Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Þriðjudaginn 12. maí 1992, kl. 23:44:10 (6372)



     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegur forseti. Við erum að tala um mikið mál sem er afkoma sjávarútvegsins. Í framhaldi af því sem sagt var nú síðast í sambandi við rekstrarafkomuna vildi ég segja það að auðvitað er öllum ljóst og þarf ekki að hafa um það mörg orð að aðgerðir núv. ríkisstjórnar eru því miður á þann veg að sú hagnaðarvon sem menn voru farnir að sjá í rekstri sjávarútvegsins var að engu gerð á fyrstu starfsdögum hennar. Það var ógæfa núv. ríkisstjórnar að hækka vexti eins og hún gerði og því fylgdu síðan margvíslegar íþyngjandi aðgerðir fyrir sjávarútveginn, sem örugglega hafa numið meira en milljarði króna.
    Hins vegar er hryggilegt að þeir ráðherrar sem tekið hafa til máls skyldu ekki hafa gert minnstu tilraun til þess að svara því sem nú brennur heitast á útgerðaraðilum og þeim sem í sjávarútvegi starfa, en það er hvaða tilraunir og aðgerðir nú eru uppi um að þessi atvinnugrein geti fengið að búa við eðlileg starfsskilyrði. Ég átti satt að segja von á því að í umræðunum fengjust svör við því. Hvað er ríkisstjórnin að aðhafast til þess að sjávarútvegurinn geti fengið eðlilegan starfsgrundvöll?
    Ríkisstjórnin hefur fengið starfsfrið í rúmlega eitt ár þannig að hún getur ekki kennt því um að hafa ekki haft frið. Ekki voru aðilar vinnumarkaðarins að ónáða ríkisstjórnina. Ég hef líka velt því fyrir mér undir umræðunum og reyndar síðustu daga, hvar hagsmunaaðilar í sjávarútveginum væru staddir. Mér finnst merkilegt hvað við heyrum lítið frá þeim þessa dagana. Mér finnst vopn þeirra vera orðin einkennilega bitlaus og umhugsunarefni fyrir þá sem starfa í sjávarútveginum hvort þurfi að gera breytingar á því kerfi sem þeir hafa byggt upp, ef það er orðið svo bitlaust að menn ætli að gera sér það að góðu að sjávarútvegurinn þurfi að búa við 8--19% tap í fiskvinnslu. Það er óviðunandi.
    Af hverju er þetta tap? Fortíðarvandi, staglast þeir félagarnir á, hæstv. forsrh. og fóstbróðir hans, hæstv. utanrrh. En eigum við ekki að láta Morgunblaðið frá 8. maí tala í þessum efnum og vita hvað það segir? Ég held að það geti liðkað aðeins umræðurnar. En hér stendur, með leyfi forseta, vegna þess að ég er alveg viss um að virðulegur forseti hefur ekkert á móti því að ég lesi upp úr Morgunblaðinu. ( Utanrrh: Forseti er hlutlaus.) Já, en ég veit að hann hefur ekkert á móti því, hann hefur skoðanir. Það er meira en má segja um hæstv. utanrrh. ( Utanrrh: Hann er ekki hlutlaus, nei.) Hann er svo sannarlega skoðanalaus í þessu máli eins og komið hefur fram í kvöld. En hér stendur:
    ,,Stóru sjávarútvegsfyrirtækin rekin með tapi.``
    Þetta er frá 8. maí, hæstv. utanrrh. Og það stendur: ,,Mikil breyting til hins verra er nú orðin á afkomu fyrirtækja í sjávarútvegi frá því sem var í upphafi síðasta árs``, hæstv. utanrrh. ,,Afkoman þá var talin viðunandi og voru t.d. bæði Grandi hf. og Útgerðarfélag Akureyrar rekin með hagnaði, að vísu minnkaði hagnaðurinn eftir því sem leið á árið.``
    Það skipast fljótt veður í lofti eftir að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við. Og síðar segir:
    ,,Árið 1991 var Grandi rekinn með hagnaði upp á 81 milljón fyrstu sex mánuði ársins. Seinni hluta sama árs fór að halla undan fæti og hagnaðurinn varð aðeins 16 milljónir kr.``
    Segir þetta okkur ekki það sem segja þarf? Hér segir einnig aðeins neðar í greininni:
    ,,Það er staðreynd að á seinni hluta síðasta árs og fyrstu tvo til þrjá mánuði á þessu ári hefur verulega skipt um í sjávarútvegi.``
    Þetta er staðreyndin í málinu. Að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, hvað sem menn staglast á fortíðarvanda, var búin að búa þannig að þessari atvinnugrein að menn sáu þó fram á hagnað. Það þýðir ekkert fyrir menn að berja höfðinu við stein. Ársreikningar fyrirtækjanna eru ólygnastir í þessu. Þeir sýna niðurstöðurnar betur en einhver orðaleikur á Alþingi.
    Menn hafa verið að velta vöngum yfir því hvað skuli gera. Í Morgunblaðinu frá því í febrúar sl. er viðtal við hæstv. sjútvrh. þar sem hann segir að meiri hluti sjávarútvegsfyrirtækja eða 59% þeirra eigi ekki fyrir afborgunum og vöxtum við núverandi aðstæður og séu á beinni gjaldþrotabraut samkvæmt mati nefndar, skipaðri af sjútvrh. Þetta eru ekki geðslegar fréttir fyrir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar.
    Hæstv. forsrh. vék að því í umræðunni í gær að stofnaðir hefðu verið sjóðir sem þið, áheyrendur góðir, eigið að borga fyrir en ekki þeir sem hafa tekið lánin og fengið styrkina úr þessum sjóðum. Það er þessi eilífi söngur hæstv. forsrh. um sjóðina sem hafa verið stofnaðir, aumingjasjóðir voru þeir kallaðir, og þeir hefðu litlum eða engum árangri skilað. Mér varð hugsað til þess að formaður stjórnar Seðlabankans, Ágúst Einarsson prófessor að auki, flutti merkilega ræðu á ársfundi bankans. ( Gripið fram í: Alþýðuflokksmaður.) Alþýðuflokksmaður, rétt er það, hv. formaður Alþfl. Hann sagði m.a. í ræðu sinni nokkuð sem mig langar til að lesa í framhaldi af þessu, virðulegi forseti:
    ,,Ljóst er að þau mál verða að koma til endurmats á næstu árum. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á þeirri leið sem farin var á norðanverðum Vestfjörðum þegar öflug sjávarútvegsfyrirtæki á Ísafirði og Súðavík keyptu helstu fyrirtækin á Suðureyri og hafa tryggt þeim stað allt önnur og betri skilyrði en áður með samnýtingu skipa og afla. Þetta gerðist fyrir forgöngu fyrirtækjanna sjálfra en dauð hönd endalausra lánveitinga af hálfu opinberra sjóða kom þar lítt nærri, eins og oft áður. Þessa leið Vestfirðinga væri örugglega hægt að fara á fleiri stöðum og sameiningu sveitarfélaga verður að hraða sem kostur er til að veita þessum stöðum nauðsynlega umgjörð í nútíma mannlífi.``
    Þetta sagði formaður bankaráðs Seðlabankans þegar hann var að greina frá því að aðskilja bæri starfsemi sem lýtur að byggðamálum frá almennum rekstri bankastofnana. Hér er um mjög brýnt mál að ræða, sagði formaðurinn. Því geta ekki fjármálastofnanir, sem gerðar eru strangar arðsemiskröfur til, varið hluta orku sinnar og miklum fjármunum til að fást við vandamál sem eru í reynd viðfangsefni ríkisstjórnar og tengjast byggðamálum og landsbyggðarstefnu?
    Nú er það merkilegt, úr því að Ágúst Einarsson fór að setja þetta niður á blað og velta þessum málum fyrir sér, að hann skyldi ekki hafa gert sér grein fyrir því að sú sameining sem þarna er talað um varð einmitt til vegna afskipta þessara sjóða sem hann hefur verið manna þekktastur fyrir að gagnrýna hvað mest. Sameiningin varð einmitt til vegna aðgerða þessara sjóða en Ágúst Einarsson, formaður bankaráðs Seðlabankans, veit kannski ekki að þetta hefur orðið á miklu fleiri stöðum. Hann mætti líta austur á firði og gá að því þar hvort þessir sjóðir hefðu ekki líka komið þar til til að liðka fyrir að slík sameining gæti orðið. Nei, menn þurfa að átta sig á því að það sem þarna var gert með tilkomu sjóðanna var ekki allt af því slæma. Vissulega skal ég viðurkenna að þar hefur sumt farið úrskeiðis en margt hefur líka vel tekist í þeim efnum.
    Hvað ætla menn þá að gera? Menn tala um það hér, og Alþfl. einna mest, að beita þurfi gjaldþrotunum miskunnarlaust. Hagræðingin eigi að ná þannig fram í gegnum gjaldþrotin. Ég er andvígur þeirri stefnu og ef ég hef hlustað rétt hefur mér fundist að hæstv. sjútvrh. væri það einnig. Ég hef brotið heilann um það hvernig menn vildu vinna sig út úr þeim vanda sem sjávarútvegurinn er í. Það er umhugsunarefni hvernig við ætlum að umbreyta í sjávarútveginum. Í umræðunum kom fram í gær að hugmyndir væru uppi um að búta fyrirtækin hæfilega smátt eða hæfilega stórt svo að kolkrabbinn gæti gleypt þau, það er hugmynd út af fyrir sig. Ég held að það sé ekki góður kostur. En ég held að menn þurfi að gæta þess, þegar sú umsköpun fer fram sem ég viðurkenni að þarf að fara fram í mörgum fyrirtækjum, að hún kollvarpi ekki um leið rekstrargrundvelli annarra fyrirtækja í sjávarútvegi sem fram að þessu hafa alla tíð staðið sig, greitt sína skatta og skyldur. Að þau fyrirtæki sem menn ætla þá að fara höndum um, verði ekki þannig í stakk búin að þau hafi yfirburðastöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum. Mér er þá líka spurn: Við hvorn hópinn mun rekstrargrundvöllurinn í greinnni verða miðaður? Það er umhugsunarefni og sú umræða hlýtur að þurfa að fara fram og hún fer kannski fram í þeirri nefnd sem á ekki aðeins að fást við mótun fiskveiðistefnu heldur einnig að finna lausn á rekstrarvanda sjávarútvegsins. Gaman væri að heyra í hæstv. sjútvrh. um það.
    Það er auðvitað alvarlegt mál þegar við heyrum slíkar tölur sem hér voru lesnar upp í gær um tapið í greininni, að botnfiskvinnslan skuli vera rekin með a.m.k. 8% tapi sem þýðir sjálfsagt um 3--4 milljarðar, eins og hér hefur komið fram. Það er áhyggjuefni og ég trúi því reyndar ekki að ríkisstjórninni detti

í hug að svo geti haldið fram. Ég ber ekki mikið traust til Alþfl. í þessum efnum og hef litla trú á því að hann hafi uppi einhverja tilburði til þess að rétta hag sjávarútvegsins. En satt að segja hélt ég að einhverjir menn væru til í Sjálfstfl. enn þá sem hugsuðu um sjávarútveginn. Þeir eru kannski ekki margir á Alþingi en utan veggja þingsins eru þó nokkrir örugglega til og æði margir og ég trúi því ekki að þeir láti þetta ganga öllu lengur svo að flokkur þeirra ætli nánast ekki að skipta sér af afkomunni. Hann ætli sér ekki að búa þessari atvinnugrein sæmileg og viðunandi rekstrarskilyrði, ég trúi því ekki. En flokkurinn hefur fengið heilt ár til að koma þessu í lag en því miður, eftir því sem tíminn líður versnar afkoman í greininni.
    Menn hafa minnst á ráðgjafarnefndina og sjávarútvegsstefnuna. Ég ætla ekki að ræða um sjávarútvegsstefnuna nú en menn hafa minnst á það að ráðgjafarnefndin hefði átt að hafa samráð við hagsmunaaðila og að sjálfsögðu, var hér sagt af ráðherrum áðan, myndi hún hafa samráð við þingið. Við nefndarmenn sjútvn. álítum að þessi nefnd ætti að hafa samráð við sjútvn. þingsins. Ég held ég muni það rétt að þeir hafi tvisvar sinnum komið á fund sjútvn. og í bæði skiptin var það að beiðni sjútvn. sjálfrar. Það var ekki að frumkvæði nefndarinnar sem þeir komu til þess að skýra frá því hvernig störfum nefndarinnar miðaði. Það er kannski enn alvarlegra vegna þess að nefndin er ekki bara að fjalla um þáttinn ,,stjórnun fiskveiða`` heldur hefur henni verið falið það vandasama verk að fjalla einnig um rekstrarvanda greinarinnar. Ég bað um það á síðasta fundi sjútvn. að formenn nefndarinnar yrðu enn og aftur kallaðir fyrir þingnefndina áður en þinginu lyki og gerðu okkur grein fyrir hvernig þeim miðaði. En þeir hafa ekki enn komið á fund okkar sjávarútvegsnefndarmanna til þess að skýra okkur frá störfum sínum. Mikið ósköp hljóta þeir að vera uppteknir. Ég veit að hæstv. sjútvrh. heyrir mál mitt og mér þætti fróðlegt að heyra í honum, vegna þess að hann á eftir að tala hér á eftir, hvort honum finnst að þetta sé það samráð sem hann ætlaðist til að yrði haft við Alþingi um mótun fiskveiðistefnu og um rekstrarvanda sjávarútvegsins.
    Það væri fróðlegt að staldra hér eilítið við og ræða um uppbyggingu flotans. Það er nú svo, þó að menn býsnist yfir því að greinin skuldi mikið, þá eru menn þar enn að störfum. Menn hafa trú á sjávarútvegi sem betur fer og nokkur skip eru nú í smíðum. Það er hins vegar umhugsunarefni að þau eru nánast öll skip sem reiknað er með að stundi sjófrystingu, frystitogarar eins og við köllum þá. Það væri gaman að fá upplýsingar um það hér hvort einhvers staðar í kerfinu fer fram umræða um það hvernig endurnýjun togaraflotans á að verða. Nú er togaraflotinn orðinn gamall eins og við vitum og augljóst að endurnýjun þarf að fara fram. Á það að vera tilviljunin ein sem ræður því hvernig skipastóll okkar, fiskiskipastóllinn, lítur út? Er það víst að það sé rétt stefna, sem við fylgjum í dag, að byggja eingöngu frystitogara? Var það tilviljun að allir þeir samningar sem gerðir voru um byggingu þessara skipa voru undirritaðir af Fiskveiðasjóði og lánsheimildir veittar eftir síðustu alþingiskosningar? Var það tilviljun? Ég leyfi mér að draga það mjög í efa.
    Menn segja að þessir togarar muni henta og það sé meiningin að beita þeim á þær fisktegundir sem við köllum vannýttar í dag og að sumu leyti falli utan kvótans. Hafa menn skoðað það í fullri alvöru hvort þessi skip, sem er verið að byggja, séu einmitt af þeirri réttu stærð sem muni henta okkur best til að vera á þeim miðum sem við munum hugsanlega þurfa að beita þeim á? Ég dreg líka í efa að það hafi verið gert.
    Auk þess dreg ég líka í efa að hagkvæmni þess að vinna afurðirnar í landi sé ekki meiri en menn vilja vera láta. Það segir hér í blaði, sem ég er með og les ekki oft en stundum glugga ég nú í það. Þetta er Alþýðublaðið. Það eru ekki margir dagar síðan það kom út. Þar er einmitt verið að fjalla um þessi mál. Þar segir með leyfi, virðulegi forseti:
    ,,Ýmislegt bendir til þess að vinsældir ferskra fiskafurða muni fara dvínandi í náinni framtíð og jafnframt að enn frekari kröfur verði gerðar til ferskleika, gæða og geymslu en áður, sem aftur muni auka á möguleika frystingarinnar.`` Þetta er haft eftir Jóni Ingvarssyni, stjórnarformanni Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna.
    Það er nefnilega málið að við þurfum og verðum að vera menn til þess að taka á þessu vandamáli og finna rekstrargrundvöll og koma rekstrargrundvelli undir vinnsluna í landi þannig að við Íslendingar sjálfir getum fengið að njóta margfeldisáhrifa vinnslunnar, þurfum ekki að láta útlendingunum það eftir. Það er augljóst líka að margvísleg vinnsla, fullvinnsla afurðanna, eins og við erum að tala um og okkar draumur er sjálfsagt flestra að við sjáum þessa vinnslu, sú vinnsla mun aldrei fara fram um borð í þessum skipum sem við eigum í dag og erum að láta byggja. Sú vinnsla mun fyrst og fremst fara fram í landi og þannig munum við líka geta nýtt betur þann úrgang sem fellur til hjá flotanum.
    Það hefur einnig komið fram og liggur fyrir að útflutningur á óunnum fiski hefur dregist saman hvorki meira né minna en um 40% og enn er dvínandi útflutningur á ferskum fiski. Þetta hefur okkur tekist, ekki bara með því að beita stjórnun í sambandi við lögin um stjórnun fiskveiða heldur hefur þetta tekist líka vegna þess að menn hafa fengið hærra verð fyrir afurðirnar hér heima.
    Við þurfum einnig að gera okkur grein fyrir því, ef við ætlum að fara með vinnsluna í svo stórum stíl út á sjó, eins og mér sýnist að hér sé að stefnt, hvað verður um þær vinnslustöðvar sem við eigum í landi. Hvernig ætlum við að standa undir þeirri fjárfestingu? Mér er líka spurn: Hefur enginn áhyggjur af því fólki sem byggir þessa staði og hefur gert þetta mögulegt fram að þessu? Hefur enginn áhyggjur af því? Það þykir mér merkilegt.
    Ég vil gjarnan spyrja hæstv. sjútvrh. einnar spurningar í viðbót í sambandi við Verðjöfnunarsjóðinn --- sem nokkrir milljarðar eru í --- hvort ekki sé ástæða til þess að hans mati að menn geti farið að ná saman um að það sé bæði skynsamlegt og nauðsynlegt að útgreiðslur úr sjóðnum komi til. Ég trúi því ekki að menn geti ekki náð saman um slíkt. Miðað við ríkjandi aðstæður þá hljóta menn að sjá að greinin þarf nauðsynlega á því að halda sem hún hefur þarna greitt inn og ég held að það væri betur komið heldur en á bók uppi í Seðlabanka.
    Virðulegi forseti, ég skal nú stytta mál mitt en vissulega er af mörgu að taka. En það er eitt sem sækir á huga minn þessa dagana. Mér finnst margt um líkt með því sem nú er að gerast hjá okkur og var þegar þessir flokkar, Alþfl. og Sjálfstfl., störfuðu hér fyrr á árum í hinni svokölluðu viðreisnarstjórn og sem betur fór misstu völdin árið 1971. Þá þekktu menn atvinnuleysi. Nú eru menn að kynnast því að nýju. Þá var togaraflotinn okkar nánast allur í niðurníðslu. Hann var byggður upp nánast allur eftir 1971. Frystiiðnaðurinn var í rúst þegar þessir flokkar skildu við. Ég þarf ekki að nefna fiskveiðilögsöguna, við vitum að þeir hreyfðu ekki fingur til að auka rétt okkar til hafsins. Við höfðum þá rétt um 5.000 ferkílómetra þegar þeir hrökkluðust frá völdum en núna, þegar þeir taka við að nýju, fá þessir flokkar 758.000 ferkílómetra. Þá var náttúrlega grunnurinn lagður að þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt með því að færa út fiskveiðilögsögu okkar. En ég hef satt að segja áhyggjur af því að sama sagan sé að endurtaka sig nú með því að þessir flokkar nái saman og viðskilnaður þeirra muni verða sá sami og fyrri viðreisnarstjórnar.