Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 18:09:30 (6441)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns spyrjast fyrir um hvar formaður menntmn., hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, er niður komin. Ég vil biðja um að hún verði kölluð í salinn. --- Í þeim töluðum orðum birtist formaðurinn.
    Það er ein sérstök ástæða fyrir því að ég vil að formaður menntmn. sé hér viðstaddur og það er vegna þess að í dag renndi ég yfir frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna eins og það lítur út núna og eins og þingheimi ætti að vera ljóst hef ég ákaflega mikið við þetta frv. að athuga. En nú rak ég augun í að það hefur ekki verið gerð orðalagsbreyting á 10. gr. frv. sem ég held að ég muni rétt að ég hafi bent á nokkuð snemma í þessari umræðu. Þar er notað orðið ,,útsvarsstofn.`` Samkvæmt gildandi skattalögum er ekkert lengur til sem heitir útsvarsstofn heldur er einungis til skattstofn. Það er svolítið ankannalegt í nýjum lögum að nota orð sem ekki eru lengur í lögum eða miða við viðmiðanir sem ekki er lengur að finna í lögum.
    Á sínum tíma hringdi ég í skattstofuna til að fá upplýsingar um hvernig útsvarsstofn væri reiknaður og þá fékk ég þær upplýsingar að þessi viðmiðun er ekki notuð lengur. Þetta hefur farið fram hjá okkur í nefndarvinnunni því að þó að ég sé alfarið á móti þessum lögum vil ég samt að rétt sé rétt.
    Herra forseti. Við erum þar komin í þingstörfum að 3. umr. um Lánasjóð ísl. námsmanna er rétt að hefjast. Í eldhúsdagsumræðum sl. mánudagskvöld kvörtuðu fulltrúar Sjálfstfl. mjög yfir því að stjórnarandstæðingar tali og tali og þar var einkum vikið að Lánasjóði ísl. námsmanna og var greinilegt að sumum þingmönnum fannst að sú umræða væri nú orðin helst til löng. Reyndar kom það fram í máli þingmanna að stjórnarandstaðan gæti svo sem talað og talað og talað sig hása. Það væri meiri hlutinn sem réði þegar allt kæmi til alls. Og vissulega er það rétt að meiri hlutinn ræður og það er hluti af okkar lýðræðisskipulagi að sætta sig við vilja meiri hlutans. Hins vegar er það líka hluti af lýðræðishefðum okkar að hlustað sé á minni hlutann og að það sé tekið nokkurt tillit til vilja hans. En það virðist hins vegar vera afar erfitt fyrir sjálfstæðismenn að sætta sig við leikreglur lýðræðisins, enda hafa þeir stungið upp á því hvað eftir annað að þingskapalögum verði breytt og ýmsar breytingar gerðar á þinghaldi og er ekki annað á þeim að heyra en það beri að takmarka málfrelsi þingmanna, en að mínum dómi eru málfrelsi okkar töluverð takmörk sett. Því finnst mér ekki úr vegi við upphaf 3. umr. um Lánasjóð ísl. námsmanna að minna ögn á hvert hlutverk stjórnarandstöðu er, ekki síst í jafnstórum málum og við erum hér að ræða.
    Það er staðreynd að í vetur höfum við rætt mörg mjög stór og mikilvæg mál, mál sem snerta allan almenning í landinu, þó að það hafi reyndar verið mjög áberandi hvernig ráðist hefur verið jafnvel aftur og aftur á sömu hópana og þar nefni ég sérstaklega sjómenn. Hér höfum við rætt gríðarlega stóra málaflokka eins og heilbrigðismál og skólakerfið þar sem ríkisstjórnin er að gera grundvallarbreytingar á þessum kerfum. Þess vegna er ekkert óvenjulegt eða einkennilegt við það að stjórnarandstaðan skuli hafa mjög margt við þetta að athuga og þurfi að tala býsna mikið um þessi mjög svo mikilvægu mál því að það er nú einu sinni hlutverk stjórnarandstöðunnar að láta ríkisstjórn standa fyrir máli sínu, ella yrði stjórnarandstaðan að teljast harla léleg og máttlaus.
    Það hefur komið fram í þessari umræðu og kom fram í eldhúsdagsumræðum sl. mánudagskvöld að það eru mjög ólíkar skoðanir á ferðinni varðandi okkar velferðarkerfi og ég tel Lánasjóð ísl. námsmanna hluta af okkar velferðarkerfi. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að hann væri á allt annarri skoðun en forverar hans í Alþfl. Nú ætti velferðarkerfið ekki lengur að vera fyrir alla. En ég hef áður í umræðum í vetur rakið hvers vegna ég tel það vera ranga stefnu þó að velferðarkerfi okkar eigi fyrst og fremst að þjóna þeim sem þurfa á aðstoð að halda. En þarna eru ýmsar grundvallarhugmyndir á ferðinni sem menn virðast ætla að breyta án þess að það hafi verið borið undir vilja þjóðarinnar.
    Alþfl. stendur að því máli sem hér er til umræðu og það hefur að sjálfsögðu vakið athygli okkar að ungir jafnaðarmenn eru mjög óánægðir með sína þingmenn og hafa sent þeim harðorðar áskoranir, ekki síst varðandi það ákvæði þessara nýju laga sem kallað hefur verið eftirágreiðslur. Alþýðuflokksmenn hafa ákaflega lítið látið í sér heyra í þessari umræðu, þeir eru ekki margir í salnum á þessu augnabliki, og við hljótum að bíða eftir þeirra orðum í þessari umræðu, hvernig þeir ætla að verja sínar gerðir. Er það virkilega svo að Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands ætli að standa að frv. eins og það nú lítur út þrátt fyrir alla þá umræðu sem átt hefur sér stað og þrátt fyrir að ungir jafnaðarmenn hvetji þá til dáða, þ.e. hvetji þá til að breyta um afstöðu og koma einhverjum skikki á greiðslu til námsmanna nú á þessu hausti? Eins og við vitum lítur svo út sem námsmenn fái ekkert í sinn hlut.
    Það gerðist harla fátt milli 2. og 3. umr. þessa máls, en í 2. umr. var ekki annað að heyra á menntmrh. en vilji væri til að taka málið upp til skoðunar og það var minn skilningur að sú skoðun ætti að fara fram í menntmn. Ekki gat hún farið annars staðar fram að þinglegum hætti. En það kom mjög skýrt fram á fundi menntmn. að meiri hlutinn taldi sig hafa afgreitt málið frá sér og á öðrum fundi sem haldinn var í menntmn. í gærkvöld, þar sem menntmrh. reyndar mætti að beiðni stjórnarandstöðunnar, kom fram að það væri ekki vilji til þess að breyta neinu þannig að það virðist vera ljóst að það stendur ekki til að gera neinar breytingar á milli 2. og 3. umr. og því hljótum við að krefjast þess að Alþfl. einkum og sér í lagi standi fyrir máli sínu, geri hér grein fyrir hvað hvetur hann til slíkra verka sem hér eru á ferð. Ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni að hér er verið að vinna mikið tjón. Það er verið að vinna okkar samfélagi mikið tjón.

Og eftir fund menntmrh. með menntmn. í gærkvöld varð mér hugsað: Þessir menn vita ekki hvað þeir gjöra. En svo mikið er víst að ég ætla ekki að fyrirgefa þeim.
    Það voru lagðar margar spurningar fyrir hæstv. menntmrh. á fundinum í gærkvöld og þegar verið er að gera jafnviðamiklar breytingar á sjóði eins og Lánasjóði ísl. námsmanna hljóta menn að gera sér grein fyrir því hver tilgangurinn er. Hver eru markmiðin? Hverju á að ná fram með þessum breytingum? Og við spurðum að því hver áhrif þetta hefði á sjóðinn á þessu ári, á næsta ári, hvað þýddi þetta fyrir fjárlög næsta árs. Það voru engin svör við því.
    Menn hafa ekkert reynt að gera sér grein fyrir því hvaða upphæðir þarna er verið að tala um. Menn vita auðvitað að það er verið að velta --- ja, 1.200 milljónum, 1.270 milljónum yfir á næsta ár. 800 milljónir rúmar eru til í sjóðnum sem ekki á að nota, en þetta eru 1.270 milljónir sem er verið að velta yfir á næsta ár. Og það er náttúrlega til þess að draga nokkuð úr hallanum á ríkissjóði og það eiga námsmenn að gjalda fyrir.
    En fyrir mér lítur þetta út bara eins og --- ja, subbuskapur í lagasetningu. Þetta er subbuskapur í lagasetningu. Það eru léleg vinnubrögð að menn skuli ekki reyna að setja sér markmið og reyna að átta sig á því hver áhrifin verða. Það er nánast sama á hvaða atriði er minnst, menn vita ekki hver áhrifin verða. Það er oft erfitt að sjá það fyrir, en menn eiga að reyna að gera sér grein fyrir einhverjum heildaráhrifum þó ekki sé hægt að reikna það nákvæmlega út upp á krónu.
    Eftir þennan fund í gærkvöld fannst mér að enn væru býsna margir endar lausir í þessu máli. Og ég vil nefna hér nokkur atriði.
    Það var reyndar minnst á sumt af þessu í dag, en ég ætla að endurtaka það samt, og þar er þá fyrst að nefna þá nemendur sem eru í námi þar sem samkeppni er á ferð og ,,numerus clausus`` eða takmarkanir gilda um fjölda nemenda. Í dag fá þessir nemendur lán samkvæmt gildandi reglum og ráðherrann fullyrti að svo yrði áfram, en það er ekkert sem tryggir það í þessum lögum. Þarna eru nemendur sem ná tilskildum námsárangri, eins og lögin kveða á um, en þeir komast ekki áfram, þeir geta ekki haldið áfram og verða þess vegna annaðhvort að reyna upp á nýtt eða að fara í annað nám ef ekki út á vinnumarkaðinn. En það er ekkert sem tryggir hagsmuni þessara nemenda í lögunum.
    Annað atriði er að eftir að menn áttuðu sig á því að námsmenn yrðu að leita út á almennan lánamarkað til að framfleyta sér í nokkra mánuði og þeir yrðu að greiða þau lán og það með almennum bankavöxtum, þá brást ráðherra og sjóðstjórn við með því að lofa því að lána einfaldlega fyrir þessum vöxtum. Þetta þýðir að fyrst taka námsmenn lán á háum vöxtum. Síðan fá þeir námslán sem hækkar vegna þessara vaxta. Þau fara auðvitað meira og minna í að greiða upp lánin og síðan verða nemendur að taka ný lán og fá síðan aftur námslán sem fara í að greiða síðari skammtinn af lánunum. En endirinn verður sá að nemendur sitja uppi með enn meiri skuldabyrði og enn meiri greiðslubyrði. Þannig að þetta er vítahringur og námsmenn hljóta að velta mjög alvarlega fyrir sér hvað þetta þýðir fyrir þá. Hvað þýðir þetta fyrir það fólk sem nú er í námi eða ætlar sér að leggja út í nám? Hvernig verða lífskjörin með þetta allt á herðunum?
    Það kom fram í máli ráðherrans að það hafa átt sér stað viðræður milli stjórnar lánasjóðsins og bankanna, en það liggur ekkert fyrir um hvort bankarnir muni geta orðið við þessu, hvort þeir geti tekið við þessum straum af lánþegum, og menn hafa ekki reynt að gera sér neina grein fyrir því hversu margir námsmenn munu neyðast til að fara þessa leið. Það hefði nú mátt gera einhverja skyndikönnun á því. En við hljótum að spyrja í því efnahagsástandi sem hér er: Hvað þýðir þetta fyrir efnahagslífið? Hvað þýðir þetta í bankakerfinu þegar kemur skyndileg aukin eftirspurn eftir lánum? Það er vitað að það hefur aðeins hluti fyrsta árs nema leitað eftir lánum bankakerfinu hingað til. Þeim hefur tekist að bjarga sér á einn eða annan hátt á sumarhýrunni eða meða aðstoð foreldra þangað til þeir fá lánin, flestir, eftir áramót.
    En hvað gerist þegar þetta er allt kerfið, það eru allir námsmenn sem sækja um lán hjá lánasjóðnum sem verða að byrja á því að fara í bankana? Reyndar eru það ekki allir því að maður vonast nú til þess að einhverjir búi svo vel að fá aðstoð frá foreldrum sínum því ég efast ekki um að það er vilji flestra foreldra að hjálpa börnunum sínum. En við vitum líka að það eru ekki allir sem geta það. Þessum spurningum er ósvarað. Hver verða áhrifin? Því hafa menn ekki svarað hér í þessari umræðu.
    Ég spurði sérstaklega um það í gærkvöld hvernig væri með þá nemendur sem fara til útlanda og þurfa að borga há skólagjöld. Nú er það svo að lánasjóðurinn setur þak á skólagjöld erlendis sem núna er 24 þúsund dollarar eða tæplega ein og hálf millj. kr. Þetta eru verulegar upphæðir og þeir nemendur sem fara til náms erlendis, sérstaklega til Englands og Bandaríkjanna, þurfa að greiða mjög mismunandi há skólagjöld og þurfa þá að taka lán fyrir þeim líka. Og auðvitað óttast maður að það dragi mjög úr því að nemendur fari erlendis til náms og þá sérstaklega til þessara landa því þarna er verið að auka enn á skuldirnar.
    Það hefur ekki mikið verið rætt í þessari umræðu um það sem fram undan kann að vera á Norðurlöndunum þar sem verið er að tala um að viðkomandi ríki borgi fyrir sína námsmenn, þ.e. íslenska ríkið þurfi að borga fyrir þá íslensku námsmenn sem sækja nám t.d. í Danmörku þó að viðkomandi danskur ráðherra hafi haft góð orð um það að vegna sögunnar yrðu Íslendingar undanþegnir. En við getum ekki treyst á það. Þannig eru ýmsar breytingar fram undan í þessu og við hljótum að verða að gera okkur grein fyrir því hvað er fram undan, hvað þessar breytingar þýða.
    Af þessu dreg ég þá ályktun að hér eru býsna margir lausir endar. Það er alveg dæmigert fyrir íslensk stjórnvöld að vaða út í svona lagabreytingar án þess að gera sér nokkra grein fyrir afleiðingunum. En í þessari umræðu hefur verið bent á ýmsar afleiðingar, bæði fyrir vinnumarkaðinn, skólakerfið, húsnæðismarkaðinn og fleira og fleira sem ég ætla reyndar að koma betur að á eftir.
    Í umræðunni sl. mánudagskvöld, sem ég hef nokkrum sinnum vitnað til, var það einn ákveðinn þingmaður, sem nú situr á forsetastóli, sem gerði lánasjóðinn að umtalsefni og þá umræðu sem stjórnarandstaðan hefur haldið hér uppi. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þessa ræðu, með leyfi forseta, en þingmaðurinn sagði:
    ,,Það er staðfastur vilji stjórnarflokkanna að styrkja lánasjóðinn. Allt tal stjórnarandstöðunnar um annað hér í umræðunum í kvöld er á misskilningi byggt eða jafnvel tilraun til blekkinga í pólitískum tilgangi. Unnið hefur verið mjög vel að málinu og hefur verið tekið tillit til athugasemda sem hafa komið fram við frumvarpið, bæði frá stjórnarþingmönnum og stjórnarandstæðingum.``
    Það er vissulega rétt að það hefur allnokkurt tillit verið tekið til þeirra ábendinga sem bárust menntmn. þó að þar hafi alls ekki verið gengið nógu langt. Það var auðvitað vegna þess að þau álit sem nefndinni bárust voru býsna samhljóða og ljóst að það voru nokkur mjög ákveðin atriði sem var mjög víðtæk samstaða um að þyrfti að breyta. En að stjórnarandstaðan sé að halda uppi einhverjum blekkingum í pólitískum tilgangi er alrangt og ég mótmæli slíkum fullyrðingum. Eins og ég hef áður nefnt er hér á ferðinni mjög alvarlegt mál, mál sem snertir þúsundir fjölskyldna í landinu, mál sem snertir framtíð þessarar þjóðar. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt að við tölum mikið um þetta mál og af mikilli alvöru og að við reynum að gera okkur grein fyrir því hvað þetta þýðir því að það er mergurinn málsins. Hvað þýðir þetta? Hverju er verið að hleypa hér af stað?
    Auðvitað er þetta hápólitískt mál. Þetta er eitthvert pólitískasta mál sem við höfum haft hér til umræðu. Og til þess að undirstrika það langar mig til að nefna nokkur af þeim atriðum sem við höfum talið vera lykilatriði í þessu máli og flest af þessu er búið að samþykkja á hinu háa Alþingi.
    Í fyrsta lagi er það ljóst að hér eftir, þ.e. ef það gerist ekki eitthvað á milli 2. og 3. umr., verða námslán með vöxtum. Nú er sem sagt búið að samþykkja að námslán verði með vöxtum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að vextirnir verði 1%, en samkvæmt lögunum er hægt að hækka vextina upp í 3%. Og ég verð að segja það, eftir þá reynslu sem við höfum t.d. af húsnæðismálum, að ég treysti því nú tæplega að þessi ákvæði um að vextir verði ekki hærri en 3% standist lengi ef áform eru uppi um að draga enn þá meira úr ásókn í lánin því að það er auðvitað tilgangurinn eins og menntmrh. hefur viðurkennt. Það er ekki einungis tilgangurinn að fara nú að aga námsmenn og sjá til þess að þeir séu nú ekki að slugsa í námi, eins og ráðherrann orðaði það, heldur er tilgangurinn að draga úr ásókn í lánin.
    En hversu mikið dregur úr þeirri ásókn? Því getur hvorki ráðherrann né sjóðstjórnin svarað. Menn hafa engar hugmyndir um það. Þeir nefnilega vita ekkert hvað þeir eru að gera. En eins og ég nefndi áðan eru vextirnir að mínum dómi mikið lykilatriði í þessu máli vegna þess að þarna er verið að brjóta þá grundvallarreglu, sem ríkt hefur í námslánakerfinu, að hér sé um félagslegt kerfi að ræða. Nú er lánasjóðurinn, eftir þessar breytingar, orðinn eins og hver annar fjárfestingarlánasjóður. Þetta eru reyndar sömu vextirnir og í Byggingarsjóði verkamanna, en það tókst reyndar að stöðva í kjarasamningum að vextirnir væru hækkaðir þar. Og spurningin er: Hvenær verður það kjarasamningsatriði að vextirnir í námslánakerfinu verði ekki hækkaðir? Lenda menn ekki í því eftir nokkur ár að fara að berjast við ríkisvaldið til að reyna að halda vöxtunum niðri í námslánakerfinu? Þetta er hörmulegt að mínum dómi og ég harma að þetta ákvæði skuli hafa verið samþykkt af því að þetta gjörbreytir eðli sjóðsins.
    Annað atriði, sem er stórmál og við stjórnarandstæðingar og fulltrúar námsmanna höfum mikið reynt að fá breytt, eru hinar svokölluðu eftirágreiðslur. Ég verð að segja að röksemdir stjórnarliða og fulltrúa þeirra í Lánasjóði ísl. námsmanna eru aldeilis með ólíkindum. Menn eru með einhverjar hugmyndir um það og halda því blákalt fram að fjöldi nemenda --- ja, sé að slugsa, standist ekki kröfur og teikna upp töflur því til sönnunar. Í Morgunblaðinu sl. þriðjudag var grein eftir einn af stjórnarmönnunum í LÍN og aðstoðarmann fjmrh., Steingrím Ara Arason, þar sem hann gerir grein fyrir því að mikill fjöldi námsmanna hafi fengið námslán án þess að skila lágmarksárangri og jafnframt að þeir hafi gefið upp of lágar tekjur til að ná í hærri lán.
    Vissulega ber að harma það ef þetta mikill fjöldi námsmanna gefur upp rangar upplýsingar. En auðvitað eru leiðir til að herða þessar kröfur, að fólk fái ekki lán fyrr en komið hefur staðfest uppgjör um tekjur, fyrr en algjörlega er ljóst hverjar tekjurnar hafa raunverulega verið. Í staðgreiðslukerfi skatta ætti það ekki að vera mjög erfitt. En undir þessum formerkjum, að hér sé um hálfgerða svikastarfsemi ákveðins hóps námsmanna að ræða, þá eiga allir að gjalda fyrir og fá ekki greidd námslán fyrr en að afloknum prófum sem í mjög mörgum tilvikum eru í desember eða janúar en í allmörgum ekki fyrr en að vori. Og hvernig ætlar sjóðurinn að taka á þessu? Það er óljóst. Það var m.a. spurt um dæmið, sem margoft hefur komið fram í þessari umræðu, um laganemana og stjórn sjóðsins ku vera að athuga það mál. En það er ákaflega erfitt að sjá hvernig nemendur eiga að geta framvísað einhverjum vottorðum eða skírteinum eða einhvers konar viðurkenningu um að þeir hafi stundað sitt nám. Eftir því sem ég þekki til í háskólum er ekki um mikla mætingaskyldu eða eftirgrennslan að ræða. Menn eru í frjálsu námi þó að það séu gerðar allmiklar kröfur víða um tímasókn, einkum í raunvísindagreinum, en í heilu háskóladeildunum er alls ekki um það að ræða. Þannig er ljóst að nemendur, sem eru í heils árs námi þar sem ekki eru tekin próf um miðjan vetur, og það gildir t.d. um fjöldamargar listgreinar, verða að gera einhvers konar samning við sína kennara eða stjórnin að gera samning við skólayfirvöld þannig að hægt sé að framvísa einhvers konar vottorðum. Þetta stenst ekki, þetta gengur ekki. Og þetta á eftir að valda fjölda námsmanna miklum erfiðleikum. En ég vona svo sannarlega að stjórn lánasjóðsins finni lausn á þessu því að það væri heldur illa af stað farið ef þessar breytingar, sem eru nú nógu slæmar, yrðu til þess að hamla fólki t.d. í listnámi. Þar er þó um nám að ræða sem bætir miklu við okkar menningu og ég má ekki til þess hugsa að það sé verið að koma í veg fyrir að fólk komist í listnám. En það var alveg ljóst eftir umræðuna í gærkvöld að það er enginn vilji til að breyta þessu ákvæði um eftirágreiðslurnar, það er algjörlega ljóst.
    Það eru þó ekki allir á sama máli og meiri hluti menntmn. og menntmrh. því að í Morgunblaðinu er grein eftir Víkverja, sem er nafnlaus grein en verður nú að teljast á ábyrgð Morgunblaðsins, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Þeir sem eiga foreldra að, sem eru tilbúnir til að hjálpa þeim við að greiða kostnað við námið, lenda ekki í vandræðum af þessum sökum. En hvað um þann fjölda námsmanna sem ekki býr við slíkar aðstæður? Hvað um þann fjölda námsmanna sem kann að vera í vandræðum með að tryggja sér ábyrgðarmenn sem bankarnir taka gilda? Er hugsanlega verið að búa hér til kerfi sem mismunar ungu fólki svo mjög að enn breikki bilið á milli þeirra sem búa við góð kjör og hinna sem hafa lítið handa á milli? Þetta hefur verið rætt mjög í þinginu en Víkverji hefur furðað sig á því hvað þingmenn stjórnarflokkanna hafa virst vera ákveðnir í að koma þessari breytingu á. Eru þeir svona vissir um að þeir séu á réttri leið? Og ef þeir eru það ekki, hvaða steina eru þeir að leggja í götu ungs og efnalítils fólks?``
    Þetta skrifar Morgunblaðið og hefði manni einhvern tíma þótt undarlegt að sjá slíkar greinar í því blaði. En þessi grein sýnir hvað best að þeir eru margir sem óttast þessar breytingar og að afleiðingarnar verði einmitt þessar, það sé verið að gera hér breytingar sem koma harðast niður á þeim sem verst hafa kjörin og þeim sem munu hafa lægst laun að námi loknu, en eins og við vitum eru konur í miklum meiri hluta í þeim hópi.
    Ég get nefnt atriði eins og lántökugjöldin, sem rýra þau lán sem nemendur fá, og enn og aftur greiðslubyrðina sem fólk mun standa uppi með að námi loknu, en það er alveg ljóst að með því að samþykkja lögin á þann hátt sem þau nú líta út þýða þau mun þyngri greiðslubyrði fyrir alla námsmenn. Það er ósköp einfaldlega verið að hækka föstu greiðsluna, það er verið að hækka tekjutenginguna, þannig að þetta þýðir verulega þyngri greiðslubyrði. Og enn er það óleyst mál og hefur ekkert skýrst í þessari umræðu hvað gerist eftir að fólk er orðið 67 ára gamalt. Það er ljóst eins og launakjör eru nú að allnokkur hópur lánþega á eftir að greiða allverulegan hluta skulda sinna við 67 ára aldur. Þetta er mál sem verður að taka á vegna þess að þetta skiptir máli þegar fólk er að meta lífsáform sín, hvað eigi að gera.
    Ég kannast ekki við að hér hafi komið fram neinar upplýsingar um hvað muni gerast með Vísindasjóð, en í grg. með frv. er vísað til þess að meiningin sé að efla Vísindasjóð. Samkvæmt þeim töflum sem OECD hefur birt yfir lönd Evrópu og reyndar annarra sem OECD fylgist með er Ísland meðal þeirra þjóða sem veita minnstu fé til rannsókna- og vísindastarfsemi. Og það fé hefur farið minnkandi með árunum, því miður. Þess vegna er alveg með ólíkindum að menn skuli í þessu frv., í þeim lögum sem hér á að fara að samþykkja, vísa í Vísindasjóð sem hefur sáralítið fjármagn og er á engan hátt viðbúinn því að fara að styrkja námsmenn. Þarna er enn einn lausi þráðurinn. Enginn veit hver staða Vísindasjóðs verður á næsta ári eða þarnæsta og óvíst um það að hér verði komið á neinu námsstyrkjakerfi.
    Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að það væri mikill galli á íslensku námskerfi og námslánakerfi að fólk skuli ekki eiga kost á hreinum námsstyrkjum --- við vitum að vísu að hluti af námslánunum er aldrei borgaður til baka og má þess vegna teljast vera styrkur --- að það sé hér styrkjakerfi sem hvetji fólk til að stunda ákveðið nám þar sem t.d. vantar sérhæft fólk eða að fólki sem er mjög efnilegt sé hjálpað til þess að stunda nám, þ.e. styrkir sem hvetja til þess að fólk afreki eitthvað í sínu lífi. Þetta er algjörlega laus endi og eins og stefna þessarar ríkisstjórnar er í fjármálum hef ég ákaflega litla trú á því að Vísindasjóður verði efldur á næstu árum þannig að styrkjakerfi líti dagsins ljós.
    Það hefur heldur ekkert gerst í því efni að draga úr valdi stjórnar lánasjóðsins eða breyta stjórn lánasjóðsins. Hún hefur ákaflega mikil völd, bæði úrskurðarvald og vald til þess að ákveða ýmsa hluti. Það er ekki vont að öllu leyti því það þýðir að stjórnin getur metið einstaka vandamál sem upp koma. Það er svo að þó að þeir sem eru að skrifa í Morgunblaðið og tala á þingi af hálfu stjórnarinnar telji námsmenn slugsa mikið í sínu námi eru margar ástæður fyrir því að fólk tefst í námi. Það geta komið upp veikindi og það kemur fyrir að fólk á í erfiðleikum með námið, það er ekki á réttri hillu. Lánasjóðurinn hefur hingað til tekið tillit til þess að fólk vilji skipta um nám, fara í aðra grein. Auðvitað gerist það að fólk áttar sig á því að það er komið á ranga braut og hættir ósköp einfaldlega og ætlar sér þá að hefja nám að nýju næsta haust og þá kannski í annarri grein. Þetta er hluti af skýringunni á því að lán hafa verið ofgreidd.
    Það er rétt að upplýsa að umræðan sem átt hefur sér stað um hin ofgreiddu lán er mjög orðum aukin því að lánasjóðurinn er mjög harður í innheimtu og hefur náð langsamlega mestu af þessum peningum inn aftur. Það er ekki um það að ræða að fé sé svikið út úr sjóðnum og komi aldrei til baka heldur er staðreyndin sú að langsamlega stærstur hluti af þessu fjármagni hefur náðst inn og það fyrst og fremst með samningum við viðkomandi námsmenn sem í flestum tilvikum hafa hætt námi af ýmsum ástæðum. En það er sem sagt meiningin að refsa öllum námsmönnum eða það eru röksemdirnar sem beitt er vegna þessara ofgreiddu lána að út af slugsinu og öllu þessu þurfi að aga lýðinn og það skal gert með því að hann fái ekki eyri í sinn hlut fyrr en að afstöðnum prófum, hvernig sem málin standa.
    Ég vil líka aðeins minna á að auðvitað var það til bóta að sú regla var tekin upp að lánþegar ættu fyrst að greiða upp nýju lánin en síðan þau gömlu, þ.e. þeir sem taka lán úr því kerfi sem nú er og halda áfram að taka lán samkvæmt því kerfi sem á að koma á. Fyrst byrja menn sem sagt á nýju lánunum og ljúka síðan þeim gömlu. Það verður nokkuð stór hluti lánþega sem munu ná því að greiða öll þessi lán, en það verður líka töluverður hópur sem rétt nær því að greiða nýju lánin eða alls ekki og á þá þau gömlu eftir líka. En ég hef ekki séð neinar tölur um þetta. Ég veit ekki til þess að menn hafi reynt að gera sér neina grein fyrir því í tölum hver afföllin verða af gömlu lánunum. Formaður menntmn. getur kannski leiðrétt mig ef ég er að fara með rangt mál, en ég minnist þess ekki að hafa séð neinar tölur um þetta. Menn hafa reiknað út afföllin samkvæmt einhverjum formúlum samkvæmt nýja kerfinu, en ég minnist þess ekki að það hafi verið reiknað út hvað tapast af fé úr gamla kerfinu.
    Ein af þeim furðulegu breytingum sem hér er verið að gera og maður hlýtur að velta fyrir sér tilganginum er að löggjafinn og ríkisstjórnin ætla nú að fara að gera hreyfingum námsmanna erfitt fyrir. Þykir líklega nóg um styrkleika þeirra og röksemdafærslu í þessu máli sem öðrum. En hreyfingar námsmanna á Íslandi hafa verið mjög kröftugar gegnum árin, mjög málefnalegar og komið vel fram, alla vega á allra síðustu árum þó að ýmislegt hafi gerst á árum áður. En hér er verið að koma í veg fyrir að lánasjóðurinn innheimti félagsgjöld til námsmannahreyfinga eins og Sambands ísl. námsmanna erlendis og Bandalags ísl. sérskólanema, en með því er verið að gera þessum námsmannahreyfingum mjög erfitt fyrir. Í Háskóla Íslands og þeim skólum sem eru á háskólastigi, þar sem innheimt eru innritunargjöld, fá námsmannahreyfingarnar sitt fé í gegnum innritunargjöldin en það gegnir öðru máli um SÍNE og BÍSN. Fulltrúar þeirra hafa lýst yfir miklum áhyggjum út af þessu. Það er erfitt að sjá það hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að halda þessu áfram með því ákvæði að ef námsmenn vilja ekki greiða þetta gjald geti þeir ósköp einfaldlega krossað við það á blaði að þeir vilji ekki greiða þetta gjald. Þarna er um ákveðna þjónustu að ræða, en með þessu er verið að gera námsmannahreyfingunum mjög erfitt fyrir.
    Ég er þá komin að þeim kafla ræðu minnar sem fjallar um afleiðingar þeirra breytinga sem hér er verið að gera. En ég get ekki annað en reynt að draga það saman hverjar afleiðingar þessi lög muni hafa því að það er mergurinn málsins. Hér eru afdrifaríkar breytingar á ferð sem munu hafa áhrif á íslenskt samfélag til langframa ef okkur tekst ekki á allra næstu árum að breyta sjóðnum að nýju. En menn geta rétt ímyndað sér að það er ekki auðvelt verk að stíga skref til baka þegar einu sinni er búið að gera svona sjóð að fjárfestingarlánasjóði og hugsanlega hafi átt sér stað verulega breytingar í skólakerfinu og á fjölda námsmanna.
    Þær afleiðingar sem ég tel að þessar breytingar muni hafa eru í fyrsta lagi að ég held að það hljóti að vera augljóst mál að það muni draga úr aðsókn að langskólanámi vegna þess að nokkur hópur námsmanna mun ekki sjá fram á að geta framfleytt sér eða að geta borgað þessi lán að námi loknu. Þetta er staðreynd. Ég hef þegar hitt námsmenn, sérstaklega konur, sem hafa mjög miklar áhyggjur af þessu og sjá ekki fram á að geta haldið sínu námi áfram. Ég er t.d. að tala um konur í Kennaraháskóla Íslands. Afleiðingin mun auðvitað verða sú að færri munu sækja um lán í lánasjóðnum, en það er eins og ég hef áður nefnt einn megintilgangur þessara breytinga að draga úr umsóknum um lán úr sjóðnum.
    Í öðru lagi tel ég að þessar breytingar hafi þær afleiðingar að allnokkur hópur muni sitja uppi með mjög þunga greiðslubyrði lána og muni eiga í erfiðleikum með að standa í skilum og hreinlega að sjá sér farborða með þeim launum sem við búum við í landinu. Og þessi sami hópur mun eiga í erfiðleikum með að koma sér upp húsnæði og standa undir íbúðarkaupum því að það hlýtur að vera augljóst að þetta kemur ekki heim og saman. Og af því mun leiða að kjarabarátta háskólamanna og annarra þeirra sem hafa orðið að taka lán í lánasjóðnum hlýtur að harðna. Menn hljóta að verða að krefjast þess, ef fólk á einfaldlega að geta lifað við þetta, að launin hækki þannig að það verði einhver möguleiki á því að standa undir þessum greiðslum. Hér er verið að kalla á harða kjarabaráttu á næstu árum þegar fólk þarf að fara að greiða þessi lán. Og við vitum það, sem komum úr Bandalagi háskólamanna og Bandalagi háskólamanna hjá ríkinu, að þar hefur verið háð býsna hörð kjarabarátta með, því miður, heldur litlum árangri þannig að það er ljóst að í þjóðfélaginu er harla lítill skilningur á því að það eigi að borga fólki góð laun sem hefur góða menntun. Menntunin er því miður lítils metin og því er ekki annað sýnilegt en að það muni gerast að fólk fari fyrst og fremst í nám sem gefur af sér góðar tekjur en að annað muni mæta afgangi. Þá er ég að tala um greinar eins og kennslu og hjúkrunarfræði, heilbrigðisgreinar, þar sem vitað er að launakjörin eru það léleg að fólk getur ekki staðið undir þessum lánum ásamt því að sjá sér farborða og hugsanlega að koma sér upp húsnæði. Þetta gengur ekki upp. Að vísu er sá hugsunarháttur ríkjandi hér að fólk segir bara: Þetta reddast einhvern veginn. En þeir sem eru skynsamir og hugsa til framtíðar --- og það er mín reynsla sem kennari að ákaflega margt ungt fólk hugsar af mikilli alvöru um framtíðina --- munu sjá að með námsvali er það að stjórna framtíð sinni og hlýtur að velja sér nám þannig að það geti staðið undir þessum greiðslum.
    Hvað þýðir það? Það þýðir skort á fólki í ákveðnum starfsgreinum, offramboð þá væntanlega í öðrum. Og þetta þýðir röskun í skólakerfinu. Þetta þýðir ákveðna röskun í menntakerfinu. En sú röskun og sá samdráttur sem ég tel að muni fylgja þessu gerir ráðherra menntamála auðveldara í sínum niðurskurði.

Þegar nemendum fækkar í Háskóla Íslands og öðrum skólum verður hægt að draga þar saman seglin.
    Að mínum dómi verður enn ein afleiðingin sú að misrétti fer vaxandi. Það er alls ekki svo, sem haldið hefur verið fram í umræðunni, að það muni takast að tryggja hér jafnrétti til náms heldur er fyrst og fremst verið að auka misrétti eins og fram kom í greininni í Morgunblaðinu sem ég vitnaði til áðan. Þetta misrétti bitnar á konum, það bitnar á nemendum utan af landi og það bitnar á þeim sem eru í námi erlendis og ætla í nám erlendis. Og ég efast ekkert um að það mun verða erfiðara fyrir konur en hingað til að afla sér menntunar.
    Ég hef áður minnst hér á að með þessum breytingum er verið að auka eftirspurn eftir lánum í bankakerfinu og ég spyr aftur: Hvaða áhrif hefur það á vaxtastigið í landinu? Um það er ekkert vitað.
    En það sem skiptir þó kannski mestu máli er að þessar breytingar munu hafa í för með sér breytingar fyrir einstaklinga og þær munu hafa í för með sér breytingar fyrir þjóðarbúið og þjóðfélagið í heild. Það mun hafa áhrif á vísindarannsóknir í framtíðinni, það mun hafa áhrif á menninguna, menntakerfið, atvinnulífið eins og ég hef hér áður rakið. Það hlýtur að fylgja þessu ákveðin röskun. Það má vel vera að hún komi ekki fram strax og vonandi verða afleiðingarnar ekki eins afdrifaríkar og ég óttast. Vonandi verða þeir margir sem munu treysta sér til að fara í nám. En það sem er alvarlegast er að það eru þeir sem verst standa nú sem munu eiga erfiðast með að afla sér menntunar. Hér er verið að breyta áformum fjölda einstaklinga. Það verður fjöldinn allur sem þarf að hugsa sín mál upp á nýtt og taka aðra stefnu í lífinu.
    Og við hljótum að spyrja að lokum, herra forseti: Hvað gerist úti á vinnumarkaðnum? Hvað gerist ef fjöldi námsmanna ákveður að hætta við að fara í nám eða jafnvel hættir í námi? Hvert á það fólk að fara? Hvað á það að gera? Mér var að berast í hendur nýjasta eintak Vísbendingar, sem gefið er út af Kaupþingi, þar sem fjallað er um ástandið á vinnumarkaðnum. Það er alveg ljóst að menn telja að við séum komin út í nokkuð varanlegt atvinnuleysi og að það hefur gerst að nú er farið að bera á atvinnuleysi í hópum menntamanna sem var óþekkt áður. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Í þriðja lagi er spáð samdrætti í samneyslu á þessu ári og hefur það aldrei gerst fyrr. Liður í því er að takmarka verulega nýráðningar í opinbera geiranum, en fram til þessa hefur hið opinbera tekið við stórum hluta menntafólks sem nýlokið hefur námi.`` --- Nýlokið hefur námi, segir hér.
    Ég ætla að sleppa því að lesa meira upp úr þessari merku grein, en það er alveg ljóst að ástandið á vinnumarkaðnum er þannig að þar er ekkert rúm fyrir tugi eða jafnvel hundruð námsmanna sem munu hugsanlega hætta námi. Maður hlýtur að spyrja: Hvað verður um það fólk? Er ekki betra fyrir þjóðfélagið að styðja ungt fólk til menntunar en að horfa upp á vaxandi atvinnuleysi og þær hörmungar sem því fylgja?
    Að mínum dómi er verið að vinna skemmdarverk á Lánasjóði ísl. námsmanna sem ég óttast að eigi eftir að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda einstaklinga og samfélagið í heild eins og ég hef áður sagt. Og ég vil gera það að mínum lokaorðum að biðja hv. þm. stjórnarflokkanna að skoða nú hug sinn rækilega og hafna þeim vondu verkum sem hér er verið að vinna. Það er enn þá tækifæri til að snúa við blaðinu og bjarga Lánasjóði ísl. námsmanna. Það verður eftir því tekið hvað stjórnarþingmenn gera í þessu mikilvæga máli.