Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:22:00 (6386)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv 1. þm. Austurl. byrjaði ræðu sína áðan með því að væna aðra um það að hafa ekki áhyggjur af afkomu sjávarútvegsins. Það virðist nú vera svo að hann hafi haft meiri áhyggjur af einhverju öðru vegna þess að af einhverjum ástæðum hélt hann sig fjarri þessari merkilegu umræðu í kvöld. Ber það merki um að hv. þm. hafi ekki nægilegar áhyggjur til að bera á torg um afkomu sjávarútvegsins eftir að hafa borið höfuðábyrgð á stjórn hans í tæpan áratug? Auðvitað ekki. Auðvitað dettur engum í hug að væna hv. þm. um að hann hafi ekki áhyggjur af ástandinu eins og það blasir við og er nú ekki nýtilkomið. Það er vissulega ómaksins vert að hann heiðraði okkur með nærveru sinni þó eftir dúk og disk væri eftir miðnættið þó ekki hefði verið nema til þess að draga til baka þau ummæli sem hann hafði látið falla og var naumast hægt að skilja á annan veg en þann að hann væri að kalla eftir gengisfellingu. ( HÁ: Hlustaðir þú á þau?) Ég hlustaði á þau, já. ( HÁ: Varstu viðstaddur?) Ég horfði á þau í sjónvarpinu. Það er sjónvarpað frá þessum umræðum og ég fagna því ef hv. þm. hefur nú tekið af öll tvímæli um að hann er ekki að óska eftir gengisfellingu. En hann hagaði orðum sínum nefnilega nokkuð ógætilega. Ég skal ekkert fullyrða um að það hafi verið í huga hans en það mátti skilja af orðum hans og þess vegna er það fagnaðarefni að hv. þm. hefur tekið af skarið um að hann er ekki þeirrar skoðunar að gengisfelling sé lausn á þeim vanda sem við væntanlega báðir höfum áhyggjur af. Ef hann hefði verið viðstaddur þá umræðu sem fram fór í kvöld vissi hann að um það hefur verið rætt og yfir þau rök hefur verið farið og ég ætla ekki að endurtaka þau. En ég fagna því að við erum sammála um að gengisfelling er ekki lausnin. Við höfum nefnilega rætt vanda sjávarútvegsins til skamms og til lengri tíma. Við höfum verið að ræða um ástæðurnar fyrir afkomuvandanum til skamms tíma sem er að sjálfsögðu minni afli og hærra hráefnisverð. Og við höfum fært rök fyrir því að við þær aðstæður sem atvinnuvegurinn býr við núna og þá fyrst og fremst langtímavanda hans, menn geta kallað hann hvaða nafni sem er, fortíðarvanda eða skipulagsvanda, er skuldastaða sjávarútvegsins upp á hundrað milljarða kr., upphæð sem samsvarar ríkisbúskap Íslendinga á heilu ári, vanda sem verður hvorki leystur með gengisfellingu né almennum, venjulegum efnahagsaðgerðum fyrir greinina í heild.
    Það er líka ánægjulegt ef það hefur komið nægilega skýrt fram í umræðunni að allur samanburður við árið 1988 við mat á raungengi er bara tölulega rangur. Það er samanburður sem ekki stenst.
    Ef við höfum það á hreinu að gengisfelling er ekki á dagskrá, þá er hins vegar hægt að stuðla að því að leiðrétta gengið í áföngum og það er vissulega eitt af þeim markmiðum sem núv. ríkisstjórn hefur sett sér og fram kom í máli hæstv. sjútvrh.
    Það má heita svo að lungann úr þessum vetri hafi menn af hálfu stjórnarandstöðunnar farið hamförum gegn ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og efnahagsmálum en eins og fram kom í ræðu hæstv. sjútvrh. var markmiðið með þeim aðgerðum fyrst og fremst að skapa viðunandi stöðugleika fyrir atvinnulífið í landinu. Menn geta ekki hafnað meðulunum en lýst fylgi yfir markmiðinu. Marmiðið með að keyra niður ríkisútgjöld og að draga úr lánsfjárþörf ríkisins er að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið á lánsfjármarkaði, stuðla að lækkun vaxta og stuðla að lækkun verðbólgu. Þetta hefur tekist. Verðbólga á Íslandi er sú lægsta sem verið hefur í sögu lýðveldisins. Verðbólga á Íslandi er sú lægsta sem er nú í Evrópu. Ef við getum viðhaldið þeim stöðugleika erum við um leið að styrkja gengið sem er forsenda kjarasamninga, forsenda þeirrar sáttargjörðar sem tekist hefur í þjóðfélaginu með fullu samþykki ekki einasta forustumanna launþega, að fenginni reynslu, heldur líka forustumanna atvinnuvega og þar með talið forustumanna í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem hafa hafnað gengisfellingu, gert það með jákvæðri afstöðu til kjarasamninganna og sagt: Eina leiðin fyrir þessa mjög svo skuldugu atvinnugrein er einmitt þessi: Stöðugleiki, lág verðbólga, lækkun vaxta. Sú lækkun vaxta sem nú þegar hefur tekist, sem er fyrsta skrefið að mínu mati, þýðir tveggja milljarða kr. lækkun útgjalda fyrir atvinnulífið í heild. Hlutfallslega minni fyrir sjávarútveginn vegna þess að bróðurparturinn af lánum sjávarútvegsins eru erlend lán. Það þýðir hins vegar um leið að að verulegu leyti bjó sjávarútvegurinn ekki við sama vaxtastig og ýmsar aðrar atvinnugreinar í landinu. En meginatriðið er auðvitað það að menn eru sammála um að gengislækkun er ekki leiðin og við verðum þá að stuðla að almennum rekstrarskilyrðum eftir þessum almennu leiðum. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að það leysir ekki vanda þeirra fyrirtækja sem eru svo skuldug, með svo þungar drápsklyfjar uppsafnaðra skulda á löngum tíma að þar duga ekki til neinar venjulegar, almennar efnahagsaðgerðir.
    Í máli hæstv. sjútvrh. kom fram hvað það er sem gert hefur verið af hálfu núv. ríkisstjórnar til þess að stuðla að því að skapa hér rekstrargrundvöll fyrir sjávarútveginn. Lengingu á lánum hefur verið beitt. Skuldbreytingu hefur verið beitt. Inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn hafa verið stöðvaðar. Menn spyrja: Á

ekki að stíga skrefið til fulls og greiða jafnvel út úr sjóðnum? Það er auðvitað mál sem sjútvrh. hefur til skoðunar. Stærsta aðgerðin er að sjálfsögðu hin lága verðbólga, forsendurnar fyrir lækkun vaxta og að færa sjávarútveginum þau tækifæri sem birtast í EES-samningnum sem ekkert hefur verið vikið hér að. Þetta eru almennar aðgerðir. Ef menn hafna gengislækkun, þá geta menn sagt: Eru til einhverjar aðrar sértækar aðgerðir en þessar? Ég hef ekki heyrt þær af vörum stjórnarandstæðinga heldur. Enda er það staðreyndin að miðað við 100 milljarða skuldabagga og þær staðreyndir sem fyrir liggja um það að hvorki almennar aðgerðir né heldur gengislækkun mundu duga til þess að leysa vanda verulegs hluta þessara fyrirtækja, er það skipulagsvandi sem verður að taka á og tekur lengri tíma en ekki skammtímaráðstöfun. Og eins og fram kom í máli hæstv. sjútvrh. að hvort tveggja, að því er varðar veiðar og vinnsluna, búum við við þennan skipulagsvanda. Alveg eins og við þurfum að minnka afkastagetu skipastólsins til þess að laga hann að meginstaðreyndinni, minni afla, þá þurfum við einnig að gera það að því er vinnsluna varðar. Þá mun það verða svo með þau fyrirtæki sem eftir standa að þau hafa betri rekstrarafkomu.
    Hv. 1. þm. Austurl. segir að sjávarútvegurinn sé skattpíndur og partur af vandanum sé sú ákvörun núv. ríkisstjórnar að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs skulu seldar á markaðsvirði. Í þessu felst væntanlega sú skoðun að til sé á Íslandi einhvert fyrirtæki sem heitir Sjávarútvegur Íslands hf. En það er ekki svo og það veit hv. þm. allra manna best. Afkoman í sjávarútveginum er mjög misjöfn, ekki bara milli greina heldur einnig milli fyrirtækja. Það vill svo til að innan kvótakerfisins ganga kvótar kaupum og sölum og það eru verulegar fjárhæðir, mun hærri fjárhæðir en hér er um að ræða, sem eru greiddar fyrir kvóta. Það eru fyrirtæki sem hafa afkomu til þess, burði til þess og eru að því. Og þeir sem aðhyllast hvað mest framsal á óveiddum fiski, á veiðiheimildum, ættu ekki að mótmæla því. Eini munurinn í þessu tilviki er sá að það fé sem fyrir þetta fæst fer ekki út úr greininni eins og það gerir í mörgum öðrum tilvikum heldur rennur í almannasjóði.
    Hv. þm. vék að útflutningsmálum og spurði: Er það rétt að forsvarsmönnum í SÍF hafi verið gefið loforð um að útflutningsleyfi skyldu ekki undir neinum kringumstæðum vera veitt öðrum aðilum þar til EES-samningurinn er kominn til framkvæmda? Svarið við því er mjög einfalt. Nei, það er ekki rétt. Það sem þeim var sagt var þetta: Þangað til EES-samninguirnn kemur til framkvæmda stendur ekki til að breyta núverandi skipan um einkaleyfi sem er ríkisverndað til SÍF, en það var áskilið að eftir sem áður hefði utanríkisviðskiptaráðuneytið heimildir til leyfisveitinga. Ég vil taka það fram að flestir þeir ráðherrar sem farið hafa með þetta vald, áður í viðskrn. nú í utanríkisviðskiptaráðuneytinu, hafa beitt þeim heimildum en í mjög takmörkuðum mæli. Þegar það var gert á sínum tíma, í minni tíð, var það fyrst og fremst til þess að veita það aðhald sem nauðsynlegt er þegar samkeppni verður ekki við komið. Það aðhald leiddi til þess að einkaaðilinn sem áður hafði látið framleiðendur innan SÍF búa við það að fá ekki uppgjör á útflutningi sínum mánuðum saman, til þriggja, fjögurra mánaða, greip til sérstakra aðgerða til þess að kippa því í liðinn þannig að nú líður mun skemmri tími frá því að vara er afgreidd og hún gerð upp. En óánægja innan SÍF með þetta var slík, auðvitað ekki hvað síst meðan verðbólga var stærra vandamál, að samtökin voru við það að leysast upp. Þetta aðhald sem fólgið er í því að veita slík útflutningsleyfi við sérstök skilyrði hefur þess vegna ekki orðið til ills heldur hefur það þvert á móti haft jákvæðar afleiðingar að mínu mati.
    Hafa slíkar leyfisveitingar verið veittar í þeim mæli að þær hafi ruglað markaðinn eða leitt til verðlækkana? Það hef ég heldur betur kynnt mér að undanförnu og svarið við því er nei. Það er í svo litlum mæli og þegar um er að ræða t.d. Spánarmarkaðinn er alveg ljóst að það hefur ekki breytt neinu um verð. Þar geta menn ekki kvartað undan því að verðið sé ekki hátt. Innflytjendur eru líka mjög fáir og hafa með sér samtök. Verðið á saltfiski, t.d. á Barcelona-svæðinu hefur aldrei verið jafnhátt og við getum vissulega fagnað þeim árangri sem náðst hefur í markaðssetningu á saltfiski undir íslensku vörumerki vegna þess að þar er hægt að nefna dæmi um ágætan árangur. Árangurinn birtist í því að verðið á þessari afurð, smásöluverðið, er nú í sumum tilvikum orðið verulega miklu hærra en vænsta og besta fyrsta flokks kjöt á markaðnum og margfalt á við samkeppnisvöru eins og t.d. kjúklinga. En það getur verið varasamt í skjóli annars vegar einokunar og hins vegar fákeppni bæði í heildsölu og smásölumarkaði ef verðinu er stillt mjög hátt vegna þess að það þýðir að aðrir útflytjendur, keppinautar, komast þá mjög hæglega og auðveldlega inn á markaðinn undir þessu háa þaki. Staðreyndin er sú að Norðmenn, Danir og í nokkrum mæli Kanadamenn og Færeyingar hafa nýtt sér þessa aðstöðu og bjóða mun lægra verð. Þetta er einfalt skólabókardæmi um það sem getur hent á fákeppnismarkaði en hitt er staðreynd að þau tiltölulega mjög fáu og takmörkuðu leyfi sem veitt hafa verið öðrum aðilum utan SÍF hafa ekki leitt til verðfalls. ( Gripið fram í: Er það ekki gæðingakerfi?) Öll slík skömmtunarkerfi í höndum stjórnvalda eru út af fyrir sig í mínum augum af hinu illa og væri best að vera laus við þau með öllu. Það er þýðingarmikið að það komi fram eins og reyndar kom fram í svari mínu við fyrirspurn hérna áðan að ég tel að það eigi ekki að vera verkefni stjórnvalda að hlutast til um með hvaða hætti framleiðendur efla með sér samtök, skipuleggja sín markaðsmál, hafa samtök milli fyrirtækja, fyrirtækjanet eða skipuleggja sína markaðs- og sölustarfsemi, það er þeim að sjálfsögðu frjálst að gera og ef það er að bestu manna yfirsýn hagsmunir framleiðenda að gera það með sölusamtökum, þá á það að vera þeim frjálst og ríkið á ekki að skipta sér af því. Munurinn er hins vegar sá hvort þetta á að vera ríkiseinkaleyfi vegna þess að staðreyndin er sú að ef markaður er í sæmilegu jafnvægi og vel er að markaðsmálum unnið þá munu framleiðendur sjálfir sjá hvað þeim er í hag vegna þess að ef einstakir aðilar fara þar fram við undirboðum þá mun það fljótlega koma á daginn að það

samrýmist ekki hagsmunum framleiðenda og þeir munu koma í veg fyrir það.
    Það er munur á því hvort menn eru þeirrar skoðunar að það sé hlutverk ríkisvaldsins, stjórnvalda að gefa einkaleyfi einstökum aðilum og halda þannig uppi ríkisverndaðri einokun eða hvort framleiðendur sjálfir í sínum frjálsu samtökum komast að þeirri niðurstöðu að það sé þeirra hagur. Menn geta varla t.d. gagnrýnt leyfisveitingar stjórnvalda sem slæmt kerfi en sagt síðan: Einkaleyfi til einhverra lokaðra samtaka er hins vegar ágætt. Hvaða rökvísi er í því? Auðvitað er framtíðin sú að ríkið á ekki að vera með slíkt leyfisveitingarvald og allra síst ef aðrar leiðir eru betri.
    Virðulegi forseti. Við höfum fyrr í umræðunni, áður en hv. 1. þm. Austurl. heiðraði okkur með nærveru sinni, farið yfir fjölmarga aðra þætti þessarar umræðu og þá ekki hvað síst um skipulagsvanda sjávarútvegsins til lengri tíma og ég ætla ekki að endurtaka þau rök. Hins vegar vil ég undir lokin árétta það að engin ástæða er til þess fyrir hv. þm. né aðra þingmenn að væna menn um það að þeir hafi ekki áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins. Hún er slík að menn hafa af henni þungar áhyggjur, bæði stjórnmálamenn og ekki hvað síst forsvarsmenn í greininni sjálfri og það fólk sem við hana vinnur vegna þess að það er alveg ljóst að við stöndum þarna frammi fyrir mjög miklum vanda sem er ekki bara skammtímavandi vegna minni afla eða breytinga á hráefnisverði eða horfum á lægra verði á mörkuðum heldur er þetta uppsafnaður vandi til margra ára sem verður ekki leystur nema með skipulagsbreytingu á grunneiningum greinarinnar. Það er verkefni sem verður ekki unnið með skyndilausnum Það er verkefni sem kallar á víðtæka samstöðu, mikið rétt. Að því er nú unnið kappsamlega af nefnd á vegum stjórnarflokkanna. Stjórnarflokkarir ætla sér ekki að einoka það mál. Þeir þurfa hins vegar eðli málsins samkvæmt að ná samstöðu sín í milli. Það er einnig að störfum fjölmennari nefnd hagsmunaaðila í greininni. Þetta mál mun að sjálfsögðu koma til kasta Alþingis og því fer fjarri að af hálfu stjórnarflokkanna sé slegið á útrétta hönd stjórnarandstöðu ef hún vill leggja hönd á plóginn í þeim umræðum og með jákvæðum tillöguflutningi þegar þar að kemur.