Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 19:31:00 (6443)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem hafa komið fram í ræðum manna sem ég þarf að svara. Því miður þurfti ég að bregða mér frá áðan þannig að ég missti af hluta úr ræðum manna, en ég hef fullvissað mig um að það var ekki af neinu að missa vegna þess að ég hafði heyrt þær ræður áður, en ég ætla mér ekki að tala langt mál.
    Ég ætla að koma að nokkrum atriðum sem fram komu fyrst í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrr í dag. Hann fór að nokkru leyti yfir þær spurningar sem hann lagði fyrir mig á fundi hv. menntmn. í gærkvöld og ég þarf í sjálfu sér ekkert að endurtaka af því sem hann þar greindi frá. Hann greindi þar jafnframt frá svörum mínum við sumum spurningunum og ég skal reyna að forðast að endurtaka nokkuð af því sem þar var sagt, þarf kannski aðeins að hnykkja á sumu.
    Hv. þm. hóf reyndar mál sitt á því að fara nokkrum viðurkenningarorðum um þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. og taldi þær vera til bóta og þakkaði það málafylgju minni hlutans á Alþingi. Ég læt mér það svo sem í léttu rúmi liggja að hann þakki stjórnarandstöðunni á þingi þær breytingar, en það er nú ekki þess vegna þótt ég geti alveg út af fyrir sig samþykkt ýmislegt af því sem hefur komið fram í máli minni hlutans hér á þingi. En ég rifja aðeins upp að þegar ég lagði þetta frv. fram og talaði fyrir því greindi ég frá því að það væri lagt fram í óbreyttri mynd frá því sem nefndin, sem falið var að semja það, gekk frá því og tók þá skýrt fram að ég væri reiðubúinn að athuga allar athugasemdir sem fram kæmu og kynnu að horfa til bóta. Það tel ég mig hafa gert og hv. menntmn. líka. En ef það er mikið sáluhjálparatriði fyrir viðkomandi þingmann að þakka sér það og málafylgjunni, þá það.
    Varðandi spurningarnar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson lagði fyrir mig á menntamálanefndarfundi í gær, þá þarf ég kannski aðeins að bæta við nokkuð af því sem hann þar nefndi. Í fyrsta lagi varðandi útkomu sjóðsins í ár og afganginn um áramót sem hefur orðið hér nokkuð að umtalsefni. Hv. þm. las fyrsta kaflann úr minnisblaðinu sem ég sendi hv. menntmn. í gær þar sem fram kemur að ef farið væri að óbreyttum reglum skorti 470 millj. kr. til þess að ná endum saman eða þá að lækka haustlánin um þá fjárhæð ef fylgja á forsendum fjárlaga og það er það sem við ætlum okkar að gera. Þetta las hv. þm. upp og ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta. Ég þarf aðeins að fara nokkrum orðum hins vegar um þær 800 millj. sem færast yfir áramót vegna þess að mér finnst vera lagður rangur skilningur í það. Það gerist ekkert annað en það að haustlánin færast yfir áramót og gert er ráð fyrir að þau greiðist í febrúarmánuði. Upp í þessi haustlán höfum við sem sagt þessar 800 millj. sem greiðast þá út í febrúarmánuði. Þetta eru hins vegar ekki beinir peningar. Það hefur áður komið fram hjá mér í þessari umræðu að þegar hafa verið greiddar tæplega 2.000 millj. af 2.220 millj. framlagi sem ákveðið er á fjárlögum þessa árs. Það þýðir að eitthvað af lánsheimildunum flyst sem sagt yfir.
    Þar fyrir utan er árið ekki liðið og þótt haustlánunum verði frestað fram yfir áramót, þá þarf að greiða nokkuð af sumarlánum og áætlun sjóðstjórnarinnar er að það séu um 100 millj. kr. sem eigi eftir að greiða af sumarlánunum. Auk þess þarf að reka sjóðinn þannig að ég hef ekki nákvæmari upphæð en þetta að nefna hér. Það eru sem sagt um 270 millj. eftir af ríkisframlaginu ógreiddar og samkvæmt áætluninni kunna 800 millj. af framlagi og lánsfjárheimildum að færast yfir áramótin.
    Ég hef svarað þessu með fjárlagaforsendurnar næsta árs að það er ekki hægt að gefa fullnaðarsvar við þeirri spurningu hverjar þær eru. En ég get hins vegar sagt, sem ég held að ég hafi raunar sagt áður, að í raun sé mótuð sú stefna að miða námsaðstoð næsta árs við hliðstæða fjárhæð og nú er í fjárlögum. Meira get ég í raun og veru ekki sagt á þessu stigi. Stefna ríkisstjórnarinnar og Alþingis hefur komið fram. Hún er sú að námsaðstoð fari ekki fram úr þeirri fjárhæð sem á fjárlögum er, fjárlögum yfirstandandi árs, og ég held að ég megi segja að með því sé í raun mótuð þessi stefna.
    Þriðja spurningin hjá hv. þm. var um drög að úthlutunarreglum LÍN sem eiga að vera tilbúnar fyrir 1. júní og ég hef svarað því að úthlutunarreglurnar séu af eðlilegum orsökum ekki tilbúnar. Það er ekki hægt að ganga frá þeim fyrr en ljóst er hvernig lögin sem starfað er eftir eru, en sjóðstjórnin hefur að sjálfsögðu hafið undirbúning að nýjum úthlutunarreglum eftir því sem sjóðstjórnin getur og haft þar að sjálfsögðu hliðsjón af frv., en ég vona að menn skilji að það er ekki hægt að gera þetta endanlega fyrr en frv. hefur orðið að lögum.
    Ég hef hins vegar greint frá sumum hugmyndunum hér í umræðunum sem komið hafa fram hjá sjóðstjórninni eins og t.d. því atriði að lánað verði fyrir hugsanlegum vaxtakostnaði sem kann að falla á námsmenn vegna þess að haustlánin frestast fram yfir áramótin. Það er ljóst að það er slæmt fyrir sjóðstjórnina og þó alveg sérstaklega fyrir námsmenn að þetta hefur dregist svo sem raun hefur orðið á.
    Fjórða spurningin varðaði numerus clausus. Hvað um námsmenn sem ná tilskildum námsárangri en rekast á numerus clausus? Hv. þm. greindi hér frá svari mínu á þingnefndarfundinum í gærkvöld, en ég held að ég hafi nú svarað nokkuð ákveðnar en hann hafði eftir mér. Ég greindi frá því að í dag fá þeir námslán sem standast faglegar kröfur en rekast á numerus clausus og það eru engin áform uppi um að breyta því. Og ég tel að það sé heimild í frv. og í væntanlegum lögum til að fara að óbreyttum reglum að því er numerus clausus varðar. Ég hef borið mig saman við framkvæmdastjóra sjóðsins um þetta og hann staðfestir þessa skoðun.
    Fimmta spurningin varðaði framfærslugrunninn og hvort ætlunin væri að nota sama framfærslugrunn og notaður hefur verið. Ég held ég hafi áður svarað því játandi og get endurtekið hér að það er reiknað með að framfærslugrunnurinn verði óbreyttur. Svo að ég svari þá spurningu hv. þm. Finns Ingólfssonar í leiðinni. Hann spurði um þetta sama, en bætti við hvort framfærslustuðlunum yrði breytt. Því get ég ekki svarað. Hann spurði mig jafnframt hvort það mundu koma einhver ákveðin fyrirmæli frá mér til sjóðstjórnarinnar um framfærslustuðlana, en svo verður ekki. Sjóðstjórnin kemur til með að fjalla um þann þátt.
    Hvernig fyrirhugað væri að reikna vextina til hærri lána, því hef ég líka svarað. Ég held að það sé átt við vextina sem námsmenn kunna að þurfa að taka í bankakerfinu meðan þeir bíða eftir láni lánasjóðsins. Ég hef áður skýrt frá því að það er gert ráð fyrir að námsmönnum verði bættur upp hugsanlegur vaxtakostnaður með því að bætt verði við lánin þegar þau verða reiknuð út. Þetta gerist væntanlega með þeim hætti að lánasjóðurinn kynni sér vaxtakostnað í bankakerfinu og hefur til viðmiðunar þegar reiknað er álag á lánin. Þetta verður aðferðin.
    Mig minnir að ég hafi verið spurður á fundinum í gærkvöld og hafði ekki tölur á reiðum höndum um hvað þetta kynni að kosta og hv. þm. Finnur Ingólfsson kom einnig inn á þetta í sinni ræðu áðan. Ég skal reyna að svara því. Sjóðstjórnin, og nú tek ég fram varðandi þá áætlun sjóðstjórnarinnar að þetta muni hafa í för með sér 1--2% hækkun, byggir á þeirri staðreynd að samkvæmt upplýsingum frá bankakerfinu er það aðeins fjórðungur fyrsta árs nema sem hefur leitað til bankakerfisins um lán og það er aðeins lítill hluti þessa fjórðungs fyrsta árs nemanna sem hefur óskað eftir sömu upphæð og þeir eiga í vændum frá lánasjóðnum. Það er nokkuð erfitt að gera svona áætlun, en það er mat sjóðstjórnarinnar að þetta verði 1--2% sem þýðir þá í tölum talið fyrir lánasjóðinn að þetta gætu verið 35--70 millj. sem það þýddi í hækkuðum lánum. Þetta er það sem ég get bætt við það sem ég hef áður sagt varðandi vextina.

    Síðan var spurt hvort leitað hafi verið eftir afstöðu banka til að veita námsmönnum lán og ég hef áður getið þess að það hefur verið gert, en að sjálfsögðu hafa ekki verið gerðir samningar við bankana. Það er ekki hægt fyrr en frv. er orðið að lögum, en viðbrögðin sem komið hafa frá bönkunum samkvæmt upplýsingum framkvæmdastjóra eru uppörvandi. En eins og ég segi er auðvitað ekki hægt að setjast niður til endanlegra samninga meðan frv. óafgreitt.
    Það kom líka fram og var lesið upp úr frétt í dag að viðræður við Búnaðarbankann væru ekki hafnar. Mér var vel kunnugt um það þegar ég svaraði þessu fyrr í umræðunum, en taldi ekki ástæðu til að vera að tíunda einstaka banka vegna þess að viðræðurnar voru misjafnlega á veg komnar.
    Ég get líka látið þess getið að samkvæmt upplýsingum bankanna hafa viðskipti nýnemanna við bankana verið góð. Samkvæmt upplýsingum bankanna hafa þeir reynst skilvísir lántakendur og það rennir stoðum undir að bankakerfið muni verða jákvætt í samningum við sjóðstjórnina um þetta mál.
    Þá var hér að lokum spurt um hvernig ætlunin væri að móta reglur um niðurfellingu lána við starfslok og því hef ég svarað áður að sjóðstjórnin hafi heimild til þess að líta þar á hvert einstakt mál. Hún mun eflaust móta sér ákveðnar starfsreglur, en hlýtur að líta til hvers einstaks máls sem þannig kann að koma upp og þá verður að sjálfsögðu litið til eignarstöðu viðkomandi skuldara.
    Fleiri atriðum sem komu fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar er aðeins rétt að koma að þó að ég hafi kannski nefnt það flest áður. Hv. þm. nefndi að þessi kerfisbreyting væri gerð til að aga námsmenn, eins og hann nefndi það, og inn á það atriði kom líka hv. þm. Finnur Ingólfsson í ræðu sinni áðan, fullyrti raunar að þetta væri ekki lengur peningamál heldur agamál. Þetta er í sjálfu sér ekki svo. Ég get lesið einn kafla úr minnisblaðinu sem ég sendi hv. menntmn. í gær, með leyfi hæstv. forseta. Það er varðandi ákvæðið í 6. gr. sem hér er helst til umræðu. Þar segir svo:
    ,,Ákvæðið hefði þau áhrif að gerbreyting yrði á skilum upplýsinga um námsárangur þar sem slíkar upplýsingar yrðu forsenda útborgunar láns. Þetta auðveldar sjóðnum mjög að fylgjast með því að menn sýni eðlilega námsframvindu og er forsenda þess að minnka fjárþörf sjóðsins með þeim hætti fremur en með beinni skerðingu allra námslána auk þess sem slíkar reglur hvetja til aukinna afkasta námsmanna. Nákvæmt mat heildaráhrifa á fjárþörf sjóðsins vegna þessarar breytingar er augljóslega erfitt. Til þess að varpa nokkru ljósi á hluta þessara fjárhagslegu áhrifa má taka dæmi af skólaárinu 1990--1991. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN hafa rúmlega 1.000 manns enn ekki skilað gögnum um námsárangur á því skólaári þótt nú sé nærri ár liðið frá lokum þess. Þar af telur sjóðurinn að 300--400 manns að lágmarki hafi þegið námslán en hætt námi í miðjum klíðum án þess að upplýsa hvort þeir hafi yfirleitt stundað nám. Starfsmenn LÍN áætla að þessir menn hafi fengið á bilinu 170--190 millj. kr. að láni úr sjóðnum skólaárið 1990--1991. Lögfesting umrædds ákvæðis kæmi í veg fyrir slík útlán. Ef fallið yrði frá ákvæðinu hefði það í för með sér að skerða þyrfti lán til allra námsmanna og haldið yrði áfram að veita fólki lán sem stundar lítið sem ekkert nám. Þá er gengið út frá því að ákveðin upphæð sé til ráðstöfunar til námsaðstoðar.``
    Ég held nú að það verði áfram í verkahring skólanna að aga námsmenn en ekki í verkahring lánasjóðsins, en ég tel það hins vegar eðlilegt lánakerfi sem krefst þess að lántakendur sýni árangur í námi. Og það er enn meiri þörf á slíkri breytingu þegar við höfum úr takmörkuðu fjármagni að spila. Ég lít á það sem staðreynd og hef margsinnis tekið það fram í þessum umræðum að ég telji það fullreynt hvað fjárveitingavaldið er reiðubúið að leggja fram til Lánasjóðs ísl. námsmanna og þá hefur einu gilt hvaða flokkar hafa verið í ríkisstjórn.
    Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi breytinguna sem 16. gr. frv. hefur í för með sér, þ.e. varðandi heimildina til að draga félagsgjald frá láni, þ.e. það þurfi að koma ósk frá lántakandanum með lánsumsókninni um að það verði gert. Þarna er þessu snúið við og hann telur að þetta veiki mjög stöðu námsmanna, einkum þeirra sem stunda nám erlendis, til þess að sækja þá þjónustu sem þeir vafalaust sækja. Hann dró fram máli sínu til stuðnings að þetta ætti ekki að gera varðandi ákvæðin í reglugerð Háskóla Íslands. Ég vil aðeins upplýsa í þessu samhengi þó að það skipti kannski ekki neinu máli varðandi þetta að ég hef fengið áskoranir frá miklum fjölda stúdenta við Háskóla Íslands um að breyta reglugerðinni einmitt í þessa veru. Þessa áskorun fékk ég núna í vetur, en hef ekki tekið neina afstöðu til þess þannig að stúdentar eru svo sem ekkert á einu máli um þetta atriði.
    Hv. þm. vitnaði svo í grein Elsu B. Valsdóttur og ég skil það svo sem vel vegna þess að í þessari grein er talað ósköp svipað og hv. stjórnarandstæðingar gera núna, en þeir sem minnast á þessa grein, það gerði hv. þm. Finnur Ingólfsson líka, tíunda sérstaklega að hún sé félagi í Vöku og ég hljóti þess vegna að treysta henni vel. Já, ég geri það að ýmsu leyti og mig langar til þess að lesa upp úr séráliti hennar sem fylgir frv. Þar segir hún í sínu séráliti:
    ,,Fyrir liggur að ríkisframlagið á ekki að verða hærra en 2,2 milljarðar næstu árin þó þörfin sé langt umfram það eins og fram kemur í niðurstöðu meiri hluta nefndarinnar.`` --- Svo segir hún með leyfi forseta: ,,Lækka má þessa fjárþörf á eftirtalda vegu:
    1. Herða endurgreiðslur.`` --- Það erum við að gera.
  ,,2. Láta endurgreiðslur hefjast tveimur árum eftir námslok í stað þriggja.`` --- Það er breytingin sem var gerð í meðförum hv. menntmn.
  ,,3. Fella niður lífeyrissjóðsgreiðslur.`` --- Það höfum við gert með frv.
  ,,4. Leggja á lántökugjald.`` --- Það er líka í frv.

  ,,5. Láta lánþega greiða kostnað við innheimtu.`` --- Það er sjónarmið.
    Ég get því með mjög góðri samvisku vitnað í ýmislegt af því sem Elsa B. Valsdóttir hefur látið frá sér fara þó að ég sé ekki sammála því sem hún segir í þeirri Morgunblaðsgrein sem hér var vitnað til.
    Hv. þm. Finnur Ingólfsson hafði nokkuð stór orð og töluverðan hávaða fannst mér, talaði um að þetta frv. sem hér væri á ferðinni væri fantaskapur og aðför að námsmönnum. Já, og að þetta snúist ekki lengur um peninga heldur að aga námsmenn. Ég hef þegar svarað þeim þætti.
    Hann talaði líka um 800 millj. margnefndu og ég hef einnig svarað þeim þætti.
    En aðeins meira um þetta með ögunina. Ég legg aðeins áherslu á það atriði að þegar við höfum úr takmörkuðu fjármagni að spila hljótum við að beina því til þeirra sem eru við nám en ekki til þeirra sem eru eitthvað að slugsa í námi eða eru kannski ekkert í námi. Það eru allt of mörg dæmi um slíkt. Og ég skil ekki hvers vegna menn vija halda í kerfi sem býður upp á slíkt. Ég bara get ekki skilið það. Þetta eru niðurgreidd lán og þess vegna er nauðsynlegt og eðlilegt að tryggja að peningarnir fari til þeirra sem uppfylla gerðar kröfur og kröfurnar eru þær að menn skili eðlilegri námsframvindu. Svona einfalt er það.
    Hv. þm. beindi svo nokkrum spurningum til mín, hvort það væri óbreytt afstaða mín að halda þessu frv. til streitu. Ég hef ekkert breytt um skoðun og þykist hafa rökstutt mínar skoðanir. Hann spurði hvort ákveðið hefði verið hvert tekjutillitið ætti að vera, þ.e. hvað menn mættu vinna sér inn miklar tekjur áður en lán færu að skerðast. Sú ákvörðun hefur ekki verið tekin, en það hefur verið rætt í lánasjóðsstjórninni eins og ég hef áður greint frá að færa þetta niður. Það er núna 50%, en ákvörðun hefur ekki verið tekin. Og ég tel skynsamlegt að gefa námsmönnum kost á að vinna sér inn meiri tekjur til þess að þeir þurfi þá ekki að taka eins há lán meðan þeir bíða eftir haustláninu. Þetta tel ég vera skynsamlega leið. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hefur hins vegar lagt áherslu á að þetta kynni að hafa í för með sér misnotkun, þ.e. þeir sem ekki þurfa á láni að halda taki það samt vegna þess, eins og hann hefur sagt, að 1% vextir fæla engan frá því að taka lán. Og þetta má vel rétt vera, að einhverjir notfæri sér þessa möguleika, að fá svona hagstæð lán, og í áætlunum sjóðstjórnarinnar er raunar gert ráð fyrir að þetta hafi í för með sér nokkra lánaaukningu fyrir sjóðinn.
    Ég hef svarað þriðju spurningu hv. þm. um framfærslugrunninn og framfærslustuðlana og ég hef líka svarað fjórðu spurningunni, hvort það væri hlutverk lánasjóðsins að aga námsmenn.
    Og svo aðeins vegna lokaorða hv. þm. Finns Ingólfssonar þar sem hann var að hnýta í núv. hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson og var að rifja upp samstarf þeirra þegar þeir voru saman í nefnd til að semja frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þá sagði hv. þm. Finnur Ingólfsson að hæstv. núv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hefði skrifað undir af ótta. Þetta vekur upp spurninguna um hvers vegna hv. þm. Finnur Ingólfsson skrifaði undir vegna þess að þeir skrifuðu nefnilega báðir undir. Það gerðu þeir. Það hefur hæstv. fjmrh. raunar þegar rifjað upp í þessum umræðum og hann hefur rifjað upp, sem sumum þykir afskaplega vont að skuli vera rifjað upp, að í þessum tillögum var einmitt talað um að leggja vexti á námslán þegar þau væru komin upp fyrir ákveðið mark. Ég tek fram að þá var ekki talað um 1% vexti heldur að öll lán umfram tiltekið mark skyldu bera venjulega bankavexti og greiðast upp á mun styttri tíma en önnur námslán.
    Herra forseti. Þótt ýmislegt fleira mætti segja lofaði ég í upphafi að vera stuttorður. Ég er kannski búinn að svíkja það nú þegar og ég læt máli mínu lokið.