Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 10:58:54 (6465)

     Jónas Hallgrímsson :
    Virðulegi forseti. Ég fylgi úr hlaði fsp. hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, en hv. þm. er sem kunnugt er erlendis í opinberum erindagerðum. Fsp. þessi er á þskj. 862 og er til hæstv. samgrh. um endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði. Spurt er:
    ,,Hvernig standa rannsóknir til undirbúnings þverbraut og öðrum endurbótum á Árnanesflugvelli í Hornafirði?
    Hvenær er þess að vænta að niðurstöður liggi fyrir og ákvarðanir teknar um framhaldið?``
    Ég sá að vísu í gær mér til mikillar ánægju að deilt hafði verið út þskj. 908, brtt. frá hæstv. samgrh. við flugmálaáætlun 1992--1995, og gerir till. ráð fyrir 11 millj. kr. í nefndu efni. Fróðlegt væri að fá vitneskju um hvort hér er um endanlegan framkvæmdakostnað að ræða og hvenær þessi mikilvæga samgöngubót kæmist þá í gagnið.