Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er nú sem oftar að það er hæstv. forsrh. sem kallar mig upp í ræðustól með ummælum sínum. Að þessu sinni með ummælum sínum í garð hv. 9. þm. Reykv., þær ásakanir sem hæstv. ráðherra bar á hann. Ég minnist þess sem hæstv. forsrh. sagði sl. mánudagskvöld um framtíðarsýn sína um störf hér í þinginu, um það sem hann vildi fá fram og boðaði endurskoðun á þingskapalögum til að ná fram. Það var sú framtíðarsýn að þingflokkar ættu að koma sér saman um talsmann í máli. Það ætti bara einn að tala frá hverjum þingflokki í máli. Að vísu leyfði hæstv. forsrh. sér að vera svo lýðræðislegur að hann gat um það og bætti því við að þetta mætti jafnvel gilda í hverri umferð. Þetta er það lýðræði sem hæstv. forsrh. var að boða sl. mánudagskvöld, þetta er það málfrelsi sem hann vill að þingmenn hafi. Síðan leyfir hann sér að bera vammir og skammir á hv. 9. þm. Reykv. Í þessu ljósi verða þær hlægilegar.