Öryggismál sjómanna

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:57:50 (6464)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. um að nauðsynlegt er að vinna betur að þessum málum eins og ýmsum öðrum. En ég vil líka leggja áherslu á að skýrsla rannsóknarnefndar sjóslysa er gefin út þannig að menn geta kynnt sér niðurstöður hennar. Ég vil jafnframt að það komi alveg skýrt fram að mér er ekki kunnugt um að fjárskortur hafi hamlað því að rannsóknarnefnd sjóslysa hafi getað efnt til þeirra rannsókna og athugana sem henni hefur þótt nauðsynlegt í sambandi við sjóslys þannig að ég hygg að fyrir þessum þætti hafi af þeim sökum verið vel séð.
    Ég vil jafnframt að fram komi að lög um Landhelgisgæsluna eru nú í endurskoðun, m.a. til að treysta rannsóknarþátt Landhelgisgæslunnar og samræma aðgerðir á því sviði ef til sjóslysa kemur.