Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég ætlaði mér ekki að taka þátt í þessari þingskapaumræðu að þessu sinni, en ég sé mig til þess knúinn út af orðum hæstv. forsrh. þar sem hann var að kvarta undan því hve mikið hefði verið búið að tala um skýrslu Byggðastofnunar. Ég vek athygli á því að fast að því önnur hver ræða var flutt af þingmönnum stjórnarliðsins í þessari umræðu og þetta geta menn sannfærst um ef þeir athuga Alþingistíðindin eða spyrja starfsmenn þingsins. Þegar 32 ræður höfðu verið fluttar höfðu 16 verið fluttar af stjórnarliðinu og 16 fluttar af stjórnarandstæðingum.
    Það kann að vera að það sé fróðlegt íhugunarefni fyrir hæstv. forsrh. af hverju lið hans, stjórnarliðið, tók svo virkan þátt í þessari umræðu. Þar voru menn að tala við fólkið heima í byggðum sínum og biðjast afsökunar á þeirri ríkisstjórn sem meðhöndlar byggðamál með þeim hætti sem núv. ríkisstjórn gerir. Hann ætti að deila á sína menn og ræða það í sínum þingflokki ef hann vill stoppa þessar umræður.
    Við stjórnarandstæðingar eigum ýmislegt ósagt um byggðamál og ég tek fullkomlega undir það sem kom fram hjá hv. 4 þm. Norðurl. v. Það er auðvitað ólíðandi að ljúka ekki þessari umræðu. Og jafnvel þó svo menn veigri sér við eða kveinki sér undan að hlusta á hv. 2. þm. Vestf. flytja síðari hluta ræðu sinnar, þá verða menn bara að láta sig hafa það. Hann á sinn rétt eins og aðrir til að ljúka máli sínu í þessu efni. Ég hef hvað eftir annað minnt á það á fundum með forseta að þessari umræðu væri ekki lokið og ég treysti því að hún verði látin fara fram áður en við skiljum í vor.