Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:19:16 (6365)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. beindi til mín nokkrum spurningum. Hin fyrsta var þessi: Er Þröstur Ólafsson, annar tveggja formanna þeirrar nefndar, sem starfar á vegum stjórnarflokkanna að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, talsmaður Alþfl.? Endurspegla rök hans, sem birst hafa í opinberri umræðu um vanda sjávarútvegsins, stefnu Alþfl.?
    Svarið er þetta: Að svo miklu leyti sem Þröstur Ólafsson hefur fært rök að því að langtímavandi sjávarútvegsins sé, eins og hann hefur kallað það, skipulagsvandi sem ekki verði leystur með almennum efnahagsaðgerðum, þá er það rétt, þá endurspeglar það bæði þá umræðu sem fram hefur farið í Alþfl., þar á meðal á sérstökum ráðstefnum um vanda sjávarútvegsins sem og stefnu hans.
    Í annan stað spurði hv. þm. hvort utanrrh. væri sammála sjútvrh. um að stefna bæri að því að sameina sölusamtök í sjávarútvegi í eitt fyrirtæki. Ég veit nú ekki hvort þetta er rétt túlkun á orðum sjútvrh. en mín afstaða er einfaldlega þessi: Það á að vera verkefni stjórnvalda að stuðla að samkeppnishæfni okkar helsta útflutningsatvinnuvegar og almennt í atvinnulífi okkar. Það er ekki verkefni stjórnvalda að bræða saman fyrirtæki. Ef það er niðurstaða aðila í greininni að það henti þeim betur annaðhvort að stefna að samruna eða hafa með sér öflug sameiginleg sölusamtök þá er það þeirra mál að því er varðar útflutningsstarfsemina. Verkefni stjórnvalda á að mínu mati að vera það að auka samkeppnishæfni greinarinnar, að ryðja burt hindrunum að því er varðar greiðan markaðsaðgang, að tryggja að skilyrði séu sambærileg við keppinauta. Og það hefur þessi ríkisstjórn heldur betur gert, það er eitt af meginmarkmiðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
    Þriðja spurning var hvort við eftir á að hyggja teldum það hyggilegt að fela nefnd á vegum stjórnarflokkanna einna að marka stefnu, setja leikreglur til lengri tíma að því er varðar sjávarútveginn sérstaklega. Mitt svar er einfaldlega það að það er sjálfsagður hlutur fyrir stjórnarflokkana, sem ljóst var frá upphafi að höfðu ekki sameiginlega stefnu í þessum málum, að fela slíkri nefnd að leita lausna, sameiginlegra lausna á vanda sjávarútvegsins. En því fer fjarri að það geti orðið verkefni stjórnarflokkanna einna. Það er jafnframt starfandi fjölmennari nefnd hagsmunaaðila í greininni og með slíkt mál verður að sjálfsögðu ekki farið fram hjá Alþingi enda væri það brot á lögum og það er hvorki í okkar huga né okkar vilji. Þannig að þetta tvennt rekst ekkert á og er engin vanvirða við Alþingi og þýðir ekki að stjórnarflokkarnir séu ekki reiðubúnir, þegar nefndarstarfið er þannig á vegi statt, að hefja um það umræðu og þar með talið umræðu við fulltrúa allra þingflokkanna.
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til að bæta örfáum orðum við í sambandi við fyrsta svarið, um vanda sjávarútvegsins til lengri tíma. Hvað eigum við við þegar við segjum að þetta sé skipulagsvandi? Ég tók að vísu eftir því að á ráðstefnu á vegum þeirra alþýðubandalagsmanna hafa ýmsir menn komið fram á sjónarsviðið sem eru svipaðrar skoðunar. Ég leyfi mér að nefna nokkur dæmi.
    Hv. þm. segir: Rekstrarvandi sjávarútvegsins núna samkvæmt opinberum tölum er um 4 milljarðar kr. Menn leita skýringa á því. Ég nefndi það í ræðu minni í gær að ef þorskaflinn væri nú 350 þús. tonn þá þýddi það að tekjur í greininni væru 6 milljörðum meiri en þær eru núna. Með öðrum orðum ef aflinn væri sá sem arðsemi Íslandsmiða hefur gefið af sér þar til fyrir nokkrum árum þá væri miðað við það enginn hallarekstur í sjávarútveginum.
    Annað dæmi sem hefur snúið þessu tafli við til skamms tíma er að sjálfsögðu mjög ör hækkun hráefnisverðs. Þetta eru tveir meginþættir í að skýra þessa afkomu því að ekki getum við skýrt hana með óðaverðbólgu eða því að sjávarútvegurinn hafi ekki, eins og aðrar atvinnugreinar, búið við óvenjulegan stöðugleika á undanförnum árum, því það hefur hann gert.
    Það er augljóst mál að atvinnugrein, sem hefur byggt sig upp á löngum tíma, þ.e. framleiðslugetu sína til að vinna úr afla upp á 350 þúsund tonn, er í vanda stödd þegar aflinn minnkar jafnmikið og raun ber vitni á skömmum tíma og þegar hráefnisverð fer jafnört hækkandi eins og staðreyndir liggja fyrir um. En þetta er ekki meginvandinn. Sveiflur af þessu tagi eru mjög algengar í rekstrarvanda sjávarútvegsins, það er ekkert nýtt við þetta og slíkum vanda hafa menn reynt að mæta með ýmsum leiðum á undanförnum árum. Grundvallarvandi sjávarútvegsins sem höfuðatvinnuvegar Íslendinga er hin hrikalega skuldasöfnun frá fyrri tíð. Við getum kallað það skipulagsvanda en við getum líka kallað það fortíðarvanda. Menn geta hugleitt það og brotið það niður í huganum hvað það þýðir fyrir þessa atvinnugrein að sitja uppi með 100 milljarða skuldir. Það er allur ríkisbúskapurinn á einu ári. Og þegar það er metið í ljósi tekna og tekjumöguleika þá er það fyrst og fremst vandi sjávarútvegsins. Síðan geta menn greint hann í allar einingar þessarar greinar. Það er mjög athyglisverð staðreynd að ein grein í sjávarútveginum, þ.e. útgerð frystitogara skilar blómberanlegum arði og hefur gert undanfarin þrjú ár. Um borð í frystitogara fara fram veiðar og vinnsla. Og miðað við aflamagn, miðað við fjárfestingu, miðað við vinnsluvirðið þá skilar þessi grein í sjávarútveginum góðum arði.
    Hvernig stendur þá á því að sambærileg vinnsla í landi getur ekki skilað svipaðri afkomu? Á því eru auðvitað einfaldar skýringar. Það er búið að fjárfesta mjög mikið í greininni. Sú fjárfesting er illa nýtt. Sú fjárfesting er að sumu leyti af óviðráðanlegum ástæðum illa nýtt vegna þess að það er miklu minni afli sem á land berst og t.d. um vélasali frystiiðnaðarins fer.
    Hvernig leysum við það? Það hefur enginn í þessum umræðum nema einn, þ.e. hv. 1. þm. Austurl., svo ég hafi tekið eftir, ýjað að því að það eigi að leysa það með gömlu skottulækningunum, þ.e. með gengisfellingu. Hann þorði jafnvel ekki að segja það fullum fetum en lét að því liggja. Hver maður á fætur öðrum hefur sagt: Gengið er allt of hátt, --- og jafnvel tekið sér í munn samanburðinn við 1988. Það er fjarstæða. Raungengið er ekkert í viðlíka mæli jafnhátt og það var 1988, fjarri því.
    Hitt er jafnrétt að gengislækkun til að leysa þennan vanda er óðs manns æði og mun sýnilega aðeins gera illt verra. Og ég leyfi mér að lýsa furðu minni á því að helsti talsmaður Framsfl. í sjávarútvegsmálum, maður sem sjálfur hefur borið ábyrgð á stjórnun sjávarútvegsins í meira en áratug, skuli ýja að slíkum hlutum. Ég tala nú ekki um í ljósi þess sem menn vita hvað það mundi þýða fyrir almenna efnahagsstjórn og afkomu atvinnulífs á Íslandi í kjölfar kjarasamninga.
    Það mundi þýða það að rifta kjarasamningum. Það mundi þýða það að slíta öllum friði í íslensku þjóðfélagi og á vinnumarkaði. Það mundi þýða víxlhækkanaverðbólgu í hinum gamalkunna stíl. Það mundi að sjálfsögðu ekki bjarga neinu fyrir hin skuldsettu fyrirtæki. Það mundi að sjálfsögðu þýða það fyrir fyrirtæki sem fyrst og fremst eiga skuldir sínar í erlendri mynt, sem eru gengistryggðar, að vandinn yrði jafnslæmur og verri innan mjög skamms tíma. Það mundi draga á eftir sér langan slóða af óviðráðanlegum vandamálum og ekki leysa nokkurn vanda. Með öðrum orðum, þetta er skipulagsvandi sem hefur hlaðist upp á löngum tíma vegna rangrar stjórnunaraðferðar í sjávarútvegi á löngum tíma. Og honum verður ekki kippt í liðinn með neinum skammtímaaðgerðum.
    Hvað er á valdi stjórnvalda að gera? Hæstv. sjútvrh. rakti í stórum dráttum hvað það er sem núv. ríkisstjórn hefur gert. Það skal viðurkennt að það er hvorki frumlegt né nýstárlegt en það hefur verið farið út í skuldbreytingar og lengingar á lánum. Reynslan í fyrri ríkisstjórn sýndi að við reyndum þær aðgerðir að því er varðaði ekki hvað síst þau fyrirtæki sem verst voru sett. Því miður fór það svo, vegna þess að ytri skilyrði héldu áfram að vera óhagstæð, að það bar ekki árangur. Að öðru leyti eru aðgerðir stjórnvalda þær sem stjórnvöld eiga að grípa til og eiga við heilbrigt atvinnulíf. Það er grundvöllur allrar atvinnustefnu. Það er að sjá til þess að verðbólga sé lág. Það er að sjá til þess að stöðugleiki ríki. Það er að sjá til þess að þannig sé haldið á málum í efnahagsmálum að unnt sé að stuðla að lækkun vaxta. Sértækar aðgerðir geta komið inn líka. T.d. hefur inngreiðsla inn í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins verið stöðvuð. Og þetta eru almennar aðgerðir í bland með sértækum aðgerðum. Þetta dugar undir venjulegum kringumstæðum til þess að leysa rekstrarvanda til skamms tíma. Þetta leysir ekki skipulagsvanda í höfuðútflutningsgrein Íslendinga sem lýsir sér í fortíðarvanda í skuldasöfnun upp á hundrað milljarða. Það er ekki unnt að leysa með almennum aðgerðum og það er ekki unnt að leysa með sértækum aðgerðum af því tagi sem við höfum verið að beita, það segir sig sjálft. Það hljóta allir að viðurkenna.
    Þetta er ekki hægt að leysa nema með kerfisbreytingu í greininni sjálfri sem tekur til mjög margra þátta. Og dæmið af frystitogurunum er lýsandi dæmi um það vegna þess að það er dæmi um að til eru rekstrareiningar í sjávarútveginum sem geta skilað afbragðsgóðri arðsemi þegar þessi fortíðarvandamál eru ekki fyrir hendi.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Ég held að ég hafi svarað fyrirspurnum hv. þm. Það er hverju orði sannara að skiptar skoðanir eru í mörgum stjórnmálaflokkum um veigamikla þætti í sjávarútvegsstefnu, um fiskveiðistjórnunina, um skipulagsvandann, en ég hygg að það sé ekki í raun og veru, hvernig sem menn láta, ágreiningur um hvað séu frumskilyrði sem ber að gera í stefnu stjórnvalda. Þau eru að tryggja atvinnulífinu í landinu samkeppnisskilyrði við aðra atvinnuvegi. Þau eiga að tryggja stöðugleika, lága verðbólgu. Þau eiga að tryggja aðgang að fjármagni svona u.þ.b. á heimsmarkaðskjörum. Þau eru að tryggja það með alþjóðlegum samningum að markaðsaðgangur sé greiður,

ryðja burt hindrunum að því er það varðar, sérstaklega að því er varðar tollmúra annarra þjóða.
    Þessum almennu skilyrðum hefur núv. ríkisstjórn vissulega fullnægt. Skipulagsvandinn er hins vegar til ítarlegrar skoðunar. Hann er flókið vandamál og við bætum okkur ekki mikið að ræða þau mál út frá slagorðaorðabókum stjórnmálaflokkanna. Þau eru miklu alvarlegri og mikilvægari en svo að slík umræða hæfi.