Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:14:11 (6362)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir viðleitni hans til að veita svör við nokkrum af spurningum mínum. Hins vegar var það þannig að hann minntist ekki einu orði á það sem ég gerði aðallega að umfjöllun í fyrri hluta ræðu minnar. Það var hver væri afstaða ríkisstjórnarinnar til bráðavanda sjávarútvegsins. Hæstv. forsrh. sagði að ég hefði verið að biðja um afstöðu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistefnunni. Það gerði ég ekki. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að hún liggur ekki fyrir. Hvað það snertir hins vegar var ég að spyrja um það hvort ríkisstjórnin vildi skoða á ný hug sinn um að sitja ekki ein að því umræðuborði, hvort það væri ekki vænlegra að taka fleiri með í þá umræðu. En það getum við rætt nánar á eftir. En ég spurði hins vegar nokkuð ítarlega um það að samkvæmt opinberum upplýsingum er 4 milljarða tap á fiskvinnslunni nú í ár. Og hvað á að gera gagnvart því tapi, á kannski ekkert að gera? Á að skilja þögn hæstv. forsrh. við spurningum mínum um það efni á þann veg að ríkisstjórnin ætli ekkert að gera? Eða með öðrum orðum að afstaða Þrastar Ólafssonar sé í reynd stefna ríkisstjórnarinnar, þ.e. aðgerðaleysið og biðin? Það er hins vegar annað en hæstv. sjútvrh. hefur gefið til kynna, bæði í þessari umræðu og annars staðar. Ég vil þess vegna ítreka ósk mína til hæstv. forsrh. um það að hann svari því hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til lausnar á þessum bráðavanda sem blasir við sjávarútveginum. Við getum rætt það við seinna tækifæri eða seinna í kvöld hverjum það er að kenna, það er í sjálfu sér ekki mjög spennandi umræða fyrir aðra en okkur stjórnmálamennina. En þeir sem horfa framan í þennan vanda hér og nú þurfa að fá að vita: Ætlar ríkisstjórnin að aðhafast eitthvað í þessu máli eða ekki?