Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:37:54 (6369)


     Jón Helgason (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. endurtók hvað eftir annað að hér hefði ríkt stöðugleiki í efnahagsmálum eða fyrir sjávarútveginn. Mér virðist hann ekki gera sér grein fyrir því hvernig ástandið hefur verið. Að sjálfsögðu mun þar átt við stöðugleika í útgjaldahliðum rekstrarins en þar hefur því miður ekki ríkt stöðugleiki á sl. ári. Það er rétt að stöðugleiki hefur verið í launum en sums staðar í fyrirtækjum er það svo að fjármagnskostnaður er eins hár og launakostnaðurinn og þar hefur ekki ríkt stöðugleiki. Ríkisstjórnin hækkaði vextina í fyrra og lagði þar með a.m.k. einn milljarð á sjávarútveginn. Er það stöðugleiki að leggja slíkar drápsklyfjar á sjávarútveginn?
    Síðan komu álögurnar við fjárlagagerð fyrir áramótin og annað slíkt sem var a.m.k. milli hálfur og einn miljarður. Er það stöðugleiki? Og það voru þessar drápsklyfjar ríkisstjórnarinnar sem hv. 1. þm. Austurl. sagði að hefðu valdið því að gengi íslensku krónunnar hefði hækkað, til óhagræðis fyrir sjávarútveginn. Og ef ríkisstjórnin tæki ekki til baka þessa hækkun gengisins með ráðstöfunum sínum yrði að grípa til einhverra annarra ráða. Það væri á valdi ríkisstjórnarinnar að gera það og úr því að hún hefði gert þetta á þennan veg þá yrði hún að grípa til ráða til þess að leiðrétta það.
    Í sambandi við skuldbreytinguna má benda á að afkoma sjávarútvegsins á árinu 1990 og fyrst á árinu 1991 var þannig að sjávarútvegurinn gat undantekningarlítið borgað til baka þau lán sem hann hafði tekið og þannig ætlaði fyrrv. ríkisstjórn að halda á málum, að atvinnuvegurinn gæti staðið við þær skuldbindingar sem hann hafði tekið að sér.