Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:31:23 (6374)



     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. um verðfall afurða vil ég aðeins segja frá því sem kom fram í því blaði, sem ég var að lesa úr áðan, Alþýðublaðinu, (Gripið fram í.) já, það er illt að þurfa að gera það en svona er það nú. En ég veit að sjútvrh. veit það og ég held að það sé rétt sem hér stendur: ,,Magn útflutnings SH, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, hefur minnkað milli ára um 9,4% en aukning í verðmætum um 4% á sama tíma.`` Það er nefnilega staðreyndin í málinu að þrátt fyrir minni útflutning hefur verðmætið aukist.
    Ég er ekki að segja að ég vilji gera lítið úr vandanum, hæstv. sjútvrh., en ég held að menn þurfi að greina hann rétt. Þá fyrst er einhver von til þess að við komumst sæmilega út úr þessu kerfi.
    Ég spurði einnig um það hvernig sjútvrh. sæi það fyrir sér að ráðherrar og ríkisstjórn mundu smíða þann rekstrargrundvöll sem greinin þarf að búa við eftir að endurskipulagningin á sér stað eftir að búið verður að skuldbreytina í fyrirtækjunum og ,,konvertera``. Á að miða rekstrargrundvöllinn við þau fyrirtæki eða hin sem alla tíð hafa staðið sig og borgað sína skatta og skyldur? Eða ætla menn að búa til aðra hringferð?
    Og að lokum, virðulegi forseti, þá segir hér í lögunum um stjórnun fiskveiða: ,,Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.`` Tvisvar sinnum hafa formenn nefndarinnar komið á fund sjútvn. og í bæði skiptin að beiðni nefndarinnar sjálfrar og enn stendur upp á þá að koma og gera sjútvn. grein fyrir störfum sínum áður en þinginu lýkur.