótar þessum fjórum eða fimm beinu spurningum, sem ég hef borið fram við hæstv. sjútvrh., svaraði hann betur þeim spurningum sem hann var sérstaklega beðinn um að svara samkvæmt skýrslubeiðninni og þá á ég ekki síst við aðra spurningu, þar sem spurt er út í yfirlýsingar sem aðstoðarmaður hæstv. utanrrh. hafði gefið og hvort þær túlki í raun og veru stefnu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst ekki sanngjarnt að hæstv. sjútvrh. skjóti sér með öllu undan því að koma inn á þetta atriði því það varðar auðvitað ákveðinn grundvöll þessa máls sem við erum að ræða um. Gjaldþrotastefnan gengur, eins og kunnugt er, út á það að aðhafast ekki neitt, að láta sjávarútveginn bara fara á hausinn eftir atvikum eins og hann leggur sig ef svo ber undir og það sé hin rétta aðferð til þess að knýja fram eitthvað sem menn tala um sem uppstokkun og hagræðingu í greininni. Hinn formaður endurskoðunarnefndarinnar, sem, eins og ég sagði í gærkvöldi, er skynsamur maður, hefur auðvitað viðurkennt haldleysi þessara kenninga, bent á þá augljósu staðreynd að velflest sjávarútvegsfyrirtæki sem farið hafa á á höfuðið á undanförnum árum hafa með einum eða öðrum hætti hafið starfrækslu á nýjan leik, gjarnan vegna þess að þau eru slíkir burðarásar í atvinnulífi í sínum heimabyggðum að heimaaðilar, sveitarfélög eða aðrir nauðugir viljugir verða að berjast fyrir því að setja þau í gang á nýjan leik. Ætli hann þekki það ekki hv. þm. Alþfl., sem mun vera frá Patreksfirði, hvernig þetta er? Einu gildir. Menn þekkja það hringinn í kringum landið að það er önnur hlið á þessari gjaldþrotaaðferð sem aðstoðarmaður hæstv. utanrrh. hefur verið að boða.
    Herra forseti. Ég lýsi eftir því hvort nokkur vilji sé fyrir hendi af hálfu ríkisstjórnarinnar, og ég bið hæstv. sjútvrh. að svara fyrstan manna, til að grípa til einhverra ráðstafana vegna þeirrar hrikalegu stöðu sem sjávarútvegurinn er í. Það er 11% tap á botnfiskvinnslunni í landinu. Hún mun tapa 4 milljörðum kr. á þessu ári. Það getur ekki gengið svo til langframa. Hún er þegar búin að búa við þessa afkomu eða nokkurn veginn þetta slæma afkomu um meira en hálfs árs skeið og hún þolir það ekki mjög mikið lengur. Hún á enga 120 milljarða kr. til að tapa eins og skandinavíska flugfélagið SAS átti 1990 þegar þeir byrjuðu að tapa peningum. Ætli það væri ekki nær að velta því fyrir sér hvort fiskvinnslan á yfir höfuð nokkurt eigið fé lengur?
    Tímans vegna, hæstv. forseti, ætla ég ekki að fara út í umfjöllun um sjávarútvegsstefnuna almennt, störf tvíhöfða endurskoðunarnefndarinnar eða aðra slíka hluti sem auðvitað hefði verið fróðlegt að ræða hér og margir aðrir ræðumenn hafa gert á undan mér. En ég vil gefa hæstv. sjútvrh. færi á að koma aftur inn í umræðuna fyrr en síðar og svara þeim spurningum sem ég hef fyrir hann lagt. Ég vil fyrir mitt leyti bjóða fram stuðning minn við það að tíminn á síðustu dögum þingsins verði að einhverju leyti tekinn í það að skoða, t.d. í sjútvn. og í efh.- og viðskn., mögulegar ráðstafanir til þess að bæta stöðu sjávarútvegsins tafarlaust. Til þess eru a.m.k. nokkrar handhægar og beinar aðferðir tiltækar. Ég hef nefnt þær, a.m.k. stungið upp á ákveðnum möguleikum í því sambandi. Það eru beinharðar tillögur, beinharðir möguleikar að greiða út féð úr Verðjöfnunarsjóði og hætta við að láta sjávarútveginn borga yfir hálfan milljarð kr. fyrir veiðileyfi síðar á þessu ári. Eru menn tilbúnir til að taka upp í þinginu eða í viðkomandi nefndum þess umræður um þessa hluti áður en þingið fer heim? Eða vilja menn kannski mæta aftur á sviðið á nýjan leik í ágúst eða september nk. með sambærilega stöðu og haustið 1988 að jafnlengd á því ári? Er það það sem

menn eru virkilega að biðja um eða stefna í? Ég trúi því auðvitað ekki fyrr en ég tek á því að nokkurn þann sem upplifði það ástand, og allra síst hæstv. sjútvrh., sem skyldi ekki vera að væri pínulítið öróttur enn þá af atburðum þess hausts, langi til að upplifa þá hluti aftur. En það er það sem er að gerast. Ég held að ég hljóti að hafa rökstutt það nógu rækilega og reyndar einnig hæstv. sjútvrh. með talnalegum upplýsingum sínum í ræðu í gær. Það er nákvæmlega þetta sem er að gerast og tíminn gengur mjög hratt á okkur.