Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:03:27 (6445)



     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Rétt eins og síðasti ræðumaður eða andsvarandi eða hvað maður á að segja, sem hér var í ræðustól, þá hlýt ég að minnast aðeins á sérálit Elsu B. Valsdóttur og mótmæla því hvernig hæstv. ráðherra meðhöndlar það álit. Hann notaði það hér í ræðustólnum eins og röksemdafærslu, eins og réttlætingu fyrir þeim niðurskurði í námslánakerfinu sem hann hefur nú haft forgöngu um. Auðvitað má ekki lesa þetta nál. þannig. Það er eins og að lesa Biblíuna með öfugum klónum því að það segir í þessu nál., með leyfi forseta:
    ,,Námsmenn hafa aldrei farið leynt með það að þeir eru sáttir við núgildandi lög um LÍN. Það er því af illri nauðsyn sem þeir ljá máls á breytingum á þeim, en námsmenn gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem sjóðurinn stendur frammi fyrir. Ég tel lykilatriði varðandi allar breytingar að tryggt sé jafnrétti til náms óháð efnahag og að námsmönnum sé gefið svigrúm til að koma undir sig fótunum eftir að námi lýkur áður en endurgreiðslur hefjast af þunga.``
    Síðan telur hún upp í fimm liðum við getum sagt málamiðlunartillögur af hennar hálfu í þessum lánasjóðsmálum. En þarna er ekkert um vextina sem hæstv. ráðherra er að leggja til hérna. Þarna er ekkert um að það skuli ekki greiða lán út á haustmissiri o.fl. slæmt sem er inni í námslánafrv. og sérstaklega var inni í því þegar það var lagt fram upphaflega, það er þó búið að gera á því einhverjar endurbætur. En að nota sérálit Elsu B. Valsdóttur með þeim hætti sem ráðherrann gerði áðan er honum ekki til sóma eða framdráttar.