Rekstrarvandi sjávarútvegsfyrirtækja

142. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 02:23:00 (6401)



     Jón Helgason :
    Herra forseti. Í framhaldi af því sem hv. 8. þm. Reykn. sagði um þá niðurstöðu sem komið hefur fram í umræðunum vil ég bæta því við að mér sýnist að niðurstaðan sé sú að á næstu vikum og mánuðum geti sjávarútvegurinn ekki búist við því að hans staða verði bætt. Hvort sem hallinn er 8% á frystingu, 8% á söltun eða 10% eða 3,5% að meðaltali er augljóst að það muni halda áfram að hlaðast þungar byrðar á íslenskan sjávarútveg, fiskvinnsluna sérstaklega. Hæstv. utanrrh. hefur sagt að það sé augljóst að sum fyrirtæki, hann skilgreindi ekki hvað mörg, muni ekki geta ráðið við sínar skuldir og að sjálfsögðu mun þeim fara fjölgandi hvort sem talan fer upp í 60%, eins og hæstv. sjútvrh. sagði fyrr á þessu ári.
    En hverjar verða þá afleiðingarnar? Þær verða gjaldþrot og á hverjum bitna þau? Þau bitna að sjálfsögðu á eigendunum sem glata öllu sínu, fyrirtækjunum og sjálfsagt mörgum sem eru með ábyrgðir kringum þau. Þau bitna á þeim byggðarlögum þar sem þessi fyrirtæki eru undirstaða atvinnulífsins og síðan bitna þau á lánastofnunum. Þá kemur okkur kannski fyrst í hug Landsbanki Íslands sem segir nú að hann geti ekki lækkað vexti vegna þess hvað hann er búinn að lána mikið til atvinnuveganna og þurfi að taka á sig mikil áföll vegna gjaldþrota þar. Það er augljóst að það mun ekki draga úr þeim heldur mun þeim þvert á móti fjölga m.a. vegna þeirra byrða sem ríkisstjórnin hefur lagt á sjávarútveginn eins og hér hefur verið margítrekað. Það er sem sagt stefna ríkisstjórnarinnar að Landsbanki Íslands og aðrar lánastofnanir væntanlega eigi að stórum hluta að standa undir hallarekstri sjávarútvegsins í staðinn fyrir að ríkisstjórnin létti byrðunum af og bæti rekstrarstöðuna. Það er því erfitt að skilja að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar stuðli að lækkun vaxta. Það stangast á við það sem stjórnendur Landsbankans segja. Þeir segja þvert á móti: Hin erfiða staða atvinnufyrirtækjanna veldur því að við getum ekki lækkað vextina.
    Því miður sýnist mér því að þessi umræða hafi ekki gefið miklar vonir um að það muni birta til í íslenskum sjávarútvegi á næstu vikum og mánuðum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir atvinnuveginn, byggðarlög og þjóðarbúið.