Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:17:17 (6364)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Með góðum vilja er hægt að segja að þetta svar hafi verið skýrt. En það er þá skýrt á þann veg að hæstv. forsrh. var að lýsa því yfir að ríkisstjórnin ætlaði ekki að gera neitt nýtt í rekstrarvanda sjávarútvegsins. Það væri búið að stilla kúrsinn með kjarasamningunum, með fjárlögunum og leggja grundvöllinn og nú ætti kúrsinn að fá að ráða siglingunni.
    Þar með er auðvitað alveg ljóst að það munu verða veruleg gjaldþrot í sjávarútvegsfyrirtækjum á næstu mánuðum og á næsta vetri vegna þess einfaldlega að fyrirtækin munu verða uppiskroppa með rekstrarfé. Bankarnir munu ekki vilja taka meiri áhættu og það 4 milljarða kr. tap sem forustumenn í sjávarútvegi hafa lýst yfir að verði á fiskvinnslunni í ár mun lenda á greininni sjálfri og þar með leiða til verulegra gjaldþrota í henni. Þetta var í sjálfu sér skýrt svar. Þá vita það aðilarnir í sjávarútveginum, þá vita aðilarnir í bankakerfinu það að frá ríkisstjórninni er ekki að vænta neinna nýrra ráða.
    Ég tel það miður, ég tel það ekki góða leið. Ég tel það ekki skynsamlega stefnu. En það er þá alveg ljóst að þaðan er ekki meira að hafa þannig að þeir sem horfa framan í 4 milljarða tap á þessu ári í sjávarútveginum verða að taka það tap á sig með þeim afleiðingum í atvinnuleysi, gjaldþrotum og stöðvun fyrirtækja og hjóla atvinnulífsins sem það hefur í för með sér.