Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 00:36:09 (6376)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom ekki fram í ræðu hæstv. ráðherra áðan að hann svaraði einstökum spurningum heldur fór almennt yfir efni sem fram kom í ræðum manna. Ég vil ítreka tvær eða þrjár af þeim spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra:
    Í fyrsta lagi. Eftir minni er staðan í sjávarútvegi þannig að tekjur eru um 75 milljarðar kr., skuldir um 100 milljarðar. Tap á vinnslu eru 4 milljarðar kr. í dag. Telur ráðherrann að atvinnugreinin geti, að teknu tilliti til aðgerða ríkisstjórnarinnar, staðið undir þessum skuldum og greitt þær til baka eða er hæstv. sjútvrh. sammála hæstv. utanrrh. um að sum fyrirtæki munu ekki geta það og þær skuldir séu tapaðar?
    Í öðru lagi spurði ég hæstv. ráðherra um afstöðu hans til mismunandi kvótakerfis sem er í gangi. Annars vegar kvótakerfis á innfjarðarækju þar sem vinnslan hefur kvóta á móti bátum og hins vegar hins almenna kvótakerfis. Ég spurði hvort hann hygðist samræma þessi tvenns konar kvótakerfi. Þau geta augljóslega ekki gengið samhliða. Svo ólík eru þau.
    Í þriðja lagi spurði ég hæstv. ráðherra varðandi þær hugmyndir sem fram hafa komið um úreldingu fiskvinnslustöðva. Hvaðan er hugmyndin? Hvernig hugsa menn með þeim hugmyndum að fá fé til þeirrar úreldingar? Hver á að leggja fram féð?