Lánasjóður íslenskra námsmanna

143. fundur
Miðvikudaginn 13. maí 1992, kl. 20:26:22 (6451)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Einu sinni enn verð ég að segja að það er beinlínis rangt að verið sé að hindra menn í að hefja nám eða halda áfram námi. Þvert á móti er verið að tryggja jafnréttið og grunnframfærsluna með því að beina fjármagninu, takmörkuðu fjármagni til þeirra sem eru í raunverulegu námi en eru ekki bara innritaðir. Þetta eru staðreyndir.
    Fjárhagur LÍN batnar ekkert, segir hv. þm. Það er líka rangt. Fjárhagur sjóðsins er tryggður með þessum aðgerðum. Væri ekkert að gert stefnir sjóðurinn í gjaldþrot og það var stefna fyrri ríkisstjórnar. Og ég vona að ég sé ekki að snúa út úr þegar ég skil orð hv. þm. þannig að Framsfl. muni breyta þessari löggjöf að mér skilst í sama horf þó það verði ekki nákvæmlega eins og gildandi löggjöf er, en í sama horf. Ég ætla að leyfa mér að draga í efa að þótt Framsfl. komist til valda muni hann breyta ákvæðum 6. gr. ef þau verða samþykkt eins og við leggjum til. Ég held nefnilega að menn muni sjá það, þegar þetta er komið í lög, að þetta er það eina rétta.