Endurbætur á Árnanesflugvelli í Hornafirði

144. fundur
Fimmtudaginn 14. maí 1992, kl. 11:03:00 (6467)

     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka bæði fyrirspyrjanda og ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hafa komið fram þessari umræðu. Það vildi reyndar svo til að á fundi sem var haldinn með flugmálayfirvöldum og sveitarstjórnarmönnum í Austur-Skaftafellssýslu þann 15. des. árið 1990 var staðfest að gamla flugbrautarstæðið norðan við Árnanes eins og það var hugsað væri ákjósanlegasti kosturinn til að staðsetja flugbraut á. Því sem menn hafa svo verið að tala um Suðurfjörur og mannvirkjagerð í því sambandi er augljóslega ætlað til að drepa þessari umræðu allri á dreif.
    Það kom líka fram á þessum fundi að þverbraut við Árnanesflugvöll mundi auka öryggi við lendingar a.m.k. um 10% og það liggur líka fyrir að þær þrálátu áttir norðaustan og suðvestan gera að verkum að slíkir kaflar vara oft nokkurn tíma og geta valdið miklum erfiðleikum í flugsamgöngum á Árnanesflugvöll eins og nú er. Þess vegna verða menn að taka til höndum við að koma þessari þörfu framkvæmd áfram.