Afgreiðsla stjórnarfrumvarpa fyrir þinglok

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 13:55:05 (6408)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að það hefur verið gert ráð fyrir því að þingstörfum ljúki á þriðjudaginn kemur. Mér sýnist að mál séu að þróast með þeim hætti að stjórnarandstaðan fái óvenjulega lítið afgreitt af málum miðað við það sem hefur verið á undanfarandi þingum sem er út af fyrir sig ekki staðfesting á neinu öðru en því að stjórnarliðið núna beitir óvenjulega harkalegum vinnubrögðum gagnvart stjórnarandstöðunni.
    Það er mér þó ekki efst í huga á þessari stundu heldur hitt að fyrir þinginu liggja stjórnarfrv. sem hafa ekki fengist afgreidd eða tekin fyrir í nefndum að ég best veit með eðlilegum hætti en mér er þó kunnugt um að er full samstaða um. Ég kveð mér hljóðs til að ýta á eftir því að þessi stjfrv. verði afgreidd, þ.e. annars vegar frv. til laga um vernd barna og ungmenna sem ekki hefur fengist afgreitt úr félmn. og hins vegar frv. til laga um fullorðinsfræðslu sem ekki hefur fengist afgreitt úr menntmn. Um bæði þessi mál er mjög víðtæk samstaða á hv. Alþingi. Og ég vil inna eftir því hverju það sætir að stjórnarliðið reynir ekki að bera sig eftir því að sækja afgreiðslu mála sem full málefnaleg samstaða er um.