Afgreiðsla mála stjórnarandstöðuþingmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 18:02:00 (6438)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég boðaði í fyrri viku að ég mundi óska eftir umræðum um þingsköp til að fá úr því skorið hver væri stefna forsetans gagnvart hinum almennu þingmönnum, hvort þeir mættu búa við það að mál sem flutt hefðu verið með eðlilegum hætti yrðu ekki tekin til umræðu. Nú er það ekki nýtt í þingsögu Íslands að stjórnarandstaðan komi málum sínum ekki lengra en til nefndar, menn hiki við að láta fella þau í þinginu en leyfi að tala fyrir þeim og koma þeim til nefndar. Hér virðist aftur á móti, eftir að upplýst er með drögum frá forseta til þingflokksformanna, sem er fundaáætlun til 19. maí, og verður ekki annað af því ráðið en ætlunin sé að skilja eftir án þess að á dagskrá verði tekin mikið safn af þáltill. og einnig frv. til laga sem þingmenn hafa flutt fyrir þann eðlilega tíma sem áskilinn er í þingsköpum.
    Í 36. gr. þingskapa, herra forseti, er greint frá stefnumörkun í þessum efnum. Ég mun, með leyfi forseta, lesa upp 36. gr.:
    ,,Lagafrumvörp skulu vera samin með lagasniði og skal prenta þau og útbýta þeim meðal þingmanna á fundi. Hverju frumvarpi skal fylgja greinargerð um tilgang þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum. Eigi má, nema með samþykki þingins, taka frv. til umræðu fyrr en liðnar eru a.m.k. tvær nætur frá því er því var útbýtt.
    Lagafrumvörp, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu verða því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þingmanna samþykki það.``
    Ég vil þess vegna beina þeirri spurningu til hæstv. forseta: Hvað eru mörg mál frá stjórnarandstöðunni sem lögð voru fram fyrir 1. apríl og ekki hafa verið tekin á dagskrá? Og einnig: Hvað hafa verið leyfð mörg mál með afbrigðum sem voru of seint fram komin? Það liggur nefnilega ljóst fyrir að sá veikleiki er í okkar þingsköpum að það þarf ekki heimildir frá tveimur þriðju hlutum þingmanna til að leyfa þessi afbrigði. Það er nóg að meiri hlutinn samþykki. Það er fróðlegt að skoða það að í yfirliti um stöðu þingmála frá skjala- og upplýsingadeild Alþingis frá 9. maí, þá eru listar yfir þingmannatillögur sem ekki hafa verið teknar á dagskrá. Ég hygg að það sé einsdæmi í sögu Alþingis Íslendinga að þann veg hafi verið staðið að málum og ég bið hæstv. forseta að kynna sér frá fyrri þingum hvort það muni vera algengt að þingmannafrv. sem lögð voru fram með eðlilegum hætti séu látin liggja í stöflum.
    Ég vil einnig biðja hæstv. forseta að kynna sér hver voru vinnubrögð ágæts forseta sem hér starfaði lengi, Þorv. Garðars Kristjánssonar, í þessum efnum varðandi þáltill. og einnig varðandi hans verkstjórn á því hvort taka bæri mál til umræðu hér þó að honum væri vissulega ljóst að ekki yrði alltaf tími til að afgreiða þau mál frá þinginu.
    Nú er það svo að ef mál eru tekin til umræðu og vísað til nefndar eru þau gjarnan send út til umsagnar. Sá réttur er þess vegna líka tekinn af þingmönnum með þeim vinnubrögðum sem hér eru upp tekin.