Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:45:54 (6389)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst staðreyndir um raungengi. Það er staðreynd að tilvísanir manna um samanburð á stöðu raungengis, ég tala nú ekki um á mælikvarða kaupgjalds, einnig á mælikvarða verðlags til ársins 1988 og nú, eru rangar. Síðan er því við að bæta að þegar menn búa við verðbólgustig sem hvílir á sæmilega traustum grunni sem er lægra, meira að segja allverulega lægra en í helstu markaðslöndum okkar þá erum við með forsendur sem geta stuðlað að því að raungengið lækki. Það er það sem ég átti við með orðum mínum um leiðréttingu, þ.e. um lækkun raungengis vegna þeirra forsendna sem nú eru sæmilega traustar. Ég endurtek því það að ályktanir manna að nú sé komið upp sama ástand og 1988 eru bæði af þessum ástæðum og mörgum öðrum ekki raunsæjar.
    Að því er varðar það sem menn hafa sagt um leyfisveitingar og dæmigert fyrir hv. þm. Steingrím J. Sigfússon --- ,,leyfisveitingar til einhverra krata``. Hér er um það að ræða að veitt hafa verið leyfi sem fullnægja ákveðnum skilyrðum, bæði um verðlag, samanburð við verð á mörkuðum, gæði, afsetningu, stundum sérstakar tegundir aðrar en eru á meginmörkuðum. Í engum kringumstæðum er þetta spurning um einhver flokksskírteini. Síðan var ég að skýra frá staðreyndum eftir könnun mála um áhrifin. Það er viðurkennt að þetta leiddi á sínum tíma til þess að SÍF fór að gera miklu fyrr upp við framleiðendur. Það er staðreynd að þetta hefur ekki haft áhrif á hið geysiháa verð sem íslenskir útflytjendur fá á Barcelona-svæðinu sem um var að ræða þannig að þetta er allt saman ekkert annað en dylgjur og ósamboðnar hv. þm. sem og reyndar efasemdir um hvað milli okkar hefur farið. Loforð var aldrei veitt um að utanrrn. hætti slíkum leyfisveitingum. Þvert á móti hafði verið gerð grein fyrir því og sendar almennar reglur, þær kynntar öllum aðilum þannig að það fór aldrei á milli mála og er enginn misskilningur í því að þetta voru skilmálarnir. Ráðuneytið áskildi sér rétt til leyfisveitinga samkvæmt þessum almennu skilmálum en lofaði því að leggja ekki af ríkisverndaða leyfið til SÍF fyrr en í fyrsta lagi að EES-samningarnir væru komnir til framkvæmda.