Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 01:56:03 (6394)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem ég sagði var þetta: Ég tel að það geti ekki verið svo til frambúðar að einstök sölusamtök byggi á ríkisverndaðri einokun, hafi einkaleyfi frá ríkinu. Ég tel hins vegar að ef hagsmunir framleiðenda eru þeir að þeir telja sér henta á einstökum mörkuðum að hafa með sér sölusamtök sem skila árangri muni þeir lifa af. Þá gætu samtök eins og þau sem hafa haft einkaleyfi í meira en hálfa öld vissulega byggt á því forskoti sem þau hafa og í ljósi árangurs sem þau ná sýnt framleiðendum fram á að þeir hafi hag af því að vera í þessum samtökum. En ég tel það ekki beinlínis vera hlutverk ríkisins að banna öðrum aðilum að spreyta sig á mörkuðum. Það er hins vegar gefið mál að það ræðst af árangrinum. Það er þetta sem ég var að segja. Ég var ekki að tala um að ríkið ætti að veita slíkum sölusamtökum einkaleyfi.
    Haft var eftir hæstv. sjútvrh. í umræðunum áðan að hans skoðun væri að markaðsmálin væru það viðamikið verkefni að það væri æskilegt að sölusamtökin sameinuðust jafnvel í stærri einingar og ég var spurður að því hvort ég væri sammála því. Mitt svar við því er að það er ekki verkefni ríkisstjórna að skipa fyrir um það hvernig framleiðendur haga slíkum samtökum. Það er mál þeirra sjálfra og á ekki að vera verkefni ríkisins. Verkefni ríkisins á vera að skapa útflutningsgreinum okkar sambærileg starfsskilyrði, gera þær samkeppnisfærar, skapa þeim markaðsaðgang, tryggja að þær hafi ekki lakari aðgang að helstu mörkuðum en keppinautar. Það er meginverkefni ríkisvaldsins.