Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikill misskilningur hjá hæstv. forsrh. ef hann heldur að hann þaggi niður í þingheimi með þeim málflutningi sem hann hefur haft uppi þann skamma tíma sem hann hefur hér verið. Það mun ekki takast og við þingmenn munum taka okkur allan þann tíma sem við eigum rétt á til að tala í hverju því máli sem okkur sýnist. Og ég vildi einnig benda hæstv. forsrh. á það í fullri vinsemd, vegna þess að ég hef séð hæstv. samgrh. og landbrh. vera að trítla hér um sali, að hann gæti farið í smiðju til hans og spurt hann að því í fullri vinsemd hvort stjórnarandstæðingar tali yfirleitt lengur nú en þeir gerðu þegar núv. hæstv. samgrh. var í stjórnarandstöðu.