Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 21:41:50 (6358)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er að vonum að þingmenn óski eftir því að fá skýrslu um stöðu fiskvinnslunnar í landinu eins ljótar og afkomuhorfur eru miðað við síðustu fréttir sem við höfum fengið af þeirri atvinnugrein bæði í dagblöðum og nú síðast í fréttabréfi SF þar sem forsíðan ber yfirskriftina: ,,Tekst fiskvinnslunni að lifa við fast gengi næstu tíu mánuði?``
    Hæstv. ráðherra kom nokkuð rækilega inn á þá stöðu sem er í greininni og þann fjárhagsvanda sem þar er og dró þannig sjálfur upp rækilegan rökstuðning fyrir nauðsyn þess að ræða þetta mál ítarlega í þingsölum og knýja á um stefnu ríkisstjórnarinnar og úrræði hennar sem hún hyggst grípa til ef einhver eru. Það er augljóst mál að atvinnugrein, ef við lítum á sjávarútveginn í heild, sem þannig er stödd miðað við þær tölur sem birst hafa opinberlega að skuldir hennar eru meiri en nemur árstekjum, er í miklum vanda. Og í mínum huga er það ekkert áhorfsmál að sú staða er uppi að það er ólíklegt eða jafnvel óhugsandi að atvinnugreinin sem heild geti staðið undir þessum miklu skuldum. Eða með öðrum orðum, það mun koma til þess að eitthvað af þessum skuldum muni tapast. Ég held að það sé staðreynd sem menn verða að horfast í augu við að við erum með vanda í okkar undirstöðuatvinnugrein sem er af þvílíkri stærðargráðu að það er ekki á færi greinarinnar sjálfrar að leysa úr honum með eigin aðgerðum.
    Vissulega geta menn gripið til aðgerða sem bæta og auka hæfni greinarinnar og auka getu hennar til að borga sínar skuldir, aðgerðir sem miðast að því að framleiða sömu verðmæti fyrir minni tilkostnað. Það eru auðvitað, eins og bent hefur verið á, möguleikar á að gera betur í þeim efnum. Þó vil ég vara við þeirri ofuráherslu sem fram hefur komið hjá hæstv. ríkisstjórn á það atriði að hagræða. Það er ekki allsherjarlausn, það eru ekki slík færi í hagræðingu að menn geti varpað þessum mikla skuldavanda til baka frá stjórnvöldum yfir til atvinnugreinarinnar og sagt: Hagræðið og þá getið þið bjargað ykkur sjálfir. Vandinn er stærri en svo að menn komist hjá málinu með þessum hætti.
    Í hagræðingu og hagræðingartali gleymist einnig atriði sem verður að taka tillit til þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því hvernig atvinnugreinin á að vera skipuð. Landið er stórt, byggðirnar margar og við hljótum að byggja á þeirri forsendu að allir, í hvaða plássi sem þeir búa, eigi sama rétt til sinnar lífsbjargar án tillits til búsetu.
    Fiskveiðistefna og sjávarútvegsstefna hlýtur að vera byggð á þessari forsendu en ekki hinu að búsetan sé byggð á forsendu hagræðingar enda hygg ég að ef menn skoða málið grannt og reikna út hagræðinguna sé ekki nóg að reikna hana út í því afmarkaða umhverfi sem einhver tvö eða þrjú fyrirtæki í sjávarútvegi eru í. Menn verða að taka inn í það reiknilíkan önnur verðmæti sem liggja utan við þennan ímyndaða veruleika sem eru fasteignir og önnur verðmæti sem menn hafa fjárfest í á þessum stöðum.
    Það kom fram í máli hæstv. sjútvrh. að ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar, meginþátturinn í stefnu hennar, var að draga úr lánsfjárþörf ríkissjóðs og minnka þannig þrýsting á háa vexti eða stuðla með öðrum orðum að lækkun vaxta. Ég er hræddur um að það verði erfitt fyrir menn, sem trúa á markaðskerfið og að menn geti séð fyrir sér innan seilingar það efnahagsumhverfi hér á landi að framboð og eftirspurn á peningum ráði vöxtum, að rökstyðja sína skoðun í ljósi þess sem gerst hefur síðustu daga og vikur eða öllu heldur þess sem ekki hefur gerst síðustu daga og vikur. Það er nefnilega þannig að vextir, afgjaldið fyrir lán á peningum eða verðmætum, eru háðir fleiri þáttum en svokölluðu framboði og eftirspurn. Það eru fleiri atriði sem ráða þar ferð og hafa jafnvel meiri áhrif en það ágæta lögmál.
    Ég hygg að menn geti ekki þrætt fyrir að handafli á vexti, eins og það hefur verið kallað, er verið að beita núna og að efnahagsaðgerðir á komandi mánuðum hljóti að miðast við það og þá staðreynd að menn verða að beita því sem kallað er handaflið á vaxtastigið í landinu. Með öðrum orðum er það kerfi sem hefur byggst upp til að ákvarða afgjaldið fyrir að lána peninga þannig úr garði gert að það þarf opinbera íhlutun til að halda því í skefjum.
    Í máli hæstv. ráðherra kom fram að ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefði verið sú að stöðva inngreiðslu í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Af því að ég er hér með fréttabréf SF, Samtaka fiskvinnslustöðva, þar sem á forsíðu er krafist að fiskvinnslan fái innstæðuna í Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins, vil ég árétta það sjónarmið að þessi sjóður er ekki séreign fiskvinnslunnar. Hann er afrakstur þjóðarsáttarsamninganna og eins og frá þeim samningum var gengið eiga allir hlutdeild í þeim sjóði og rétt á greiðslum úr sjóðnum ef hann verður tekin til skipta. Launþegar í landinu hafa myndað þennan sjóð með samningum þar sem þeir létu af hendi laun en féllust á að í staðinn yrði haft þetta form á að leggja fé í þennan sjóð. Ég mótmæli því að þessi sjóður sé séreignasjóður fiskvinnslunnar og vil að sú afstaða komi skýrt fram að sú ráðstöfun fjár er ekki möguleg nema í samráði og með samþykki launþegasamtakanna.
    Ég hef þegar varpað fram til hæstv. ráðherra þremur fyrirspurnum svo ekki er þörf á að endurtaka þær en ég vil drepa á fáein atriði. Ég vil í fyrsta lagi nefna kvótakerfið, það kerfi sem menn hafa þróað og byggt upp frá árinu 1984. Það hefur ljóslega komið fram að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að þetta kerfi sé það sem best hentar og mestum árangri skilar. Um það er deilt. Ég er t.d. ósammála þeirri skoðun en ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það eru mismunandi kvótakerfi til í landinu. Það er til eitt kvótakerfi fyrir rækjuveiðar og rækjuvinnslu innfjarða, sem kallað er, og svo er til annað kvótakerfi sem er fyrir önnur leyfisbundin leyfi. Þegar um er að ræða veiðar á innfjarðarrækju, og bið ég nú hæstv. ráðherra að leggja við hlustir, er kvótanum ekki eingöngu úthlutað á báta eða skip, eins og í hinu almenna kvótakerfi, heldur er kvótanum einnig úthlutað á verksmiðjur. Í þeirri útgáfu kvótakerfisins er frá því gengið að verksmiðjurnar í landi eigi rétt til kvótans. Hins vegar stangast það á við hinn meginþátt kvótakerfisins eða meginþátt hins kvótakerfisins, ef ég má orða það svo, þar sem fiskvinnslustöðvar í landi eiga engan rétt til þess kvóta sem skip og bátar hafa fengið úthlutað. Þetta þýðir að þeir bátar sem hafa veiðiréttindi eða kvóta á innfjarðarrækju hafa ekki frjálsan ráðstöfunarrétt á sínum afla heldur er þeim gert skylt að landa honum á tilteknum stöðum, jafnvel hjá tilteknum verksmiðjum. Þetta er ekki í hinu kvótakerfinu. Hafi menn kvóta til veiða á þorski er mönnum frjálst að landa þeim afla hvar sem þeim sýnist innan lands jafnt sem erlendis. Hafi menn hins vegar kvóta til veiða á rækju innfjarða ber þeim að landa á tilteknum stöðum. Ef við gefum okkur það að niðurstaða hæstv. ráðherra sé að hafa kvótakerfið áfram er óhugsandi að hafa kvótakerfið með tvennum ólíkum hætti. Það gengur ekki upp. Annaðhvort verður það að gerast að kvótakerfið á innfjarðarrækjunni verði eins og hitt kvótakerfið eða hið almenna botnfiskkvótakerfi verður sambærilegt við kvótakerfið á innfjarðarrækju. Með öðrum orðum að fiskvinnslustöðvar hafi hlutdeild og réttindi í kvótanum. Þetta gengur ekki öðruvísi upp.
    Nú skil ég ákaflega vel þau rök sem liggja að baki því að hafa kvótann og innfjarðarrækju bundin við svæði og jafnvel tilteknar verksmiðjur. Rökin þar að baki voru þau að tryggja hagsmuni þeirra sem starfa við þessa atvinnugrein og lifa af henni. Hæstv. sjútvrh. hefur hingað til tekið þau rök fullgild og því ekki viljað breyta þessu kvótakerfi. Þar sem ráðherra hefur komist að þeirri niðurstöðu að það séu fullgild rök að fólk sem starfar við rækjuvinnslu af innfjarðarrækju eigi rétt á kvóta, hafi íhlutun í þeim réttindum, hvernig kemst ráðherra þá hjá því að komast að sömu niðurstöðu varðandi hitt kvótakerfið, að fólk sem vinnur í frystihúsum um landið allt eigi sambærilegan rétt til botnfiskkvótans? Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra færi yfir sjónarmið sín til þessara tveggja mismunandi útgáfna af kvótakerfinu og upplýsti hvort hann hefði áform um að samræma þau, því að ég hygg og vil ekki öðru trúa en ráðherra sé þeirrar skoðunar að ekki gangi til lengdar að hafa tvö mismunandi kvótakerfi. Sami báturinn getur haft veiðirétt til innfjarðarrækju og rétt til að veiða þorsk. Hann má selja þorskinn og landa honum hvar sem er en rækjuna verður hann að selja í tiltekna verksmiðju. Þetta eru algerlega ósamrýmanleg kerfi og ég vil ítreka þá ósk mína til hæstv. sjútvrh. að hann fari yfir sjónarmið sín varðandi þessi tvö ólíku kvótakerfi og upplýsi hvort hann hafi ekki áform um að breyta þeim og samræma þau.
    Ég vil einnig nefna þann mikla skuldavanda sjávarútvegsins sem ég hóf reyndar mál mitt á. Ég gat um þá skoðun mína að ég teldi óhjákvæmilegt að eitthvað af skuldum sjávarútvegsins mundi tapast, hvort heldur aðferðin til þess væri gjaldþrot eða lánardrottnar afskrifuðu skuldir sínar, færðu þær niður eða með einhverjum öðrum leiðum. En atvinnugreinin sem slík er greinilega skuldsett langt upp fyrir getu til að endurgreiða þær skuldir. Það er staðreynd sem menn verða að horfast í augu við og miða aðgerðir sínar við. Síðan eiga menn einnig að leita leiða til þess að laða fjármagn inn í atvinnugreinina til þess að draga úr því höggi sem mun koma hvort sem það lendir á bankastofnunum, ríkissjóði, einstökum byggðarlögum eða öðrum lánardrottnum. Til þess að draga úr því er nauðsynlegt að huga að leiðum til að laða fjármagn inn í atvinnugreinina sem hún geti nýtt sér til þess að greiða niður skuldir sínar og koma eiginfjárstöðu, ásamt öðrum aðgerðum, í viðunandi horf. Þar vil ég minna á frv. sem ég ásamt þremur öðrum þingmönnum Alþb. hef leyft mér að leggja fram á Alþingi um breytingu á lögum um hlutafélög þar sem lagðar eru til ákveðnar breytingar á hlutafjárlöggjöfinni sem eiga að verða til þess að almenningur í landinu öðlist trú á fyrirtækjum, hlutafélögum og fáist til að leggja fé í fyrirtækin. Þar er ég einkum með í huga að áhrif af frv., ef að lögum verður, leiði til þess að fólk í sjávarplássum um land allt leggi fé í atvinnugreinina og eigi þess kost að taka þátt í viðreisn sjávarútvegsins á Íslandi.
    Ég fer ekki nánar í einstök atriði frv. enda gefst væntanlega kostur á því að mæla fyrir því innan skamms en ég nefni þetta því þetta er einn meginþátturinn sem liggur að baki frv.
    Ég vil svo að endingu fara aðeins yfir fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er að mínu mati einn þátturinn í vanda sjávarútvegsins m.a. vegna þess að menn verða að fjárfesta í réttindum sem þeir höfðu áður án þess að leggja fram fé. Atvinnugreinin þarf að bera kostnað með beinum og óbeinum hætti sem hún gerði ekki áður. Kvótakerfið leiðir líka til þess að menn fara að verja hagsmuni sína, ekki bara hagsmuni fyrirtækis eða eigenda skips heldur hagsmuni byggðarlaga og leitast því til eftir föngum að tryggja hagsmuni sína með því að tryggja sér veiðiheimildir, festa kaup á þeim ef kostur er. Slíkt ástand, þar sem menn eru að verja forsenduna fyrir búsetu sinni, fyrir því að eignir þeirra séu einhvers virði, leiðir til óeðlilegs ástands. Það leiðir til þess að menn verðleggja þennan rétt miklu hærra en ef menn væru ekki í slíkri nauðung.
    Ég er þeirrar skoðunar að einn þátturinn í endurreisn sjávarútvegsins muni verða að breyta fiskveiðistefnunni. Ég vara við þeirri stefnu sem við búum við í dag og tel að við lendum í óbærilegum ógöngum innan tíðar ef ekki verður breytt út af þeirri stefnu sem verið hefur.
    Ég vil nefna og minna á álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands frá árinu 1990. Sú álitsgerð leiðir það fram að ríkið geti ekki verið eigandi fiskimiðanna. Þar með er þeirri stefnu kollvarpað sem Alþfl. hefur verið að boða þ.e. að ríkið geti úthlutað þessum fiskimiðum. Í álitsgerðinni eru leidd að því ítarleg rök að ekki geti verið um séreign á fiskimiðunum að ræða, hvorki ríkisins né annarra. Því er ekki hægt að selja þá eign. Enginn getur helgað sér hafsvæðið og því er ekki um að ræða verðmæti sem eru séreign einhvers eða einhverra.
    Hins vegar eru tvö önnur hugtök sem skipta verulegu máli. Annað hugtakið er fiskveiðiheimild og hitt hugtakið er atvinnuréttindi. Niðurstaða Lagastofnunar Háskóla Íslands er sú að fiskveiðiheimildin sé ekki einstaklingsbundin og stjórnarskrárvarin eign. En það er einmitt fiskveiðiheimildin sem gengur kaupum og sölum og hefur verðmæti. Þar vísa ég til svars hæstv. fjmrh. við fsp. minni fyrr í vetur um skattalega meðferð á keyptum aflakvóta. Hjá fjmrh. kemur skýrt fram að fiskveiðiheimildin sem slík sé eign í skilningi skattalaga og að heimilt sé að eignfæra hana og afskrifa. Lagastofnun Háskóla Íslands og hæstv. fjmrh. eru þannig ekki sammála um þetta atriði.
    Hins vegar kemst Lagastofnun Háskóla Íslands að þeirri niðurstöðu að atvinnuréttindi, réttindi sem menn skapa sér með því að vinna við þessi störf, geti verið og séu einstaklingsbundin og stjórnarskrárvarin eign samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar, þó með ákveðnum takmörkunum sé. Og ef við höfum það að leiðarljósi að fiskurinn sjálfur, hin áþreifanlega vara, sé ekki eign og geti ekki verið séreign eins né neins og að rétturinn til að sækja fiskinn, fiskveiðiheimildin sem úthlutað er á skip og gengur kaupum og sölum, geti heldur ekki verið einstaklingsbundin og stjórnarskrárvarin eign heldur einungis atvinnuréttindin, hljóta þau atvinnuréttindi sem menn ávinna sér að vera persónuleg, bundin þeim persónum sem atvinnuna stunda.
    Það er því ályktun mín að samkvæmt álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands er ekki hægt að úthluta veiðiheimildum og enn síður hægt að úthluta þeim með þeim hætti að frjálst sé að selja þær og kaupa. Atvinnuréttindin álít ég hins vegar, samkvæmt þessari sömu álitsgerð, að hljóti að vera persónuleg. Þau geta ekki verð bundin við skip, hús eða neitt slíkt. Þau eru bundin við persónur þannig að ég dreg mjög í efa að núverandi framkvæmd kvótakerfisins standist ákvæði stjórnarskrárinnar og að menn hafi heimild til að kaupa og selja veiðiheimildir.
    Ég skora á þingmenn að kynna sér þetta mál og láta skoðanir sínar í ljós á þeim sjónarmiðum sem ég hef lagt inn í umræðuna og þær ályktanir sem ég hef dregið af niðurstöðu Lagastofnunar Háskóla Íslans.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð að sinni. Ég hef komið með sjónarmið og tillögur varðandi sjávarútvegsmálin og ég vænti þess að umræðan um stöðu og framtíðarhorfur í þessari atvinnugrein verði málefnaleg eins og hún hefur verið hingað til. Ég þakka þeim ræðumönnum sem hafa talað fyrir mjög málefnalegar og góðar umræður.