Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:40:04 (6387)


     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það gleður mig sannarlega að hæstv. utanrrh. skuli hafa miklar áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins og þykir mér vænt um að hann hefur saknað mín í nokkra klukkutíma í kvöld, en það vill svo til að það hefur komið fyrir að hæstv. utanrrh. hefur ekki heiðrað okkur á Alþingi með nærveru sinni og hafa áreiðanlega oft á tíðum verið fyrir því eðlilegar ástæður og ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    Það sem hæstv. utanrrh. sagði um gengismál var athyglisvert. Ég lagði fyrir hann einfalda spurningu. Spurningin var þessi: Telur hann að sjávarútvegurinn geti búið við hærra gengi en var þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í febrúar 1990? Hann svaraði engu um það en sagði að núv. ríkisstjórn hefði það á sinni stefnuskrá að leiðrétta gengið í áföngum. Ég endurtek: Leiðrétta gengið í áföngum. Á hann við að það eigi að leiðrétta gengið í áföngum að því sem það var þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir í febrúar 1990? Hann hefur verið að snúa út úr mínu máli og ekkert um það að segja. Það er ekki í fyrsta skipti sem það gerist hér á Alþingi.
    Það er greinilegt að hæstv. utanrrh. kannast við að hafa lofað því að breyta ekki skipan um einkaleyfi. Síðan kemur það aðilum í sjávarútveginum á óvart hvernig utanrrh. túlkar það að hann hefur lofað að breyta ekki skipan um einkaleyfi. Það er alveg ljóst að menn hafa álitið að hann geri það með allt öðrum hætti en hann stofnaði til og það er alvarlegt þegar upp kemur annar eins ágreiningur í erfiðri stöðu og þar kom upp. Ég ætla ekki að fullyrða um það hvort það hefur kallað á verðlækkun. Það voru fullyrðingar annarra en það er mjög alvarlegt mál, hæstv. utanrrh. Hæstv. utanrrh. vill ekki einoka þetta mál. Gott og vel. Við höfum ekki orðið varir við það, hæstv. utanrrh., að núv. stjórnarflokkar hafi nokkurn áhuga á samstarfi við stjórnarandstöðuna í þessum máli frekar en flestum öðrum málum.