Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu um gæslu þingskapa. En eftir að hafa hlustað á hana nokkra stund sá ég að ég hafði kannski ákveðið innlegg í umræðuna. Ekki síst vegna þess að ég held að ég að ýmsu leyti skilji hvað er að prjóna í hæstv. forsrh., í ræðuflutningi hans hér á þingi þegar hann er að býsnast yfir því hversu menn tali á Alþingi og hversu þingstörf gangi hægt fram.
    Það nefnilega vill þannig til að við forsrh. núv. og borgarstjóri fyrrv. komum af sama vettvangi, þ.e. úr borgarstjórn Reykjavíkur og við erum bæði að upplifa hér okkar fyrstu þingreynslu og þetta eru auðvitað mikil viðbrigði. Þau eru mikil fyrir hæstv. forsrh. og ég tel að hann líti svo á að það séu neikvæð viðbrigði sem hann upplifir hér. En það eru líka mikil viðbrigði fyrir mig og þau viðbrigði eru jákvæð, hæstv. forsrh.
    En ég skil af hverju hann upplifir þetta svona vegna þess að í borgarstjórn var það þannig að þar gat borgarstjóri fyrrv. talað alla menn dauða. Þannig var það að minnihlutafulltrúi talaði, þegar hann var búinn að sleppa orðinu kom borgarstjóri upp, þá kom annar minnihlutafulltrúi og á eftir honum kom borgarstjóri, þá kom þriðji minnihlutafulltrúinn og á eftir honum borgarstjóri og þannig gekk þetta koll af kolli þar til allir fulltrúar minni hlutans voru búnir að tala tvisvar og þar af leiðandi tala sig dauða. Bingó, umræðu lokið, atkvæðagreiðsla og meiri hlutinn fékk sitt mál fram óbreytt. Og fyrir borgarfulltrúa í minni hluta borgarstjórnar var þetta hreinlega eins og að stanga vegg á hálfsmánaðar fresti. Þetta virðist borgarstjóra fyrrv. og núv. forsrh. hins vegar hafa líkað afskaplega vel og vill hafa hlutina þannig hér á Alþingi.
    Ég verð að segja það að hér kemur ýmislegt spánskt fyrir sjónir og það er ýmislegt sem manni fyndist að mætti betur fara. En sá er þó munurinn á Alþingi og borgarstjórn að það er ekki sama valdbeiting sem á sér stað hérna. Hér er þrátt fyrir allt meira lýðræði í heiðri haft en í borgarstjórn Reykjavíkur og minni hlutinn á ákveðinn varnartæki. Hann á málfrelsi og hér eru hefðir sem ríkja sem veita honum ákveðin varnartæki. Og til þessara varnartækja grípur stjórnarandstaðan þegar hún vill koma í veg fyrir að vond mál fari hér í gegn eða þegar hún vill í lengstu lög reyna að hafa áhrif á vond mál þannig að þau batni. Það er mjög mikilvægt að reyna eins lengi og maður telur þess nokkurn kost að hafa áhrif á vond mál til þess að þau megi eitthvað lagast.
    Þá er það ekki síður mikilvægt að hafa í huga að þegar við erum að tala kannski stundum lon og don að við erum að vekja athygli almennings í landinu á því sem hér fer fram, þeirri efnisumræðu sem hér á sér stað til þess að almenningur í landinu hafi svigrúm til að nýta sér sinn andmælarétt því auðvitað hefur almenningur andmælarétt og á að nýta sér hann í öllum málum. Ég veit hins vegar að fyrrv. borgarstjóri er ekkert hrifinn af þeim andmælarétti, hann sýndi það í ráðhúsmálinu þar sem á annan tug þúsunda borgarbúa safnaði undirskriftum og beitti öllum lýðræðislegum aðferðum sem þeim duttu í hug til að hafa áhrif á meiri hlutann, en auðvitað stönguðu þau vegg eins og við sem vorum í borgarstjórninni. Þess vegna er fyrrv. borgarstjóra og núv. forsrh. ekkert mikið um þennan andmælarétt gefið hvorki af hálfu þingmanna né almennings.