Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Svo ergist hver sem hann eldist og það er í rauninni, ég tek undir það, sorglegt að heyra málflutning hæstv. forsrh. eins og hann hefur sett hann fram í dag og eins og hann hefur sett hann fram í umræðunum hér. Íslenska þjóðin er kannski smátt og smátt að átta sig á því að það er mikilvægt að það sé virk stjórnarandstaða sem þorir að veita ríkisstjórn andstöðu sem hefur tekið að sér það hlutverk að umbreyta íslensku þjóðfélagi, að ganga í illt verk og óþrifalegt sem þeir fengu ekki kosningu til, að umbreyta íslensku þjóðfélagi. Þess vegna er það nú svo að það er vaxandi skilningur hjá almenningi í landinu á að stjórnarandstaðan tali við þessa ríkisstjórn. Það er vaxandi skilningur á því að það sé talað við þessa ríkisstjórn. Og ég er sannfærður um að þeir menn innan ríkisstjórnarinnar sem hafa þorað að rísa gegn henni eru vinsælustu stjórnmálamenn sinna flokka í dag. Ég þarf engin nöfn þar að nefna vegna þess að þeir vita að forsrh. fékk ekki heimild í kosningum til að gera íslensku samfélagi það sem hér er að gerast. Það væri fróðlegt fyrir hæstv. forsrh. að hafa það eins og kóngurinn forðum, grímuklæða sig og fara út meðal almennings og spjalla við fólkið í landinu án þess að það viti að það sé Davíð Oddsson. Það gæti vel verið að hæstv. forsrh. áttaði sig á því að stefnan sem hann er að reka er ekki stefna flokks hans og almenningur í landinu er andvígur þeirri stefnu sem nú ríkir.

    Það koma daglega í þetta hús tugir manna á besta aldri lífsins, rúmlega fertugir, titrandi eins og strá, hafa tapað atvinnu sinni. Hér er þessi ríkisstjórn að hella yfir Ísland því atvinnuleysi sem ríkir um alla Evrópu, 3, 4 og 5% og fer vaxandi. Unga fólkið sem er að ganga núna út úr skólunum hefur enga von með atvinnu vegna þess að stefna ríkisstjórnarinnar er með þeim hætti. Ég vil leggja á það áherslu að þjóðin er að átta sig á því að það þarf að tala við þessa ríkisstjórn. Það eru 15 þús. fjölskyldur sem sitja við sjónvarpið þessa stundina og bíða eftir því að stjórnarandstaðan stöðvi lánasjóðsmálið á þinginu við 3. umr. Það eru 15 þús. fjölskyldur. Það er vaxandi skilningur fyrir því að stjórnarandstaðan er ekki hér að hundrota tímann. Hún er að vinna þrifaverk. Hún hefur lagað til mál með málflutningi sínum og heiðarlegri gagnrýni.
    En ég er sannfærður um eitt: Ég þori að fara í þann samanburð að það er rangt sem hæstv. forsrh. hefur hér farið með, að málflutningur hafi aukist á Alþingi af hálfu stjórnarandstöðu um 70--80%. Ég er búinn að vera hér í fimm ár og ég hef horft á stjórnarandstöðu og það hefur ekki oft verið málefnaleg umræða þegar Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu hefur haldið mönnum hér dag og nótt. Það hefur ekki gerst í vetur. Hér hefur verið málefnaleg umræða og hér hefur stjórnarandstöðunni tekist að bæta ýmis mál ríkisstjórnarinnar og koma í veg fyrir önnur. Ég er sannfærður um að íslenska þjóðin skilur það betur en áður að við höfum hlutverki að gegna. Og ég hygg að það séu margar fjölskyldurnar hér í Reykjavík þessa stundina, sem þrá að láta börnin sín mennta sig áfram, sem munu sitja við sjónvarpið í dag og fylgjast með dýrlingi sínum, hæstv. forsrh. landsins, gá hvort hann snúi af þeirri braut að hér eigi að vera örfáir gullbossar sem fái allt í þessu landi fyrir ekki neitt.